135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

styrking byggðalínu.

300. mál
[21:46]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, mér fundust þau jákvæð. Hæstv. ráðherra er áhugasamur um þetta mál og ég er honum í raun hjartanlega sammála. Ég held að það sé ákaflega spennandi kostur að skoða vandlega hvort það sé ekki einfaldlega góð og skynsamleg og jafnvel bara mjög arðbær fjárfesting að byggja upp byggðalínuna, styrkja þannig stórlega hringtengingu raforkunetsins og auka verulega afhendingaröryggið. Um leið tryggjum við miklu meira jafnræði milli aðila hvar sem þeir eru á hringnum að eiga kost á raforku á sambærilegum kjörum.

Það liggur fyrir að það veldur vandræðum í dag við að semja um hluti eins og t.d. afhendingu raforku til aflþynnuverksmiðjunnar á Akureyri að dreifikerfið er ekki nógu sterkt. Menn ráku sig hastarlega á það um daginn að flutningsgeta byggðalínunnar skiptir sköpum hvað varðar afhendingaröryggi þegar spennir við Sultartanga brann yfir og allt tiltækt afl var keyrt að norðan og austan á suðvesturhornið eftir byggðalínunni. Það hefði mátt vera meira ef hún hefði flutt það þannig að ýmis slík rök mæla með því að ráðast í þetta. Við ræðum það kannski betur þegar kemur að næstu fyrirspurn sem einmitt lýtur að því hvernig eignarhaldi og rekstri þessa sama dreifikerfis væri best fyrir komið.

Ég tek undir að það þarf líka að huga sérstaklega að leggjunum á vestur- og norðausturhornið, þ.e. línunni frá Kröflu á Kópasker og jarðstreng þaðan áfram austur í Þistilfjörð og síðan alla leið á Bakkafjörð ef ég man rétt. Þar er lítil afgangsflutningsgeta. Allt miðar þetta að því sama, að menn standi sem jafnast að vígi hvar sem er á landinu að þessu leyti. Um leið og flutningsgeta byggðalínunnar vex opnast gríðarlegir möguleikar á að tengja inn á hana fleiri virkjanir vítt og breitt, smærri virkjanir, og það eykur afhendingaröryggið og dregur úr þörfinni fyrir varaafl á viðkomandi svæðum þannig að það vinnst mjög margt í leiðinni og menn slá margar flugur í einu höggi með aðgerð af þessu tagi.