135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

leikskólar.

287. mál
[12:30]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það eru spennandi umræður sem fara fram í þingsal í dag enda ræðum við frumvörp um þrjú skólastig í senn, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, auk frumvarps til laga um menntun og ráðningar kennara. Í því felst ákveðin nýlunda að horfa á þessi skólastig sem eina heild og er því ágætt að ræða frumvörpin saman þó að eðlilegt sé að 1. umr. snúist fyrst og fremst um hinar stóru línur málsins.

Heilmikil vinna hefur verið lögð í frumvörpin og margt í þeim byggist á svokölluðu 10 punkta samkomulagi menntamálaráðuneytis og Kennarasambands Íslands. Ég tel það samkomulag að mörgu leyti mikilvægt skref í þá átt að ná aukinni samstöðu og sátt um skólamál hér á landi og margt gott sprottið úr þeirri samvinnu. Ljóst er þó að ekki náðist sátt um öll atriði frumvarpanna og við 1. umr. held ég að flest álitamál sé að finna í nýju frumvarpi til laga um framhaldsskóla og mun ég ræða þau sérstaklega hér á eftir. En ég ætla fyrst að fjalla um skólastigin sem á undan koma, þ.e. leikskóla og grunnskóla. Eins og áður segir er þar margt gott og ég mun nefna sumt af því sérstaklega en eins og gefur að skilja beini ég fyrst og fremst athygli að því sem ég tel að þurfi að ræða betur við meðferð málsins í menntamálanefnd og á Alþingi.

Frumvarp til laga um leikskóla ber vott um þá hröðu þróun sem orðið hefur í málefnum leikskóla hér á landi á undanförnum árum. Íslendingar voru vissulega framarlega í flokki þegar þeir viðurkenndu leikskólann formlega sem fyrsta skólastig árið 1994 og þegar aðalnámskrá var sett fyrir leikskóla árið 1999. Við eigum að mörgu leyti mjög góða leikskóla þar sem fjölbreytni og nýsköpun hafa fengið að njóta sín og byggt hefur verið á þeirri hugmyndafræði að börn læri í leik. Ég tel að við eigum að hlúa sérstaklega að þeirri hugmyndafræði og að mörgu leyti er það gert í frumvarpinu en mér finnst að sá andi verði að skila sér í lögunum. Það er svo merkilegt að við erum enn dálítið föst í þeirri hugmynd að þegar börn byrji í skóla þá séu þau 6 ára að byrja í grunnskóla. Við horfum ekki á leikskólann sem menntastofnun, og er ég þá að tala um almenning en ekki yfirvöld menntamála. Ég held að við eigum að velta því fyrir okkur að oft setur fólk fram þá kröfu að börnin læri meira í leikskólanum, byggir það jafnvel á því að þegar börnin koma heim og eru spurð: Hvað lærðirðu í dag? segja þau gjarnan: Ekki neitt. Auðvitað hafa þau lært fjöldann allan en þar sem aðferðafræðin er ekki borð, stóll, tafla og krít, sú gamla og að mörgu leyti ágæta hugmyndafræði sem tíðkast hefur í grunnskólum, heldur fólk að þau læri ekki neitt. En þau læra í leiknum og mér finnst mikilvægt að sá andi skili sér í lögunum.

Þau lög sem nú eru í gildi um leikskóla, og sett voru 1994, eru mun styttri en það frumvarp sem hér liggur fyrir og það ber vissulega vott um hraða þróun. Kveðið er á um stofnun foreldraráða líkt og hafa verið starfandi í grunnskólum landsins, sem ég tel ágætt skref, og að sama skapi er réttur þeirra barna sem þurfa á sérfræðiþjónustu að halda skilgreindur mun betur en verið hefur, sem er mikilvægt. Sama má segja um rétt þeirra foreldra sem tala ekki íslensku eða nota táknmál en réttur þeirra er skilgreindur á mun skýrari hátt en verið hefur í lögum.

