135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

fíkniefnavandinn.

[14:27]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Til að ná árangri í þessum málum þarf að hvetja fólk til jákvæðrar breytni og framkomu, ekki síst unga fólkið, og gefa því tækifæri til að breyta hegðun sinni ef því er að skipta og umbuna fyrir jákvæða breytingu á lífsháttum. Þannig getum við náð árangri í að efla heilbrigði þjóðarinnar, með samvinnu og frumkvæði á sviði heilsueflingar. Þess vegna þarf að efla starf grasrótarinnar, hinna frjálsu félagasamtaka og treysta samstarf þeirra við ýmsar opinberar stofnanir auk að treysta samstarf ólíkra fræðigreina eins og hv. málshefjandi nefndi.

Áherslur þær sem þegar hafa verið lagðar í samstarfsverkefni menntamálaráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytisins, Hins hússins, Lýðheilsustöðvar og nemendafélaga framhaldsskólanna um heilsueflingu framhaldsskólanema og forvarnir eru mikilvægar. Þær eru helstar:

Að gera úttekt á stöðu mála í framhaldsskólum með könnun á vegum fagráðs um heilsueflingu og forvarnir í framhaldsskólum.

Að aðstoða skólasamfélagið við þróun aðgerða og viðbragðsáætlunar.

Að tryggja stöðu forvarnafulltrúa í öllum framhaldsskólum og starfshlutfall þeirra.

Að efla samstarf milli framhaldsskólanna og heilsugæslunnar.

Að bjóða upp á árlegt námskeið fyrir forvarnafulltrúa, námsráðgjafa og hjúkrunarfræðinga sem starfa við heilsueflingu og forvarnir í framhaldsskólum.

Að sinna útgáfu á fræðsluefni fyrir forvarnafulltrúa, námsráðgjafa og hjúkrunarfræðinga.

Að auka samstarf við nemendafélög og Samband íslenskra framhaldsskólanema.

Það er ánægjulegt að sjá þessa aðila taka höndum saman um að vinna að þessu mikilvæga verkefni og að þeir skulu nálgast verkefnið á raunsæjan hátt. Því miður hefur stundum verið lagt upp með óraunhæf markmið í baráttunni við fíkniefnavandann og árangurinn ekki orðið eins og væntingar hafa staðið til.

Til að ná árangri í baráttu við þennan vágest þarf að greina vandann, bregðast skynsamlega við og efna til samvinnu allra þeirra sem best þekkja til. Hvetja þarf fólk til heilbrigðra lífshátta og mikillar samveru með börnum sínum og unglingum, sem eru í mestri hættu á að verða fíkniefnum að bráð.