135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[17:09]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Mér þætti vænt um ef hæstv. forsætisráðherra gæti komið og hlýtt á mál mitt stutta stund ef hægt væri að verða við því. Ég mætti honum hér í húsinu þannig að hann er á staðnum.

(Forseti (RR): Forseti mun koma þeim boðum til hæstv. forsætisráðherra, hv. 3. þm. Suðurk. Guðni Ágústsson.)

Ég sé að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er sestur hér og ég fagna því og svo sé ég þá göfugu og góðu þingmenn sem ætla að hlýða á mál mitt.

Ég fór yfir það við upphaf þessa máls að hér væri illa að verki staðið. Í rauninni var þetta óvænt mál, hvernig forustumenn ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra, unnu að þessu máli strax og núverandi ríkisstjórn var mynduð og óásættanlegt fyrir lýðræðið í landinu og ekki í takti við neitt sem hefur gerst í þinginu svo ég muni. Stjórnarráðinu hefur aldrei verið breytt með þeim hætti að tveir menn komi saman á Þingvöllum, þó að það séu forustumenn stjórnmálaflokka, og vinni að slíku máli á þennan hátt. Ég hygg að það geti orðið mjög dýrt fyrir ríkið, þetta er verk sem ekki mun standa lengi, þegar upp verður staðið, það kostar bæði mikla peninga og mun hafa í för með sér afföll á mjög góðu fólki sem hefur þjónað ríkinu um langan tíma. Ég undra mig á þessum vinnubrögðum og hefði í rauninni ekki trúað því á hæstv. forsætisráðherra að hann ynni að þessari breytingu á Stjórnarráðinu með þeim hætti sem hann gerði. — Kemur nú hæstv. forsætisráðherra í salinn og fagna ég því. — Ég ætlaði að eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra á málefnalegan hátt sem ég hef reyndar gert áður í þessu máli en góð vísa er aldrei of oft kveðin og þegar maður hefur sannfæringu er um að gera að beita henni.

Ég var að fara yfir það áðan að hin hörmulegu vinnubrögð við breytingu á Stjórnarráðinu komu held ég öllum á óvart, ekki bara okkur í stjórnarandstöðunni, ég tala nú ekki um okkur fimm sem sátum í ríkisstjórn með hæstv. forsætisráðherra síðustu tólf ár og vorum farið að ræða mikið um breytingar á Stjórnarráðinu þegar leið á þann tíma. Þá var það viðhorf uppi að mikilvægt væri að ná samstöðu, ekki bara á milli flokkanna sem sátu í ríkisstjórninni heldur á milli allra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi. Þess vegna var það náttúrlega undarleg gjörð á Þingvöllum þegar tveir einstaklingar af 63 sem hér sitja, að vísu forustumenn í tveimur stórum flokkum, gerðu slíkt samkomulag um breytingar á Stjórnarráðinu og tilfærslu á verkefnum að þær eru ekki í takt við nokkra skynsemi, margar þeirra, þó að auðvitað muni ég viðurkenna og fara yfir það sem er ágætt í málinu.

Við höfum átt á marga mjög sterka stjórnmálaforingja á Íslandi sem jafnan hafa varðveitt og staðið fast við lýðræðið og gert sér grein fyrir að mikilvæg verkefni sem menn ráðast í þurfa samstöðu, verk sem eiga að standa lengi og vera til hagræðingar eins og hvað Stjórnarráðið varðar, bæði að verkefni ráðuneytanna heyri undir það ráðuneyti sem þeim ber og ekki síður hitt að draga úr kostnaði og efla Stjórnarráðið sem slíkt.

Hæstv. forseti. Ég ætla að vitna í góða greinargerð Bjarna Benediktssonar, sem var lagaprófessor af bestu gerð. Ég hygg þeir lagaprófessorar sem stjórnmálamenn vitna enn mjög til og eru af þeirri stærðargráðu að mikið mark var tekið á þeim í lifandi lífi, standi enn upp úr hvað varðar þegar stjórnmálamenn taka að breyta kerfinu. Það eru þeir Ólafur Jóhannesson og Bjarni Benediktsson. Bjarni Benediktsson sagði, þegar hann flutti þingsályktun um endurskoðun löggjafar um Stjórnarráð Íslands fyrir fast að 50 árum, með leyfi forseta:

„Löggjöf um Stjórnarráð Íslands er mjög í molum og hefur skipun ráðuneyta eða stjórnardeilda orðið mjög með öðrum hætti en þar er ráðgert. Ráðuneytum hefur verið fjölgað með ákvörðun einstakra ríkisstjórna eða jafnvel ráðherra. Leikur það orð á að stundum hafi vandi við val milli tveggja manna í eitt embætti orðið til þess að ráðuneytum væri fjölgað svo að forstöðumennirnir yrðu tveir í stað eins áður. Í öðrum tilfellum hafa jafnvel enn veigaminni ástæður leitt til stofnunar nýs ráðuneytis. Þvílík lausatök á hinni æðstu stjórn landsins eru óheppileg hvernig sem er á litið. Efnt hefur verið til aukins kostnaðar án þess að nokkur trygging væri fyrir bættum afgreiðsluháttum, á stundum hefur hið gagnstæða beinlínis orðið afleiðingin.

