135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

viðskipti með aflamark og aflahlutdeild.

213. mál
[20:25]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Það verður ekki sagt að það blási hlýir vindar um sjávarbyggðir landsins um þessar mundir. Ofan á stöðugan samdrátt í þorskveiðum á undanförnum tveimur áratugum er nú gripið til þess óheillaráðs að skerða þorskveiðiheimildir um þriðjung. Það er fyrirsjáanlegt hver sú þróun verður sem fylgir svo hörðum samdrætti og ég vil vísa til greinar sem núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra skrifaði á heimasíðu sína fyrir fimm árum um það efni af sama tilefni þar sem hann dró myndina upp mjög skýrt. Þessum niðurskurði mundi fylgja að einyrkjar sem eiga veiðiheimildir sínar mjög bundnar í þorski munu gefast upp og selja þær og sjávarbyggðirnar mundu verða fyrir áfalli í atvinnumálum vegna samþjöppunar sem af þessu leiddi. Svo ekki sé talað um áhrifin á erlenda markaðinn.

Það er því eðlilegt að spurt sé, hvað er til ráða? Svarið er augljóst. Það er ráð að gera það sama og við vorum að ræða fyrr í dag á Austurlandi. Þar var gripið til þess ráðs að nýta auðlindir fjórðungsins til að styrkja atvinnulífið. Sú auðlind sem sjávarbyggðir landsins eiga yfir að ráða eru fiskstofnarnir, sjávarauðlindin. Það þarf því að huga að löggjöf um veiðiheimildirnar sem er kjarninn í því hvernig eigi að nýta þær, hverjir megi gera það og hvenær. Um það snýst málið.

Í gildandi lögum um stjórn fiskveiða hafa ekki enn verið sett í lög nein ákvæði sem beinlínis taka fram að heimilt sé að selja veiðiheimildir, hvort heldur aflamark eða aflahlutdeild. Það eru engar reglur sem hafa verið settar um það efni, hvernig þau viðskipti eigi að fara fram, hvernig nýir aðilar eigi að geta nálgast veiðiheimildir eða þeir sem fyrir eru eigi að geta sóst eftir frekari veiðiheimildum. Það eru engar reglur, það er engin löggjöf, það er bara LÍÚ sem fær að móta löggjöfina um viðskiptin með veiðiheimildir. Það sjá það allir í hendi sinni, virðulegi forseti, að þetta gengur ekki frekar en að viðskiptalífið eða bankarnir ákveði allar leikreglur á þeim markaði og Alþingi kæmi þar hvergi nálægt með lagasetningu.

Ég held því, virðulegi forseti, að það sé hægt að snúa þróuninni í sjávarbyggðum landsins við með því að setja skynsamlega löggjöf um viðskipti með aflamark og aflahlutdeild og hef því leyft mér að flytja eftirfarandi fyrirspurn, á þskj. 231, til hæstv. sjávarútvegsráðherra, með leyfi forseta:

Telur ráðherra tímabært að sett verði almenn löggjöf um viðskipti með aflamark og aflahlutdeild þar sem meðal annars verði kveðið á um hlut ríkissjóðs úr þeim viðskiptum (Forseti hringir.) og ef svo er, hvenær?