135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 125/2007, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

268. mál
[14:30]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu sem ég mæli hér fyrir er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 125/2007, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn og fella inn í samninginn tilskipun nr. 2000/60 um aðgerðaramma bandalagsins um stefnu í vatnsmálum. Gerð er grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni og er ákvörðunin prentuð sem fylgiskjal með tillögunni ásamt þeirri tilskipun sem hér um ræðir.

Meginmarkmið tilskipunarinnar er að setja ramma um vernd yfirborðsvatns, grunnvatns, árósavatns og strandsjávar, sem og að hindra frekari rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vistkerfa og, að svo miklu leyti sem vatn hefur áhrif á önnur vistkerfi, tekur tilskipunin einnig til gæða þeirra. Þá er ætlunin að tryggja sjálfbæra vatnsnotkun með verndun nytjavatns, auka verndun og bæta vatnakerfi, t.d. með aðgerðum til að draga úr eða stöðva losun hættulegra efna, og stuðla að aðgerðum gegn flóðum til þess að bæta ástand vatns og sjávar.

Eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni er tilskipunin einungis EES-tæk að hluta og voru því þeir þættir sem lúta að náttúruvernd, t.d. lífríki við strendur, ár og vötn, ekki teknir upp í EES-samninginn, heldur aðeins atriði er varða mengun, vöktun með henni og eftirlit. Ákvæði er varða auðlindastjórnun og gjaldtöku voru sömuleiðis ekki tekin upp í samninginn.

Í sameiginlegri yfirlýsingu við ákvörðunina er áréttað að ólíkar landfræðilegar aðstæður kalli á mismunandi aðgerðir til að ná fram markmiðum tilskipunarinnar og að stjórnvöld geti því metið hvaða aðgerða þurfi að grípa til á hverjum stað. Ekki þurfi þar af leiðandi að grípa til aðgerða þar sem þeirra er ekki þörf, eða eins þetta er kallað í Brussel — og ég bið forláts á því, virðulegi forseti, að sletta hér — „No problem, no action“. Náðist samkomulag um að þetta væri áréttað í yfirlýsingu eftir að fulltrúar framkvæmdastjórnarinnar heimsóttu Ísland til að kynna sér aðstæður hér á landi.

Árið 2001 var skipaður starfshópur á vegum umhverfisráðuneytis og iðnaðarráðuneytis, með þátttöku fulltrúa hlutaðeigandi stofnana svo sem Umhverfisstofnunar, Orkustofnunar, Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar. Hlutverk hópsins var að fara yfir og undirbúa lögleiðingu tilskipunarinnar hér á landi. Lauk starfshópurinn störfum í mars síðastliðnum. Lagði hópurinn m.a. til að Umhverfisstofnun hæfist þegar handa við gagnaöflun og að starfshópur yrði skipaður til að gera tillögur að frumvarpi til laga um stjórnskipulag á sviði vatnamála í samræmi við tilskipunina. Til að innleiða tilskipunina hér á landi þarf að setja lög um stjórnun vatnsmála sem heyra undir umhverfisráðuneytið og að hluta til undir iðnaðarráðuneytið. Einnig þarf hugsanlega að breyta lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, auk þess sem breyta þarf ýmsum reglugerðum sem heyra undir umhverfisráðuneytið. EES/EFTA-ríkin þurfa ekki að innleiða tilskipunina fyrr en tveimur árum eftir að hún var tekin upp í EES-samninginn. Þá munu allir frestir í tilskipuninni taka mið af því hvenær gerðin kemur inn í EES-samninginn í stað ársins 2000, þegar tilskipunin var samþykkt hjá ESB. Þannig má gera ráð fyrir að tilskipunin verið að fullu komin til framkvæmda hér á landi árið 2017.

Eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni er ljóst að verulegur kostnaður mun koma til í tengslum við lögleiðingu tilskipunarinnar hér á landi, og vegna úttekta, vöktunar og skýrslugerða þegar tilskipunin verður að fullu komin til framkvæmda. Kostnaðurinn mun aðallega falla á ríkið, en einnig á sveitarfélög vegna framkvæmdar vatnsverndar. Starfshópurinn mat kostnað ríkisins vegna undirbúningsframkvæmda 194,2 millj. króna, sem mun dreifast á næstu ár, hugsanlega allt til ársins 2013. Hefur hluti þessa kostnaðar þegar fallið til og verið greiddur hlutaðeigandi stofnunum. Kostnaður heilbrigðiseftirlits, sem rekið er af sveitarfélögunum, mun ekki falla til fyrr en síðar og er ekki ljóst hversu mikill hann verður. Samráð hefur verið haft við sveitarfélögin um upptöku tilskipunarinnar frá því byrjað var að ræða upptöku hennar í EES-samninginn. Sömuleiðis verður unnið að framhaldi málsins í nánu samstarfi við sveitarfélögin, svo sem við gerð lagafrumvarps. Lögum samkvæmt verður þó öll vöktun á hendi ríkisins, þ.e. Umhverfisstofnunar.

Ég legg til, frú forseti, að að lokinni þessari umræðu verði þessari tillögu vísað til síðari umræðu og til hv. utanríkismálanefndar.