135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar.

[15:14]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr um afstöðuna til Evrópusambandsins. Hún liggur mjög skýr fyrir, það er ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það þarf ekkert að spyrja að því hér, það hefur margverið rætt í salnum. Hæstv. viðskiptaráðherra tekur það sérstaklega fram í umræddu viðtali þar sem hann að öðru leyti lýsir sínum persónulegu skoðunum hvað varðar verðtryggingu á innlendum fjárskuldbindingum. Um það geta menn haft ýmsar skoðanir og hafa haft í gegnum árin en ég minnist þess ekki öll þau ár sem ég sat í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum, þar sem Framsóknarflokkurinn hafði viðskiptaráðherra, að það væri neitt sérstakt baráttumál Framsóknarflokksins að afnema verðtrygginguna á Íslandi.

Verðtryggingin kom til hérlendis vegna sérstakra aðstæðna. Það var einmitt formaður Framsóknarflokksins sem beitti sér sérstaklega fyrir henni, Ólafur heitinn Jóhannesson. (Gripið fram í: … skerðing …) Það var þarfamál á þeim tíma þegar verðtryggingunni var komið hér á. (Gripið fram í.) Menn verða að hafa heildarmyndina fyrir sér þegar þeir tala um þessa hluti.

Hér var áðan rætt um lífeyrissjóði. (GÁ: Lesa Moggann.) Hvað skyldi verða um … Ég var að hæla fyrrverandi formanni Framsóknarflokksins, hv. þingmaður. Hvað skyldi verða um uppsprettu langtímafjármagns á Íslandi við það að afnema verðtrygginguna? Það eru svona hlutir sem menn verða að reyna að gera sér grein fyrir til hlítar áður en lengra er haldið í slíkum efnum og það verður hvorki gert í stuttu blaðaviðtali né úr ræðustól undir því formi sem hér er boðið upp á í dag.

Hvað evruna varðar þarf auðvitað ekki að svara því frekar, það hef ég oft gert af minni hálfu. Upptaka hennar er heldur ekki á dagskrá núverandi ríkisstjórnar.