Með fjölgun starfsmanna og flóknara kerfi hefur málsmeðferð orðið lakari en áður. Af augljósri fjársóun og skriffinnsku í sjálfu Stjórnarráðinu hefur leitt að mun erfiðara hefur verið að standa á móti sams konar þróun í ríkiskerfinu að öðru leyti. Eftir höfðinu dansa limirnir. Brýn nauðsyn er því til að nýrri skipan verði komið á starfshætti í Stjórnarráði Íslands. Æskilegast er að þær umbætur verði lögfestar með samráði eða samvinnu ríkisstjórnar og stjórnarandstæðinga svo að líkur verði fyrir meiri festu í þessum efnum en verið hefur. Þess vegna er hyggilegt að sérstök nefnd verði kosin með þeim hætti, svo sem hér er lagt til, í því skyni að annast hina nauðsynlegu endurskoðun.“

Þetta sagði Bjarni Benediktsson lagaprófessor fyrir fast að 50 árum og flutti um það tillögu hér sem stjórnarandstæðingur. Hún var samþykkt og kann að hafa verið upphaf mikilla breytinga. Mér finnst eins og ég sé að lesa tíðindi dagsins, að varnaðarorð hans eigi við þennan, sem ég hef kallað, hæstv. forsætisráðherra, ljótasta bandorm sem ég hafi séð í þinginu í minni tíð. Hann mun leiða til mikillar óskilvirkni í kerfinu og ég lýsi fullri ábyrgð á hendur hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnar að ganga svona fram.

Það er auðvitað afstaðið, gerðist á sumarþinginu, að meiri hlutinn knúði í gegn breytingar á Stjórnarráðinu, sameinaði ráðuneyti og klauf í sundur til að búa til embætti fyrir einn og einn ráðherra. Minnstu ráðuneytin, sem hefðu vel átt saman eins og iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, voru klofin upp hvort fyrir sinn ráðherrann strax á sumarþingi. Landbúnaðarráðuneytinu var stungið inn í sjávarútvegsráðuneytið og ég lýsi fullri ábyrgð á hendur hæstv. forsætisráðherra að hafa unnið þannig með Samfylkingunni að því að höggva af landbúnaðarráðuneytinu mörg verkefni og stinga því nánast í skúffu í sjávarútvegsráðuneytinu. Rödd landbúnaðarins mun ekki hafa það vægi á eftir sem hún hafði áður.

Ég vil koma því að enn og aftur að Sjálfstæðisflokkurinn hefur brugðist í þessu efni. Því miður hefur hann líka skipt um skoðun á ýmsum sviðum sem áður voru mjög ríkar í stefnuskrá hans hvað Stjórnarráðið varðar.

Ég man eftir örlagaríkum dögum fyrir 1990 þegar við vorum ungir og nýir þingmenn, ég og hæstv. forsætisráðherra. Þá var stiginn heilmikill darraðardans og Sjálfstæðisflokkurinn var heill gagnvart landbúnaðinum á þeim tíma, sem hann er nú ekki með þessum vinnubrögðum. Hvenær hefur það gerst á Íslandi að ráðuneyti með tveimur verkefnum sé ekki kallað í stafrófsröð, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti? Það er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti sem sýnir hver virðingin er og hver forgangsröðin.

Það er ljóst, hæstv. forsætisráðherra, að Framsóknarflokkurinn var tilbúinn í að breyta. Hér eru ýmsir þingmenn að tala um að við séum íhaldssamir og höfum ekki viljað breyta Stjórnarráðinu. Við vorum tilbúnir að vinna það verk á síðasta kjörtímabili og reyna að ná um það samstöðu að fara í uppstokkun á Stjórnarráðinu með svolítið mennilegum hætti til að jafna stærð ráðuneytanna og þess vegna hagræða verkefnum og gera kerfið skilvirkara. En hér er farið í öfuga átt. Ég minnist þess að hæstv. forsætisráðherra hafi sagt undir lok síðasta kjörtímabils að engin samstaða væri um þessar breytingar eða ekki hægt að ná því við stjórnarandstöðuna. En svo er hægt að ná breytingu og samstöðu um það með einum öðrum stjórnmálaforingja á Þingvöllum. Ég verð að segja fyrir mig að ég hef fundið megna óánægju með þá tilfærslu sem hér er ætluð og er óskynsamleg eins og ég mun fara yfir í ræðu minni. Ég hef orðið var við óánægju í báðum stjórnarflokkum, grasserandi óánægju. Ég veit að nokkrir sjálfstæðismenn munu skila séráliti eða a.m.k. ekki fylgja málinu. Sjálfstæðismenn sögðu á sumarþinginu að þeir mundu snúa mörgum til að koma í veg fyrir þessi mistök. Það er því lítil samstaða um þetta.

