135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

viðurkenning á prófgráðum frá löndum utan EES.

222. mál
[18:27]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fylgi hér úr hlaði fyrirspurn sem var lögð fram af varaþingmanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Paul Nikolov, um viðurkenningu á prófgráðum frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Eins og kunnugt er hafa almennt gilt talsvert rýmri reglur um þá útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið en aðra útlendinga. Á yfirstandandi þingi hefur þegar verið rætt í þessum sal um starfsleyfi fyrir sérfræðinga sem koma frá löndum utan EES. Það var til umræðu í fyrirspurnatíma, ef ég man rétt að frumkvæði hv. þm. Guðfinnu Bjarnadóttur, og það má kannski segja að þetta mál sé angi af sömu umræðu.

Það hefur reynst útlendingum sem hingað koma frá löndum utan EES erfiðara og flóknara að fá prófgráður metnar og að fá t.d. að halda áfram námi hér hvort sem er á framhaldsskóla- eða háskólastigi. Hugsanlega má stundum tengja það ólíkri nálgun innan viðkomandi fræða milli ólíkra landa. Það er því ekkert einhlítt í þessum efnum en stundum virðist þó sem um sambærilegt nám sé að ræða.

Spurt er hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að prófgráður frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins verði viðurkenndar hér svo að prófgráðuhafi geti stundað áframhaldandi nám í framhalds- og háskólum eða fengið útgefið starfsleyfi þegar um löggilt starf er að ræða.

Er einhver vinna í gangi hjá ráðuneytinu við að meta nám í löndum sem standa utan EES í ljósi þess að það getur verið talsverður munur milli þeirra landa sem standa utan EES? Ef svo er ekki, þarf þá ekki að leggja í einhverja vinnu við slíkt mat á námi?