Ég sakna þess að yfirvöld hafi ekki nýtt sér tækifærið til að stefna í átt að gjaldfrjálsum leikskóla, sem er auðvitað stefnu- og baráttumál okkar vinstri grænna, sem við lögðum fram í framhaldi af því að leikskólastigið var formlega viðurkennt sem fyrsta skólastig. Við höfum lagt fram tillögur þess efnis að með þessari viðurkenningu eigi að fylgja að leikskólastigið verði gjaldfrjálst, þar með hluti af menntakerfinu svipaður grunnskólanum og því verði viðhafðar sömu reglur um gjaldtöku í leik- og grunnskólum og skólagjöld í leikskóla lögð niður í samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Það hefði verið róttækt og djarft skref sem ég hefði gjarnan viljað sjá í frumvarpinu, þannig hefði jafnt aðgengi allra óháð efnahag verið tryggt að öllum stigum menntakerfisins. Ég veit ekki hvernig það mun skila sér í umræðunni í menntamálanefnd og á Alþingi, hvort menn munu fallast á þennan málflutning en ég vil þó halda þessum sjónarmiðum til haga því að okkur hefur orðið tíðrætt hér um jafnrétti til náms og þetta er lykilskref í þá átt.

Ég vil nefna aðeins þann sjóð sem er kveðið á um í öllum þessum frumvörpum, sérstakur nýsköpunarsjóður, svokallaður Sprotasjóður, sem á að annast styrkveitingar til ýmissa nýmæla í skólastarfi, námsefnisgerðar, námskeiðahalds og annars slíks. Ég skil mætavel rökin fyrir sjóðnum sem á að tryggja þessa auknu samfellu skólastiganna en ég tel að við þurfum að kanna sérstaklega hvað umsagnaraðilar munu hafa um þennan sjóð að segja. Maður finnur það þegar að togstreita er á milli skólastiga og fólk veltir fyrir sér: Verða fjárveitingar þessa sjóðs eyrnamerktar tilteknum skólastigum? Þá er staða skólastiganna ólík við núverandi fyrirkomulag, sum stærri sveitarfélög reka sérstaka þróunarsjóði eða veita sérstaka þróunarstyrki fyrir leik- og grunnskóla. Að auki hafa verið starfandi sjóðir á vegum ríkisins. Fyrir framhaldsskóla hefur hins vegar verið starfandi sérstakur sjóður rekinn af hinu opinbera sem m.a. hefur veitt styrki til námsefnisgerðar.

Við hljótum að verða að velta því fyrir okkur hvernig skólastigin muni koma út úr þessum nýja sjóði, hvort þau telji sig hagnast á þessu fyrirkomulagi eða hvort fulltrúar þeirra telja hættu á að með því að steypa þessu öllu saman í eitt glatist sýn á sérkenni skólastiganna. Ég tel því mjög mikilvægt að við hlustum eftir skoðunum á þessu atriði við vinnslu málsins.

Ég veit að farið verður nánar yfir leikskólalögin hér á eftir af hv. þm. Dýrleifu Skjóldal þannig að ég ætla að færa mig yfir í hinar stóru línur í nýju frumvarpi til laga um grunnskóla, sem byggist að talsverðu leyti á gildandi lögum um grunnskóla sem sett voru 1995. Í því eru þó ýmis nýmæli sem hæstv. menntamálaráðherra fór yfir hér áðan og mig langar að nefna nokkur önnur nýmæli sem ég vil ræða sérstaklega.

Í fyrsta lagi má nefna hið svokallaða skólaráð þar sem sitja skulu fulltrúar kennara, annars starfsfólks, fulltrúar foreldra, skólastjóri og fulltrúar grenndarsamfélags. Ég tel að þetta geti verið ágæt tilhögun, sakna þess þó að nemendur eigi ekki þar fastan fulltrúa heldur er eingöngu kveðið á um að fulltrúar nemenda skuli eiga kost á því að taka þátt í umræðum skólaráðs þegar fjallað er um velferðar- og hagsmunamál nemenda samkvæmt nánari ákvörðun ráðsins, eins og sagt er í 8. gr. frumvarpsins. Svo er kveðið á um einn sameiginlegan fund skólaráðs og stjórnar nemendafélags á ári.