Við framsóknarmenn töldum að tíu ráðuneyti með svipað vægi væri markmið hvað ráðuneytin og Stjórnarráðið varðar. Við vorum samt sem áður ekki algjörlega búnir að ná saman, sumir okkar og margir töluðu um atvinnuvegaráðuneyti. Ég væri í sjálfu sér ekkert ósáttur við að landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið eða sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefðu farið saman en það gera menn bara af meiri virðingu en hér er gert. Menn höggva ekki allt af landbúnaðarráðuneytinu til að stinga því inn í sjávarútvegsráðuneytið. Ég sé afleiðingar þess. Heilmikið af hæfu fólki hefur leitað sér annarrar atvinnu og er farið. Svo er náttúrlega ljóst að af þeim tilflutningi, sem ég mun hér fara yfir á eftir hvað varðar landgræðslu og skógrækt og landbúnaðarháskólana, eru verkefni færð frá landbúnaðinum undir önnur ráðuneyti sem ég tel mjög óheppilegt.

Ég er sannfærður um það, sé þess merki í fjárlögunum og finn á fólki sem ég hef talað við í ráðuneytunum að undirbúningur fyrir þær miklu breytingar sem hér eiga að eiga sér stað undir áramót er ónógur. Það er klárt mál að fjárhagsleg hagræðing verður ekki af þessi verkefni. Ríkið mun tapa mannauði og mun í næstu fjáraukalögum, eins og hér hefur komið fram hjá hv. 7. þm. Suðurlandskjördæmis. Hv. þm. Atli Gíslason hefur giskað á að kostnaður ríkisins af þessum samfundi á Þingvöllum, tveggja stjórnmálaforingja, muni kosta milljarð í næstu fjáraukalögum.

Hið alvarlegasta í þessu er að ráðuneytin sem eiga að taka við verkefnum eru ekki undir það búin. Þetta er því allt saman glundroðakennt og óásættanlegt. Það getur vel verið að Sjálfstæðisflokkurinn, eftir 16 ára veru í Stjórnarráðinu, telji sig eiga bæði Alþingi og Stjórnarráðið með húð og hári og þurfi þar ekki að tala við nokkurn mann, að það sé bara réttur þessa flokks sem svo lengi hefur farið með völd í landinu að gera þetta einn og sjálfur. Það getur vel verið að sú lýðræðishugsun sé farin sem bjó með Bjarna Benediktssyni á sínum tíma og var hann þó talinn ráðríkur nokkuð. En það kann að vera að af því að hann átti ekki svo langan tíma samfelldan þá hafi honum aldrei dottið í hug að hann ætti þetta einn og mætti fara með það eins og einkamál síns flokks.

Nú ber miklu meira á þessari valdatöku Sjálfstæðisflokksins á öllum sviðum. Hann telur þetta sitt mál og að öðrum komi það ekki við. Það sér maður náttúrlega á umfjöllun um þennan ljóta bandorm, að við marga hefur ekki verið talað sem átti að tala og ekkert tillit tekið til athugasemda sem komu fram. Ég harma þau mistök og tel að öðruvísi hefði þurft að standa að þessum málum.

Ég vil taka sérstaklega undir nefndarálitið sem hv. þingmenn Atli Gíslason og Siv Friðleifsdóttir skrifa undir. Ef ég hér gríp niður í það þá skulum við skoða hvað ríkisstjórnin vinnur ómarkvisst. Það er eins og hún sé utan við það sem hún skikkar aðra til. Minni hlutinn bendir t.d. á að í nóvember 2007, fyrir mánuði, kom út handbók um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa, með leyfi forseta:

„Útgefendur eru forsætisráðuneytið, dóms- og kirkjumálaráðuneytið og skrifstofa Alþingis. Frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingu á ýmsum lögum um tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands brýtur gegn öllum meginsjónarmiðum og viðmiðunum sem þar eru reifuð um vandaða frumvarpssmíð,“ — segir í greinargerð minni hlutans.

Því leggur minni hlutinn til að þessum bandormi og þessum breytingum verði vísað frá. Þau telja að frumvarpið standist ekki vönduð vinnubrögð og undir það vil ég taka.

