135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

breytingar á þingsköpum.

[10:33]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Breytingar á þingskapalögum eru nauðsynlegar en mikilvægt er að rjúfa ekki þá hefð að sátt ríki jafnan um þær breytingar sem gerðar eru. Með nýju frumvarpi meiri hlutans á Alþingi undir forustu forseta þingsins hefur þessi sátt nú verið rofin því að frumvarpið er sett fram í andstöðu við VG, stærsta stjórnarandstöðuflokkinn á þingi. Við höfum fyrir okkar leyti lagt áherslu á að gera þinghaldið markvissara og vinnustaðinn jafnframt fjölskylduvænni. Það yrði m.a. gert með því að færa næturstarf yfir á dagvinnutíma. Jafnframt þarf að gæta að því að hlutur stjórnarandstöðu verði í engu rýrður. Hlutverk Alþingis er auk löggjafarstarfans að veita ríkisstjórn og stjórnarmeirihluta á hverjum tíma aðhald.

Í allflestum tilvikum fer þingstarfið fram í markvissri málefnalegri vinnu. Flestum þingmálum er til lykta ráðið í til þess að gera skömmum umræðum. Sú brotalöm hefur helst verið að stjórnarfrumvörp hafa komið seint fram og af þeim sökum fljótaskrift á afgreiðslu vegna þrýstings um flýtimeðferð frá ríkisstjórn. Þegar á heildina er litið er hins vegar um vönduð vinnubrögð að ræða á Alþingi Íslendinga. Síðan eru það mál sem skera sig úr og hafa kallað á langa umræðu. Ég nefni aðild Íslands að hinu Evrópska efnahagssvæði þar sem tekist var á um hvort samningurinn bryti í bága við stjórnarskrá Íslands. Ég nefni hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins, sölu Símans, vatnalögin, einkarekinn gagnagrunn heilbrigðisupplýsinga og síðast en ekki síst Kárahnjúka.

Þetta eru ekki mörg mál þegar litið er til síðustu áratuga. Þetta eru hins vegar hitamál okkar samtíðar og það er fyrir umræðu um þau sem frumvarp þingforseta gengur út á að skrúfa. Takmarka á umræðu um Kárahnjúka framtíðarinnar. Ræðutími er nú sem kunnugt er ótakmarkaður við 2. og 3. umr. Ef breytingin á þingskapalögum nær fram að ganga fá almennir þingmenn að tala í korter og svo í 5 mínútur í senn við 2. og 3. umr. Við höfum boðið upp á málamiðlanir. Þeim hefur verið hafnað. (Forseti hringir.) Okkur hefur verið sagt að við fáum meira fjármagn til okkar starfa og betri aðstöðu en þá yrðum við líka að fallast á skerðingu málfrelsis. (Forseti hringir.) Við höfum sagt: Með málfrelsið verslum við ekki.