135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:26]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarni Harðarson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gera athugasemdir við nokkur atriði í ræðu hv. þm. Ármanns Kr Ólafssonar, sér í lagi að hv. þingmaður sagði að e.t.v. þyrfti að vera til hagdeild hjá fjárlaganefnd. Ég er ekki á móti því að hafðir séu sérfræðingar í vinnu fyrir þingið þótt heldur sé ég aðhaldssamur á öll opinber útgjöld. Ég held þó að það hefði afskaplega litlu breytt vegna þess að núverandi meiri hluti fjárlaganefndar hefur ákveðið í samráði við ríkisstjórnina að skella algerlega skollaeyrum við ráðleggingum allra hagfræðinga. Engu hefði breytt þótt við hefðum haft enn einn hagfræðihópinn til að ráðleggja okkur að gera ekki það sem verið er að gera. Það eru einfaldlega ekki ráð neinna hagfræðinga að farið sé fram með fjárlög eins og þau sem nú liggja fyrir.

Hv. þingmaður vék að því að fjárlaganefnd horfi til þess hversu mikil eyðsla væri í krónum talið í lokaorðum sínum og það er alveg rétt. Heildareyðslan er mun meiri nú en áður. Við komum þó ekki í veg fyrir harða lendingu með því að setja hagkerfið á annan endann núna. Þvert á móti verður hin harða lending verri eftir því sem við höldum uppi falskara gengi, hærri vöxtum og meira ójafnvægi — því verra verður að lenda þegar aðeins fer að draga úr. Ekki þarf fleiri hagfræðinga til að segja okkur það. Það hafa þegar margir gert.