Minni hlutinn bendir á fleiri breytingar, m.a. að veigamiklir félagslegir þættir sem varða sveitarfélögin að muni heyra undir tvö ráðuneyti, þ.e. félagsmálaráðuneytið og samgönguráðuneytið. Þá er gagnrýnisvert að nafni samgönguráðuneytisins skuli ekki breytt, t.d. í byggða- og samgönguráðuneyti eða sveitarstjórna- og samgönguráðuneyti.

Hvað skyldi hafa kallað á að þau miklu félagsmál sem heyra undir sveitarstjórnarstigið, sem hafa svo lengi sem ég man heyrt undir félagsmálaráðuneytið, væru færð upp í samgönguráðuneytið sisvona? Hver eru rökin fyrir því? Ég hef ekki heyrt þau úr þessum ræðustól. Samkomulag á Þingvöllum, tveggja forustumanna. Ég óttast að samgönguráðuneytið, sem fæst mest við vegagerð og samgöngur, sem á að vísu að fá ferðamál með, sé vanbúið að taka við þeim mikla málaflokki sem snýr að sveitarstjórnarstiginu. Flumbrugangurinn í þessum máli er einstakur.

Öllum þykir kannski eðlilegt að landbúnaðarháskólarnir, á Hvanneyri, Landbúnaðarháskóli Íslands, og háskólinn á Hólum heyri undir menntamálaráðuneytið. Þetta eru tveir litlir landsbyggðarskólar sem hafa verið í gríðarörum vexti. Sveitirnar hafa risið til mikillar sóknar í atvinnumálum og þessir skólar hafa verið mikilvægir í því grunnstefi að efla fólkið sem tekur við og skapar ný verkefni. Þeir hafa verið atvinnuvegaskólar. Við þekkjum það, sem höfum setið í ríkisstjórn og það lengi, að tilvera þessara háskóla hefur ekki verið alltaf auðveld. Þeir vinna þannig verkefni að þeir eru dýrir skólar. Þeir munu falla illa undir þær reglur sem gilda um stóru háskólana sem menntamálaráðuneytið fer með. Af þessu hafa allir áhyggjur.

Við þekkjum það sem höfum setið í ríkisstjórn, og það veit hæstv. forsætisráðherra vel, að það var eilíf barátta að standa að fjárlögum þessara litlu skóla. Ég minnist þess oft og tíðum að mikill fengur var í því fyrir mig sem landbúnaðarráðherra, og fleiri fyrrverandi landbúnaðarráðherrar hafa minnst á það við mig, að hafa forsætisráðherra hvers tíma með sér í þeirri baráttu. (Gripið fram í.) Ég hefði því talið skynsamlegt að hafa landbúnaðarskólana áfram undir landbúnaðarráðuneytinu. Ég hef sem landbúnaðarráðherra verið að byggja þá upp með landbúnaðinum og atvinnulífinu sem atvinnuvegaháskóla. Þangað fluttum við í sameiningu Rannsóknastofnun landbúnaðarins, RALA, þegar við bjuggum til Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, sem hafði mikla þýðingu. Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri er mikil vísindastöð fyrir íslenskan landbúnað.

Hver segir að þær miklu vísindastöðvar sem undir þessa skóla heyra, ræktunarbúin, hvort sem er á Hólum eða Hvanneyri, svo ég tali nú ekki um sauðfjárbúið á Hesti, tilraunabúið á Stóra-Ármóti eða á Möðruvöllum, eigi ekki að heyra undir hæstv. landbúnaðarráðherra? Ég vil heyra við þessa umræðu hvernig hæstv. landbúnaðarráðherra ætlar að leysa þetta mál. Íslenska sauðkindin vekur nú mikla athygli um víða veröld, ekki bara fyrir ullina heldur líka fyrir mikið ræktunarstarf, þá góðu afurð sem lambakjötið er. Hestur í Borgarfirði hefur þar skilað góðum árangri. Hann hefur verið mekka og miðstöð ræktunarstarfsins í kringum íslensku sauðkindina. Halda menn virkilega að þeir í menntamálaráðuneytinu telji það sitt verksvið að rækta búfé eða hafi mikinn áhuga á því? Mig langar að heyra hvernig hæstv. landbúnaðarráðherra ætlar að móta stefnu um það mikla starf sem fram hefur farið á Hesti í kringum kúna og í kringum mjólkina á Stóra-Ármóti, og eins í kringum kúna og jarðræktina á Möðruvöllum og á Stóra-Ármóti. Verða gerðir sérstakir samningar um þessar stöðvar?

Svo er það það sem er náttúrlega langalvarlegast gagnvart landbúnaðinum og verið er að gera hér og er mikil óvirðing Sjálfstæðisflokksins fólgin í þeirri aðgerð. Með því að taka háskólana báða, Landgræðsluna og Skógræktina og fara með það úr landbúnaðarráðuneytinu yfir í annað ráðuneyti er nánast verið að taka alla vísindamenn og ráðunauta úr landbúnaðinum. Hvaða virðing er fólgin í því? Hvernig ætlar hæstv. landbúnaðarráðherra að verja slíka gjörð?