Ástæða þess að ég nefni þetta sérstaklega er áhugi minn á nemendalýðræði sem ég tel að þessi lög eigi að endurspegla. Þau eru um margt nemendamiðaðri en fyrri lög, sem er gott, en ég tel að við megum gera betur. Kveðið er á um það í lögunum að við alla skóla skuli vera starfandi nemendafélag, í fyrri lögum var rætt um nemendaráð, og í frumvarpinu er gert ráð fyrir að nemendur innan hvers skóla geti þróað starf félagsins í samræmi við þarfir og vilja á hverjum stað en þó er ekkert kveðið sérstaklega á um hvernig það starf eigi að vera. Nemendur eiga ekki nægilega skýra aðkomu að svokölluðu skólaráði að mínu mati og ég bendi á að í áfangaskýrslu nefndarinnar sem vann að frumvarpinu, og skilað var árið 2006 og er aðgengileg á heimasíðu ráðuneytisins, kemur fram að mjög margir þeir aðilar sem nefndin ræddi við nefndu einmitt nauðsyn þess að efla nemendalýðræði. Þar er talað um að auka eigi aðkomu nemenda að ákvörðunum um eigin skólagöngu, tryggja aðkomu þeirra að setningu skólareglna, hvernig eigi að skipuleggja skólastarfið og skýra þurfi rétt nemenda til að tjá sig um ákvarðanir sem varða þau sjálf, auka vægi nemendaráða á öllum skólastigum, einnig á yngsta stigi grunnskóla, og skýra aukinn rétt nemenda með aldrinum til að fá upplýsingar um sig í skólanum og þátttöku í umfjöllun um sig.

Ég stýrði starfshópi á vegum Reykjavíkurborgar sem fjallaði um aukna þátttöku foreldra og nemenda í skólastarfi. Í honum sátu auk mín Jóna Hrönn Bolladóttir og Marta Guðjónsdóttir. Þar könnuðum við talsvert þau mál sem tengjast nemendalýðræði og komumst að því að Íslendingar eru heldur aftarlega á merinni í þeim efnum miðað við margar Evrópuþjóðir, ekki síst af því að hér hefur nemendalýðræði byggst dálítið á því að hinir fullorðnu ákveða hvaða ákvarðanir varða nemendur og hverjar ekki. Skiljanlega eiga ekki öll mál erindi við nemendur en ég er þess þó fullviss að þau eru mun fleiri en fullorðnir halda. Við sjáum það t.d. að þar sem unnið hefur verið að skipulagningu byggingarframkvæmda við skóla í samráði við nemendur skilar það oft mjög góðum ákvörðunum, það eru jú nemendur sem nýta skólann. Sama má segja um skipulag skólalóða og aðrar slíkar tilraunir sem hafa verið gerðar hér í Reykjavík með það að hleypa nemendum að ákvörðunartökuferli. Ég nefni líka að Reykjavíkurborg hefur lengi haft þann sið að halda sérstakan borgarstjórnarfund með Reykjavíkurráði ungmenna og þar hafa fulltrúar ungmenna yfirleitt mætt með mjög vandaðar og fjölbreyttar tillögur og verið þar enginn eftirbátur hinna fullorðnu. Ég tel því að víkka megi út ábyrgð nemenda í skólastarfinu, gera þá að virkari þátttakendum í skólaráðum og legg til að fulltrúum nemenda verði sent frumvarpið til umsagnar, ekki síst út frá þessu sjónarhorni.

