135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:33]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í þessum lið er leitað heimildar til að selja húsnæði Náttúrufræðistofnunar Íslands við Hlemm. Ég tel alveg fráleitt að selja húsnæðið sem stofnunin er í áður en og án þess að stofnuninni hafi verið séð fyrir nýju húsnæði. Það eru nokkrar mínútur síðan hér var samþykkt með 29 atkvæðum meiri hlutans að taka 80 millj. af fjárlögum næsta árs sem þar voru ætlaðar í frumvarpinu til húsnæðismála Náttúrufræðistofnunar Íslands. Ég mótmæli því að þeir peningar séu teknir út en húsnæðið selt. Ég hef miklar efasemdir um að þetta húsnæði í reynd tilheyri aðeins Náttúrufræðistofnun Íslands, heldur er hér um heimanmund Náttúruminjasafns Íslands að ræða, húsbyggingarsjóð Hins íslenska náttúrufræðifélags og tillegg Háskóla Íslands af happdrættisfé sem leggja átti inn til nýbyggingar náttúrufræðisafns í Reykjavík. Ég tel þetta hneyksli, herra forseti, (Forseti hringir.) og greiði atkvæði gegn þessari tillögu.