Við fjárlagaumræðuna kom fram að þeir sem hafa setið í fjárlaganefnd segja að einu skólarnir sem setið hafi á hakanum í fjárlagagerðinni hafi verið þessir tveir, skuldir hafi verið klipptar af öðrum og gerðir upp hlutir þeirra sem heyra undir menntamálaráðuneytið í dag. Ég hef sárar áhyggjur af þessu og er ekki einn um það. Hálærðir prófessorar og skólamenn hafa komið að máli við mig. Þeir eru ekki sannfærðir um að þessar stofnanir og þau verkefni sem þar eru eigi að vera í menntamálaráðuneytinu og telja að skipan máli hafi verið með svo farsælum hætti og atvinnuvegurinn í það mikilli uppbyggingu að eðlilegast hefði verið að hafa hlutina með sama hætti áfram. Margir þessir menn hafa orðað það við mig og líka margir í héruðunum, báðir háskólarnir eru í kjördæmi hæstv. landbúnaðarráðherra, hvort taka yrði upp annað form.

Ég get vel staðfest hér að ríkisrekstur er ekkert auðveldur í hinum breytta heimi. Það getur vel verið mikilvægt að velta þessum hlutum fyrir sér með þróttmikinn skóla sem hefur verið eins og Byggðastofnun í Skagafirði — Hólar í Hjaltadal hafa kallað til sín fólk hvaðanæva að úr heiminum sem sest þar að og vinnur í kringum íslenska hestinn, ferðaþjónustuna eða fiskeldið. Ég vil spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra hvort til greina komi að breyta Hólaskóla í sérstaka stofnun. (Gripið fram í.) Það getur vel verið að það sé betra að einkavæða hann við þessar aðstæður en að setja hann í það skrúfstykki sem ég óttast að hann fari í. Tímarnir hafa breyst hvað varðar menntun og atvinnuvegi, mörg mjög öflug fyrirtæki og einstaklingar sem vilja taka þátt í starfi slíkra skóla. Sjálfseignarformið, þar sem ríkið gerir kannski samning til tíu ára um hvað það leggur til hans, getur verið frelsi og lífgjöf fyrir slíkan skóla, þannig að ég velti því fyrir mér hvort eitthvað slíkt komi til greina. Eða er hæstv. landbúnaðarráðherra svo bláeygur að hann trúi því að þetta verði bara allt í lagi? Hann verður nú ekki frekar en aðrir eilífur og tíminn heldur áfram að líða og margt getur gerst á næstu fimm árum sem hefur áhrif á þær ákvarðanir sem hér er verið að taka.

Ég sé fyrir mér að rödd landbúnaðarins verður miklu veikari í ríkisstjórn eftir allar þessar aðgerðir Sjálfstæðisflokksins í upphafi nýs kjörtímabils. Það er alveg ljóst í huga allra, röddin verður veikari og ekki síst vegna þess hvernig að málum er staðið. Ég vil taka fram að um margt er að hugsa. Ég hef áhyggjur af þeim verkefnum sem skólarnir vinna og ég hef einnig áhyggjur af því að vísindamenn landbúnaðarins séu farnir úr landbúnaðinum. Landbúnaðurinn, sem er í örri þróun, eins og hæstv. landbúnaðarráðherra þekkir, og hefur verið margrakið í ágætum ræðum, var í kreppu fyrir 8–10 árum, það hefur allt saman snúist við. Nýju greinarnar eru sem betur fer margar og margt duglegt fólk hefur verið að setjast að í sveitunum til að fást við margvísleg verkefni, til að nytja landið, njóta hæfileika sinna og skapa nýja menningu.

Eitt af þeim stóru verkefnum eru landgræðsla og skógrækt, umhverfið og búsetan. Þar hafa menn á margan hátt nýja sýn. Íslenska ríkisstjórnin er í samstarfi með Norðurlöndunum og fleiri aðilum um að vernda landbúnaðinn og efla hann þannig að skyldurnar eru miklar. Skógarbændur á Íslandi eru orðnir eitt þúsund eða hátt í það, sem eru í nýjum verkefnum sem tengjast þeim stórkostlega árangri sem við náðum í þinginu upp úr 1990 þegar Héraðsskógaverkefnið var sett í gang á Austurlandi og bændunum á Íslandi, eins og á Írlandi fyrir 100 árum, var falið að rækta skóginn sem auðlind. Áður voru það Skógrækt ríkisins og ríkisstarfsmenn sem plöntuðu skógi og ríkið stóð í sífelldum jarðakaupum til þess að rækta skóg á. Bændurnir voru ekki miklir áhugamenn um að rækta skóginn. Nú hafa margir bændur tekið að sér verkefni í landshlutabundnum skógræktarverkefnum og ríkisstjórnin viðurkennir að þau verkefni eiga þó að vera hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, skárra væri það nú, en á sama tíma er ætlunin að taka alla fagmennina, vísindamennina, ráðunautana og fara með þá í burtu.

