135. löggjafarþing — 33. fundur,  29. nóv. 2007.

2. umr. fjárlaga.

[11:18]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég styð afdráttarlaust þá kröfu sem var reyndar sett fram í gærkvöldi, gert undir nóttina, af þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þegar dreift var á Alþingi nefndaráliti og breytingartillögum meiri hlutans við fjárlagafrumvarpið til 2. umr. Þessu var dreift hér alveg á síðustu mínútu þess sem gildandi þingsköp heimila og geta menn þá velt fyrir sér hversu tæpt hafi verið tiplað á því en þar stendur að breytingartillögum og nefndaráliti skuli skilað nóttu fyrir að það skuli vera tekið á dagskrá. Hvenær hefst nóttin? Það getur verið skilgreiningaratriði en með stærsta mál þingsins eru menn að tipla á mörkum þingskapanna og það finnst mér ekki vera til hróss fyrir hæstv. forseta.

Vinnan í fjárlaganefnd hefur á margan hátt verið unnin með öðrum hætti í haust en undanfarin ár. Ég fagna breyttum viðhorfum formanns og varaformanns fjárlaganefndar og annarra sem þar starfa en engu að síður hafa þeir náttúrlega verið háðir framkvæmdarvaldinu. Það hefur gengið mjög erfiðlega að fá grunnupplýsingar frá framkvæmdarvaldinu til að geta unnið fjárlögin. Þegar málið er tekið út úr nefnd við 2. umr. er það gert með nokkrum fyrirvara vegna þess að enn eru ókomnar upplýsingar sem um var beðið. Enn er ljóst að breyta þarf einhverjum liðum og það sem stærst var, fjárveiting upp á tæpar 100 millj. kr. sem laut að breytingum á starfsháttum þingsins og þingsköpunum sem er, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson minntist á áðan, órjúfanlega tengt. Hafi frumvarpið og þessi tala verið tekin inn í þingið á mánudag og átt að vera óbreytanleg, hvað var forsetinn þá að ræða við aðra flokka um þetta mál ef tekin hafði verið ákvörðun um að þetta yrði keyrt í gegn þegar á mánudag? (Gripið fram í: ... ræða við vinstri græna?) Já, og stofna ferðasjóð fyrir hv. þm. Kristin H. Gunnarsson. Þá var þetta einmitt til umræðu í þinginu og það var nefnt í fjárlaganefnd að ekki væri ljóst hver yrðu endanleg afdrif þessa máls og þess vegna var málið ekki afgreitt nema með þessum fyrirvara.

Enn hafa ekki borist (Forseti hringir.) upplýsingar frá framkvæmdarvaldinu sem við höfum krafist varðandi fjárlagavinnuna og það væri nær að forseti beitti sér við framkvæmdarvaldið til þess að hægt sé að sinna löggjafarstarfinu almennilega.