135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

störf stjórnarskrárnefndar.

187. mál
[14:57]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr um störf stjórnarskrárnefndar og hvernig þeim miði. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar segir að endurskoðun stjórnarskrárinnar muni haldið áfram en rétt er sem fram kom í máli þingmannsins að það starf hefur ekki verið sett í gang á nýjan leik með formlegum hætti eftir að núverandi ríkisstjórn tók við.

Stjórnarskrárnefndin sem setið hefur að störfum var skipuð haustið 2005 af þáv. forsætisráðherra Halldóri Ásgrímssyni en búið var að undirbúa málið vandlega í tíð forvera hans. Settar voru á laggirnar nefnd fulltrúa flokkanna og sérfræðinganefnd. Hópurinn hefur að mínum dómi unnið ágætt starf að mörgu leyti. Ég hafði sjálfur ánægjuna af því að vera varaformaður í nefndinni um tíma og ég veit að þar voru tekin fyrir mörg mikilvæg atriði í vinnunni og að hluta til atriði sem hv. þingmaður vék að í máli sínu. Engin heildstæð niðurstaða kom út úr nefndarstarfinu, ein tillaga kom fram sem hlaut síðan ekki afgreiðslu á Alþingi af öðrum ástæðum. Við í núverandi ríkisstjórn höfum ekki enn þá tekið afstöðu til þess með hvaða hætti best verði haldið áfram með það starf en auðvitað þarf það að byggjast á samstarfi þingflokkanna allra eins og verið hefur. Reynslan sýnir hins vegar að séu hlutirnir gerðir með áhlaupi á síðari hluta kjörtímabilsins gefi það mestar líkur á því að ná einhvers konar niðurstöðu. Sagan segir að tíminn á fyrri hluta kjörtímabils hafi ekki nýst vel til að vinna að slíkum verkefnum. Reyndar er það svo að tillögur koma aldrei fram fyrr en á síðasta þingi fyrir kosningar áður en slík ákvæði eru endanlega staðfest á Alþingi, vegna þess sem þingmaðurinn nefndi um ákvæðin um alþingiskosningar.

Stjórnarskrárnefndir hafa setið að störfum meira og minna allan tímann frá því að lýðveldið var stofnað og því miður er árangurinn ekki sá sem margir vildu, að fram færi heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Hins vegar hafa ýmsir kaflar og ákvæði sætt endurskoðun í gegnum tíðina, ekki síst öll þau ákvæði er varða kosningar og kjördæmaskipan, eins og þekkt er. Ég minnist þess að við náðum ágætum árangri í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldisins 1994 um að breyta VII. kafla stjórnarskrárinnar, mannréttindakaflanum svokallaða, á þinginu 1994–1995. Það var gert með áhlaupi, mundi ég segja, á frekar stuttum tíma en um það náðist ágæt samstaða á endanum og þau ákvæði hafa reynst vel.

Reyndar er ekki miklu við málið að bæta, herra forseti. Það er í ákveðinni biðstöðu, vissulega er það rétt hjá hv. þingmanni. Mín afstaða hefur verið sú að ýta því ekki strax úr vör að nýju fyrr en við værum viss um hvar við ætluðum að lenda bátnum þegar komin væri niðurstaða. Um það þarf að eiga samráð milli allra flokkanna á Alþingi og hugsanlega fleiri.

Þetta er svarið, herra forseti.