Ég nefni líka 13. gr. þar sem fjallað er um rétt nemenda, hún hefði mátt vera meira krassandi að mínu viti en þar stendur:

„Nemendur eiga rétt á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi námsumhverfi, námstilhögun og fyrirkomulag skólastarfs.“

Þó það nú væri að þeir megi segja skoðun sína. En á sú skoðun ekki að hafa einhver áhrif? Ég hefði viljað sjá kraftmeiri innkomu nemenda hér. Ég ætla hins vegar ekki að halda áfram á þeim nótum þó að þetta sé hugðarefni mitt. Ég ætla að hlífa ykkur við upplestri mínum úr Páli Vilhjálmssyni eftir Guðrúnu Helgadóttur, þegar Palli og félagar stofnuðu samtök krakka og börðust fyrir réttindamálum barna. En ég vil ítreka að það skiptir máli að sú sýn sé alltaf í huga þegar við skoðum þessi mál.

Ég vil einnig nefna að í frumvarpinu er réttur barna með sérþarfir skilgreindur mun betur en áður og sama má segja um rétt barna og foreldra sem ekki tala íslensku eða tala táknmál og það er auðvitað framfaramál.

Ég hefði viljað sjá kveðið á um endanlegt gjaldfrelsi í grunnskólum og þá vil ég minna á að enn er gert ráð fyrir gjaldtöku fyrir skólamáltíðir. Hið sama má segja um tómstundastarf, sem þó er kveðið á um í lögum að nemendum skuli gefast kostur á að stunda. Hér hefðu yfirvöld menntamála getað stigið mikilvægt skref í að tryggja öllum nemendum gjaldfrjálsan grunnskóla að fullu og öllu og samhliða því hefðu tekjustofnar sveitarfélaga verið endurskoðaðir. Ég leyfi mér að minna á stefnu Vinstri grænna í þessu samhengi um gjaldfrjálsan grunnskóla þar sem þjónusta grunnskólans sé skilgreind sem grunnþjónusta, þar með talið tómstundir og skólamáltíðir og þær ekki teknar út fyrir sviga á þennan hátt.

Þá ætla ég aðeins að færa mig yfir í samræmd próf. Fyrirkomulagi þeirra er breytt í lögunum, sem ég tel æskilegt. Skoðun mín og okkar vinstri grænna hefur verið sú að núverandi fyrirkomulag samræmdra prófa hafi haft of stýrandi áhrif á skólastarf og njörvað það niður á kostnað frumkvæðis og fjölbreytni. Það er mikilvægt að skólastarf sé metið út frá breiðum forsendum og þar má nefna sjálfsmat skóla, ytra mat fræðsluyfirvalda, mat skóla á framförum nemenda; nám í bóklegum greinum, verklegum greinum, listgreinum; umgjörð skólastarfsins; menntun kennara; sérverkefni viðkomandi skóla; umhyggja fyrir nemendum; það er margt sem má nefna og meta í skólastarfi. Hins vegar höfum við talið eðlilegt að hægt sé að leggja fyrir stöðluð próf hvenær sem er á námsferli nemenda til að meta stöðu þeirra, framfarir og fleira í tilteknum greinum sem og stöðu skólanna í samanburði við aðra.

Hér verður vart við ákveðna áherslubreytingu sem ég fagna, þ.e. rætt er um könnunarpróf en ekki samræmd próf sem slík. Þó eru þau áfram lögbundin í 4. og 7. bekk í íslensku og stærðfræði og samræmd próf í 10. bekk eru færð til haustannar frá vori. Í sjálfu sér hefði ég viljað sjá lengra gengið í þá átt að slík próf — þó að við viljum geta kannað framfarir nemenda og kannað árangur með einhvers konar stöðluðum prófum — væru ekki lögbundin á þennan hátt við ákveðin ár, við ákveðna árganga. Hættan er sú að skólastarfið snúist að of miklu leyti um fögin sem prófað er í og að prófin hafi áfram þann brag sem verið hefur að nemendur séu ekki einungis metnir út frá árangri sínum í þessum fáu greinum heldur skólarnir líka. Ég hefði því viljað sjá fyrirkomulagið frjálslegra. Að vísu er í greinargerð ýjað að því að framkvæmd prófanna gæti breyst og lagt er til að unnið verði að þróun einstaklingsmiðaðra prófa, tölvustuddra, eins og þegar eru í uppbyggingu víða á Norðurlöndum. Ég hefði viljað ganga lengra í þessa átt, ég tel að það sé rétta leiðin til að meta skólastarf, ekki að hafa þetta svona fast og bundið í lög eins og hér er. En ég fagna áherslubreytingunni sem felst í breyttu orðalagi.