Skógrækt er landbúnaður. Það kann vel að vera að einhver verkefni, eins og verndun gamalla birkiskóga, leifar þeirra þarf að vernda, ættu að fara til umhverfisráðuneytisins, ég styð það. En að láta sér detta í hug að taka höfuðstöðvarnar á Austurlandi og vísindamennina og ráðunautana hér uppi á Mógilsá, sem hafa bara eitt verkefni, þ.e. að sinna vísindum og ráðgjöf, og hafa verið að sinna landshlutabundnu verkefnunum í stórum stíl, og fara með þá í burtu frá landbúnaðinum, það er fáheyrt.

Ég varð mér úti um ræðu eins af fyrrverandi landbúnaðarráðherrum sem endurspeglar skoðanir Sjálfstæðisflokksins um 1990 þegar menn voru að velta því fyrir sér í alvöru að fara með Skógræktina og Landgræðsluna yfir í umhverfisráðuneytið þegar það var stofnað. Þá voru þeir það vel að sér, sjálfstæðismenn, að þeir litu á skógrækt sem landbúnað. Ég minnist þess að einhvern tíma í upphafi míns ráðherraferils gat ég þess á einhverri hátíð að skógrækt á Íslandi væri landbúnaður eins og skógræktin væri um víða veröld. Ég minnist þess að sú manneskja sem hafði kannski mest áhrif á skógræktarstarfið, frú Vigdís Finnbogadóttir, kom og þakkaði mér fyrir og sagði: „Þetta hefur enginn landbúnaðarráðherra sagt fyrr.“ Menn voru að velkjast í vafa um hvort skógrækt væri landbúnaður eða ekki.

Í þessum átökum á þinginu 1990 sagði Pálmi Jónsson, fyrrv. landbúnaðarráðherra, með leyfi forseta:

„Ég tel ástæðu til þess, herra forseti, að rekja hér helstu niðurstöður í umsögn landbúnaðarráðuneytisins, sem dagsett er 22. október og sent aðstoðarmanni forsætisráðherra, en þessar niðurstöður eru svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,1. Árangur af starfi Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins eru meira háðar góðum samskiptum við bændur og atvinnuveg þeirra í heild en margir riddarar skrifborða þekkja.

2. Eftirlit og afskipti af hvers konar auðlindanýtingu í þágu atvinnuvega hljóta að eiga að vera samræmd.

3. Alþjóðleg stefnumótun í umhverfismálum staðfestir að Íslendingar hafa undanfarin ár staðið í grundvallaratriðum rétt að málum varðandi umhverfismál og auðlindanýtingu.

4. Ekkert hefur komið fram sem réttlætir breytta skipan þeirra mála en vitað er að breytingar samkvæmt hugmyndum nefndarinnar varðandi vistun málefna Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins mundu riðla mörgu og rústa margt sem áunnist hefur af því sem teljast verður í þágu umhverfismála og gróðurríkis Íslands. Undir þetta skrifar ráðuneytisstjórinn í landbúnaðarráðuneytinu, Sveinbjörn Dagfinnsson.““

Síðan segir Pálmi Jónsson, með leyfi forseta:

„Í þessari umsögn kemur fram sú afstaða … að það ráðuneyti er algerlega andvígt því frumvarpi sem hér er á dagskrá. Andvígt því að setja á laggir sérstakt umhverfisráðuneyti …“ — sem Sjálfstæðisflokkurinn var á móti á þessum tíma og vildi ekki stofna, taldi að umhverfisráðuneyti ætti að vera til í hverju einasta atvinnuvegaráðuneyti og þannig ættum við að standa að málum. (JBjarn: Hann talaði svolítið lengi þá.) Sjálfstæðisflokkurinn? (JBjarn: Já.) Hann getur talað í stjórnarandstöðu. Þá hafa þingmenn hans frelsi til að tala en nú eru þeir fjarri. Jæja, það er einn í salnum. (SKK: Hvað eru framsóknarmenn margir í salnum?) Við erum nú stórt hlutfall.

Síðan vitnaði Pálmi Jónsson til Sigurðar Blöndals, sem er mjög merkilegur kafli í ræðu hans. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Þessi umsögn er það ítarleg og vel unnin að í raun væri ástæða til að lesa hana í heild. Ég mun þó ekki gera það heldur lesa hluta af þessari umsögn …

,,Í öllum löndum í nágrenni við Ísland sem ég þekki til eru skógræktarmál vistuð í landbúnaðarráðuneytum eða í sérstökum skógræktarráðuneytum nema í Danmörku og eru þó sumar skógræktarstofnanir þar undir landbúnaðarráðuneytinu. Um skeið voru skógræktarmál Kanada vistuð í umhverfisráðuneyti við mikla óánægju skógræktarmanna en voru haustið 1984 færð aftur í landbúnaðarráðuneytið.

