135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

203. mál
[20:01]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel mikilvægt að reynt sé að rýna í hver þróunin getur orðið og hvert hún stefnir. Það er líka mikilvægt að hafa á því skoðun hvað sé best í þeim efnum og grípa til aðgerða fyrir fram hvað það varðar. Ég vil benda á að í gegnum það kerfi sem hefur verið við lýði hefur verið hægt að halda uppi sérvinnslu, það hefur verið heimild til að þróa sérvinnslu í Búðardal, á Blönduósi o.s.frv. og vera með ákveðnar verðmiðlanir þar á milli. Það hefur verið markmið í sjálfu sér að halda úti rekstri og vinnslu á þessum stöðum.

Þetta frumvarp breytir kannski ekki miklu þar um en engu að síður opnar það fyrir möguleika á aukinni samþjöppun og gefur framleiðslufyrirtækjunum frjálsari hendur með að grípa til þeirra aðgerða sem þeim sýnist í þeim efnum. Það má segja að það sé eðlilegt á frjálsum markaði en þetta er hluti af kerfi sem við höfum byggt upp hvað varðar framleiðslu, vinnslu og dreifingu og það er mín skoðun að fara eigi varlega í að rugga því og opna leiðir til aukinnar samþjöppunar og fákeppni.

Innheimta á flutningsjöfnunargjaldi er í höndum fyrirtækjanna sjálfra en þau geta ákveðið að leggja hana niður og segja: Bíddu, það er allt of dýrt fyrir okkur að sækja mjólk á þennan og hinn staðinn. Þá er tryggingin sem lögin fólu í sér ekki lengur fyrir hendi. (Forseti hringir.) Mér finnst því að við eigum að horfa til framtíðar (Forseti hringir.) þó að þau atriði sem rætt er um í dag komi kannski ekki beint inn á það.