Mér finnst einnig nauðsynlegt að ræða betur auknar heimildir foreldra til að kenna börnum sínum heima við. Við þekkjum þá umræðu t.d. frá Bandaríkjunum. Þar hefur heimakennsla færst mjög í aukana hin síðari ár. Foreldrar taka að sér að kenna börnum sínum og velja sjálfir námsefnið að verulegu leyti en í flestum tilvikum verða börnin að standast samræmd próf á vegum yfirvalda. Ástæður þess að foreldrar gera þetta geta verið mjög margar og aðstæður geta verið ólíkar.

Stundum eru þetta staðbundnar aðstæður. En vestan hafs hefur líka verið algengt að foreldrar hafi svo sérstakar trúarskoðanir að þeir vilji ekki að börnum sínum séu kennd fræði sem stangast á við þær skoðanir, svo sem þróunarkenningin, jarðsagan og annað slíkt. Ég velti þessu fyrir mér og mér finnst eðlilegt að við ræðum hvort rétt sé að heimila heimakennslu í auknum mæli.

Ég minni á að skóli er miklu meira en námsefni sem er hægt að prófa með könnunarprófunum. Skóli er samfélag þar sem börn læra um fleira en þau þekkja heima hjá sér. Ég tel að í raun sé þeim börnum mismunað sem ekki fá að sækja skóla, kynnast heiminum, öðrum skoðunum og lífsgildum en tíðkast á heimilinu. Ég tel einnig að fagmenntun kennara eigi að skila okkur góðu skólastarfi sem eigi að vera að minnsta kosti betra en það sem hægt er að fá heima hjá sér. Ég velti því jafnframt fyrir mér hvernig sú lífsreynsla að stunda heimanám allan sinn grunnskólaferil kemur sér þegar menn mæta í framhaldsskóla. Það er margt sem maður þarf að læra af öðrum en foreldrum sínum. Ég tel að þetta atriði þurfi að ræða talsvert ítarlega í umfjöllun menntamálanefndar um frumvarpið.

Ég segi fyrir mig að ekkert hefur gert manni betra en að kynnast öðrum skoðunum en þeim sem maður lærir heima hjá sér. Það styrkir mann sem manneskju og gerir manni kleift að skipta um skoðun, sem er eitt það mikilvægasta sem maður getur lært í lífinu.

Ég vil líka nefna í tengslum við þessi frumvörp, því við lifum í veruleika sem er ekki bara bundinn í lög, það sem er fram undan í skólamálum. Við erum með mörg göfug markmið og þurfum að velta fyrir okkur hvernig eigi að borga fyrir þessi markmið. Hver á að sinna því að þeim verði framfylgt?

Við vitum að kjarasamningar eru lausir brátt og staðan hefur sjaldan verið verri þegar kemur að mönnun í leikskólum og grunnskólum. Eftir að rekstur leik- og grunnskóla var færður yfir til sveitarfélaga má segja að ríkið hafi að nokkru leyti firrt sig ábyrgð á kjörum þeirra. En kjörin eru auðvitað lykilatriði þegar kemur að þróun skólastarfs, til að halda góðum kennurum í starfi og til þess að hægt sé að fjölga fagmenntuðum kennurum innan skólanna, eins og sett eru mjög góð markmið um í frumvarpi um menntun og ráðningu kennara.

Þótt kjör kennara séu ekki viðfangsefni þessara frumvarpa tel ég ómögulegt að ræða þau án þess að hafa um leið í huga allt það góða fólk sem við ætlumst til að framfylgi lögunum og tryggi íslenskum börnum bestu mögulega menntun. Við verðum að horfast í augu við að menntamálayfirvöld hljóta að bera ábyrgð á kjörum kennara ásamt sveitarfélögum. Ég tel nauðsynlegt, í ljósi þeirrar stuttu umræðu sem hér fór fram áðan um PISA-könnunina, að við skoðum það fjármagn sem við verjum til íslenska skólakerfisins.