Skógræktarlöggjöf Norðvestur- og Mið-Evrópu er fullkomnasta löggjöf um varðveislu lifandi auðlindar sem til er. Hún er að hluta til gróðurverndarlöggjöf af hæstu gráðu því að skógurinn með öllu sínu fjölbreytta lífi er í skógræktarlöggjöf þessara landa talinn eilíf verðmæti sem ein kynslóð hefur blátt áfram ekki leyfi til að rýra, hvað þá eyðileggja, í hverra eigu sem hann er. Í löndum eins og Þýskalandi og Danmörku er hefð sem byggist á þessum hugsunarhætti orðin 200–300 ára gömul.

Fram á hin síðustu ár hefur skógræktarlöggjöf þessara landa sem ég er að vitna til fyrst og fremst miðast við að skógur er ein þýðingarmesta hráefnalind þeirra. En á síðustu einum til tveimur áratugum hafa hugtökin „fjölnytjaskógar“ og „útivistarskógar“ rutt sér til rúms í hugum skógræktarmanna og verið að festast í álitsgerðum og jafnvel lögum og reglugerðum.““

Svo mörg voru þau orð. Sannarlega er það svo að bæði skógræktarfélögin á Íslandi, sem í eru líklega hátt í 60.000 Íslendingar, gríðarlega fjölmenn og mikilvæg hreyfing í öllum bæjum og sveitarfélögum um allt land, vara við þessum flutningi. Þau vara við tvístun þessara verkefna. Það gera bændurnir líka, Bændasamtök Íslands. Menn vara við því að fara með þessi verkefni, hvort sem það er Landgræðslan eða Skógrækt ríkisins burtu úr landbúnaðarráðuneytinu. En á það er ekki hlustað. Samningurinn frá Þingvöllum skal gilda af því foringinn handsalaði það við annan stjórnmálaforingja. Það er frelsið og krafturinn sem einkennir hina frjálsu þingmenn stjórnarflokkanna.

Ég óttast að þessar stofnanir, Skógrækt ríkisins og Landgræðslan, sem fögnuðu á dögunum 100 ára afmæli og gríðarlegum árangri sem náðst hefur hér á landi í verndun lands, stöðvun landeyðingar, við að græða upp sanda og örfoka land, hafi ekkert hlutverk eftir breytingarnar. Ég efast ekki um að það er gott fólk í umhverfisráðuneytinu. Þar eru bara annars konar verkefni til staðar. Það kemur fram í öllum þessum umsögnum. Þar eru annars konar verkefni og ég óttast að margir vísindamenn skógræktarinnar reyni að komast til skógræktarverkefnanna á landsbyggðinni, flytja sig yfir í ráðuneyti og verða vísindamenn áfram við að rækta skóginn. Klippi gat á pokann, hlaupi til baka og vilji vera með landshlutabundnu verkefnunum og landbúnaðinum. Það kunna að vera mikil örlög ráðin í þessari gjörð ríkisstjórnarflokkanna.

Ég er ekki viss um að höfuðstöðvarnar, t.d. í Gunnarsholti á Rangárvöllum, þar sem menn fóru fyrir 100 árum á vettvang þar sem sandurinn eirði engu og bjuggu til akra og græddu upp land, að þær höfuðstöðvar, sem búið er að byggja upp og búa vísindamönnum í fremstu röð í samstarfi við íslenska bændur, muni standa þar sem þær eru. Þetta er kannski ávísun á flutning þeirra úr byggðunum. Eitt er ljóst, hæstv. landbúnaðarráðherra, að Landgræðslunni hafa verið falin margvísleg verkefni sem lúta að gæðastýringu í kringum íslenskan landbúnað. Flytjast þau verkefni burtu frá landbúnaðinum þegar Landgræðslan er farin?

