135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[17:53]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er hamingjusöm að heyra að hv. varaformaður nefndarinnar skuli vera mér sammála varðandi háskólasetrin, náttúrustofurnar og fyrirkomulag fjárveitinganna.

Varðandi Yarisinn er það greinilega ríkisstjórnin sem hefur komið með beiðni upp á 3 milljónir. Það er því hún sem ég hefði átt að beina mínu máli til í þeim efnum. Ég tel mjög misráðið að ætla einungis 3 milljónir til að leysa af hólmi bílinn sem valt og ég er sannfærð um að stærri bíl þarf en hægt er að kaupa fyrir 3 millj. kr.

Varðandi Náttúrufræðistofnun Íslands vil ég aðeins segja að ég hef ákveðnar efasemdir um að flytja Náttúrufræðistofnun Íslands í Garðabæ. Ég hef lýst efasemdum mínum, að ég telji að Náttúrufræðistofnun þurfi að búa í nánu sambýli við Náttúrugripasafnið sem verður eitt af höfuðsöfnunum og verið er að veita fjármuni til þess að koma því á laggirnar. Ef ég man rétt eru einar 14 milljónir í fjáraukalögum til að ráða forstöðumann og standa straum af kostnaði í þeim efnum. Ég vona auðvitað hið besta varðandi húsnæðismál Náttúrufræðistofnunar en ég gerði athugasemd við að inni í heimildarkaflanum er heimild til að leigja húsnæði fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands sem, samkvæmt upplýsingum úr fjárlögunum, ekki er þörf fyrir því að ekki verður leigt á næsta ári.