135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

eignir Ratsjárstofnunar.

156. mál
[15:33]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég er spurð að því hér hvernig staðið hafi verið að sölu eigna Ratsjárstofnunar á Gunnólfsvíkurfjalli, hverjum voru eignirnar seldar og hvert var söluverðið.

Ákveðins misskilnings gætir í fyrirspurninni. Þegar spurt er um eignir Ratsjárstofnunar á Gunnólfsvíkurfjalli er væntanlega átt við fasteignir á Bakkafirði — eins og ég líka skildi hv. þm. Þuríði Backman — sem Ratsjárstofnun var með í fjármögnunarleigu þegar stofnunin var rekin undir samningi við Bandaríkjamenn. Með öðrum orðum voru þessar fasteignir í eigu fjármögnunarfyrirtækis en ekki í eigu Ratsjárstofnunar eða Bandaríkjamanna. Við lok samnings Ratsjárstofnunar við Bandaríkjamenn í ágúst sl. voru fjármögnunarsamningar vegna þessara eigna gerðir upp og fasteignum skilað til eigenda þannig að þessar eignir komu ekki til kasta utanríkisráðuneytisins en við tókum við Ratsjárstofnun þann 15. ágúst sl.

Því er sem sagt til að svara að Ratsjárstofnun hafði ekki með sölu þessara eigna að gera, enda ekki eigandi þeirra. Mér er því ekki ljóst hverjum eignirnar voru seldar og hvert var söluverð eignanna því að eins og fyrr sagði gilti fjármögnunarsamningur um þessar eignir.

Í öðru lagi var spurt hvort haft hafi verið samráð við sveitarfélög í grennd um ráðstöfun eignanna og hugsanlega nýtingu þeirra. Því get ég ekki svarað, virðulegur forseti, þar sem Ratsjárstofnun var ekki eigandi umræddra fasteigna og hafði því hvorki með ráðstöfun né hugsanlega nýtingu þeirra að gera. Mér var hins vegar ljóst í sumar, þegar ég ferðaðist um Langanesbyggð í ágústmánuði sl. og átti þá m.a. fund með Birni Ingimarssyni, sveitarstjóra Langanesbyggðar, að menn hefðu nokkrar áhyggjur af þessum fasteignum. Ég fór einmitt á Bakkafjörð og sá þessar eignir. En vandinn er þessi, virðulegur forseti, að þær komu ekki til okkar kasta því að Ratsjárstofnun kemur ekki til utanríkisráðuneytisins fyrr en 15. ágúst og þessar fasteignir voru ekki í hennar eigu.