135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

fjárhagur sveitarfélaga og samskipti ríkisins við þau.

[14:26]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að þessi mál eru í eðlilegum farvegi eins og samið var um milli ríkis og sveitarfélaga fyrr á þessu ári. (Gripið fram í: Hvenær gerist eitthvað?) Fjármálaráðherra fór vandlega yfir þetta mál á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna og gerði þar mjög skilmerkilega grein fyrir hvaða valkostir væru fyrir hendi. Menn þurfa síðan að setjast niður og átta sig á því hvernig einfaldast er að marka leiðina áfram á grundvelli þess samkomulags sem gert var á síðasta vetri.

Ýmsir hér hafa talað um fjármagnstekjuskatt í þessu sambandi. Ég hygg að í ræðu fjármálaráðherra á fjármálaráðstefnunni hafi verið farið mjög vel yfir það hversu óheppilegur sá skattur væri sem tekjustofn fyrir sveitarfélögin. Ekki þarf annað en að ímynda sér það ástand sem nú er á fjármálamörkuðum og hvort sveiflur verði ekki í þeim skatti miðað við hvernig afkoma ýmissa fyrirtækja er nú að breytast og sviptingar miklar á fjármálamarkaði. Það þarf aðeins að gefa slíkum hlutum gaum áður en menn kasta fram hugmyndum af þessu tagi og það var einmitt það sem fjármálaráðherra gerði á fjármálaráðstefnunni.

Nei, virðulegi forseti, þessi mál eru í eðlilegum farvegi á milli þessara tveggja stjórnsýslustiga og þeir sem þar eru í forsvari, fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra, munu fylgja því máli eftir með eðlilegum hætti. (Gripið fram í: Og ekkert gerist.)