Það hefur verið gæfa Landgræðslunnar í gegnum tíð þeirra farsælu manna sem ráðið hafa ríkjum í Gunnarsholti og stýrt því sóknarstarfi á Íslandi sem hefur vakið athygli um víðan heim — vísindamenn okkar hafa verið kallaðir á vettvang til þess að berjast með þjóðum sem eiga mikið af auðn og örfoka landi eins og víða er — að vinna með íslenskum bændum. Skógræktarbændurnir, landgræðslubændurnir eru líklega hátt í 600. Ég er ekki viss um að Landgræðslan hefði náð þeim árangri sem hún hefur náð hefði hún ekki heyrt undir landbúnaðarráðuneyti og unnið með íslenskum bændum um allt land, ástundað vinskap við landbúnaðinn og bændurna, verið heil í ráðgjöf og sótt sér þekkingu til bændanna. Því bændur búa yfir mikilli þekkingu hvað náttúru Íslands varðar. Það er ekkert fólk á Íslandi sem lifir í jafnmikilli nálægð við náttúruna eins og íslenskir bændur og íslenskir sjómenn. Þeir búa yfir mikilli þekkingu. Þeir búa yfir véltækni og þeim hefur verið falið að vinna mörg verk í samráði við Landgræðsluna og samstarfi. Það hefur verið gæfa okkar á síðustu 16, 17 árum að fela bændum líka að rækta þá auðlind sem skógurinn er. Þetta gerðu Írar, frændur okkar, fyrir 80 eða 100 árum og nú er skógurinn ein af þeirra dýrmætustu auðlindum.

Ég hef sárar áhyggjur af því hver þróunin verður við þessar breytingar. Ég vona sannarlega að menn hafi til þess burði að staldra við. Ég skora á hv. formann nefndarinnar, hv. þm. Birgi Ármannsson að kalla málið aftur inn í nefndina og fara yfir verkefnin sem hér liggja fyrir. Eins og málið stendur núna ber það vott um mikið virðingarleysi gagnvart mörgum.

Ég vil að lokum segja að auðvitað er eitthvað gott í hverjum pakka. Ég fagna því að hæstv. landbúnaðarráðherra og hæstv. forsætisráðherra hafi þó stillt því þannig að matvælin verði á einum stað. Ég kom sem landbúnaðarráðherra á fót mikilli stofnun á Selfossi sem var eftirlits- og stjórnsýslustofnun landbúnaðarins. Ég fagna því sérstaklega að þau verkefni sem voru í þremur ráðuneytum áður skuli með þessum breytingum færð í eina stofnun og undir þetta sameinaða ráðuneyti. Það held ég að sé mjög mikilvægt. Það mun styrkja byggð á Selfossi. Það færir Landbúnaðarstofnun marga vísindamenn og ég ætla að lýsa því yfir að ég held að þetta atriði sé til styrkingar fyrir Ísland, að hafa það á einni hendi. Vandi okkar er alltaf að vaxa í þessum efnum, bæði hvað varðar innflutning og samninga sem gerðir hafa verið. Íslenskur landbúnaður og Ísland þarf að vera á undan í öllum sínum rannsóknarstörfum til að sýna að hér sé hreinleikinn slíkur sem við státum af og heilbrigði dýra. Þar má ekki skorta fjármagn til að halda uppi heiðri Íslands. Ég get stutt þetta.

Mig langar kannski að velta því fyrir mér góðri athugasemd sem Bændasamtök Íslands sendu, sem Haraldur Benediktsson formaður þeirra skrifar undir. Hann segir, með leyfi forseta, í umsögn sinni:

„Loks leggur stjórn Bændasamtaka Íslands til að stofnunin sem nefnd er „Matvælaeftirlitið“ í frumvarpinu fái heitið „Matvæla- og dýraheilbrigðisstofnun“. Það nafn nær miklu betur utan um það fjölþætta hlutverk sem stofnuninni er ætlað að sinna.“

Ég vil spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra, í lok þessarar umræðu, hvort þetta sé ekki skynsamlegt nafn. Eins og hér hefur komið fram í þingræðum nær Matvælastofnun aðeins yfir mikilvægt hlutverk þessarar stofnunar. En ég hygg að hún mundi með þessari breytingu ná yfir öll þau verkefni sem henni er ætlað að sinna. Þótt nafnið sé kannski langt þá eru menn flinkir og íslenskan sjálf, hún er orðafrjó móðir, þannig að við gætum fundið góða styttingu, hinir orðhögu menn. Ég vil spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra hvort þetta nafn, „Matvæla- og dýraheilbrigðisstofnun“, sé ekki hið sanna nafn og stofnuninni beri að heita svo.

Nú sé ég að sá tími sem ætlaðar er í þinginu fram að nefndarfundum er að verða búinn og ég ætla ekki að þreyta menn með lengri ræðu. En segi fyrir mig að ég harma þau óvönduðu vinnubrögð sem ríkisstjórnin hefur verið staðin að. Mér finnst að Alþingi hefði getað sýnt það frelsi og manndóm að standa upp og segja við ríkisstjórnina: Hingað og ekki lengra.

Alþingi Íslendinga er í raun æðri stofnun framkvæmdarvaldinu og við þingmenn eigum að bera þá virðingu fyrir Alþingi sem æðstu stofnun Íslendinga að þora að taka á móti ríkisstjórninni, a.m.k. koma vitinu fyrir hana þegar hún fer rangt að hlutum eins og varðandi þennan bandorm og þennan verkefnatilflutning.