Eins og ég benti á í fyrri ræðu minni er íslenska skólakerfið kostnaðarsamt að sumu leyti þar sem við búum við tilteknar landfræðilegar aðstæður. Við erum fá í stóru landi og rekum hér marga fámenna skóla af þeirri ástæðu að við viljum halda öllu landinu í byggð. Það kostar auðvitað fé. Ytri aðbúnaður og aðstæður eru okkur ekki í hag. Ef við berum hins vegar saman kjör kennara á Íslandi við kjör kennara í samanburðarlöndunum getum við ekki sagt að við verjum of miklu í þann lið. Með öðrum orðum eru það ekki laun kennara sem gera íslenska skólakerfið dýrt. Þau skipta hins vegar máli til þess að tryggja öllum börnum góða kennslu. Við vitum að ástandið er slæmt, t.d. í grunnskólunum þar sem ungir kennarar, sérstaklega, hafa flúið skólana og fundið betur borgaða vinnu annars staðar, jafnvel vinnu með minna álagi.

Við þurfum að ræða þessi mál. Mér segir svo hugur, ef við viljum bregðast við PISA-könnuninni blessaðri, að við þurfum að skoða hvaða gögn liggja þar að baki. En ég mundi halda að bestu viðbrögðin væri einmitt að lengja kennaranám og bæta kjör kennara. Það væri bestu viðbrögðin við niðurstöðum könnunarinnar og þá er auðvitað er hægt að nefna Finnland sem dæmi, þar sem lengi hefur tíðkast fimm ára kennaranám og mun betri kjör kennara.

Ég ætla þá að víkja að nýju frumvarp um framhaldsskóla. Eins og ég nefndi áðan er kannski flest álitamálin þar að finna. Til marks um það er að fulltrúar Kennarasambandsins í nefndinni sem vann að þeirri endurskoðun voru ekki reiðubúnir til að undirrita lokatillögu nefndarinnar um nýtt frumvarp til framhaldsskólalaga samkvæmt fréttatilkynningu á heimasíðu sambandsins.

Þar eru boðaðar talsvert meiri breytingar en í hinum frumvörpunum sem ég hef þegar rætt. Sumar þeirra eru mjög góðar en aðrar þurfa frekari umræðu. Í þessu nýja frumvarpi er miðað við nýtt einingakerfi, hið sama og nýtt er á háskólastigi og gamla framhaldsskólaeiningakerfið lagt af. Miðað við þessar nýju einingar eru ársverk nemenda 60 einingar. Frumvarpið byggist að hluta á niðurstöðum starfsnámsnefndarinnar svokölluðu. Þar kom mjög margt gott fram til eflingar iðn- og verknámi sem ég mun ræða hér nánar á eftir.

Það er tekið upp nýtt próf, svokallað framhaldsskólapróf, sem skólarnir geta mótað með því að setja upp námsbrautir upp á 90–120 einingar. Það er afskaplega þörf nýjung að mínu mati enda höfum við vinstri græn lengi talað fyrir því að teknar væri upp fjölbreyttari leiðir að loknu grunnskólanámi.

Ég tel að framhaldsskólaprófið, verði vel í það lagt og það vel unnið, geti reynst mikilvæg viðbót í íslensku skólakerfi og orðið til að draga úr brottfalli í íslenskum framhaldsskólum sem allt of lengi hefur verið of mikið og í raun vandamál í íslensku skólakerfi. Við höfum horft upp á að mun fleira fólk er hér einungis með grunnskólapróf en t.d. á hinum Norðurlöndunum. Hér yrði búinn til viðbótarmöguleiki sem ég held að skipti máli. Að sama skapi er tekið upp próf til starfsréttinda og hafa skólarnir frelsi til að móta þær námsbrautir sem eiga að leiða til þess prófs. Ég tel að það sé líka framfaraspor.

Efling iðn- og verknáms er líklega það jákvæðasta finnst mér við þetta frumvarp. Ég velti fyrir mér þeim kostnaði sem mun felast í því. Samkvæmt umsögn fjármálaráðuneytis er gert ráð fyrir um það bil 200 millj. kr. í aukinn kostnað við iðn- og verknám, sem sagt í aukna umsýslu vegna verk- og iðnnáms. Mér finnst skipta máli að við erum að skoða þennan kostnað. En mér finnst andinn réttur, t.d. í því að skólarnir beri ábyrgð á iðnnámssamningum, að það verði stofnaðir vinnunámssjóðir og annað slíkt. Þar erum við að horfa á mörg raunveruleg vandamál sem hafa flækst fyrir iðn- og verknámi hingað til. Það skiptir því máli að fylgja þessum markmiðum vel eftir.

Að lokum er búið að endurskilgreina stúdentsprófið, eins og hæstv. ráðherra fór yfir áðan, og ekki kveðið á um einingafjölda til stúdentsprófs í nýjum lögum, eingöngu að það sé á viðurkenndri námsbraut með að lágmarki 45 einingum í þremur skilgreindum kjarnagreinum. Margir hafa rætt um hvort rétt sé að hafa svo lítinn kjarna, hvort hann eigi að vera stærri eða minni eða hvað. Ég tel í sjálfu sér að skólunum sé alveg treystandi til að bjóða upp á fjölbreytt og gott nám í þessum efnum. Í raun er það ágætisákvæði, þar sem kveðið er á um stúdentsprófið, að það uppfylli almennar kröfur fyrir nám á háskólastigi.

Ég er hlynnt þeirri hugmyndafræði að stúdentspróf geti verið ólík innbyrðis. En það vakna hins vegar ýmsar spurningar sem við hljótum að velta fyrir okkur vegna þess að inntak þess er í raun gefið frjálst. Það er auðvitað hvergi kveðið á um einingafjöldann. Það mætti hugsa sér út frá þessum anda laganna að nýtt stúdentspróf gæti verið 240 nýjar einingar, 200 einingar eða það gæti verið 180 einingar. Gæti jafnvel verið minna.

Skólum er í raun falið að skilgreina námsbrautir sínar til stúdentsprófs en þær þarf svo menntamálaráðuneytið að samþykkja og væntanlega einnig fjármálaráðuneyti. Það vekur hjá mér spurningar. Þótt faglega geti braut upp á segjum 220–240 einingar verði hreint glæsileg faglega og hlotið samþykki menntamálaráðuneytisins, þá spyr ég: Mun fjárveitingavaldið samþykkja að greiða meira fyrir sum stúdentspróf en önnur?

Umsögn fjármálaráðuneytis miðast við að skólaár verði lengt úr 175 kennsludögum í 180 kennsludaga þó að í frumvarpinu sé talað um að árlegur vinnudagafjöldi nemenda sé að lágmarki 180 dagar. Ég velti því fyrir með þennan sveigjanleika í stúdentsprófinu, sem ég hef þegar sagt að er jákvætt prinsipp, að hann má ekki vera í eina átt, þ.e. sveigjanleikinn má ekki miðast við að hafa endilega færri daga en fleiri, færri einingar en fleiri.

Í umsögninni kemur enn fremur fram að ekki sé búið að reikna inn sparnað við að nemendur nýti sér þann möguleika að ljúka stúdentsprófi á skemmri tíma miðað við það sem algengt er í dag. Við vitum að nemendur hafa getað lokið stúdentsprófi á mismunandi tíma í núverandi kerfi, frá tveimur árum upp í sex ár. Við höfum haft mjög opið framhaldsskólakerfi að þessu leyti en einingafjöldinn hefur verið samur. Ég velti því fyrir mér hvað felst í þessum orðum fjármálaráðuneytisins í umsögn fjármálaráðuneytisins og hvort ráðuneytið reikni þá með sparnaði við að nemendur velji sér inntaksminni námsbrautir eða hvort almennt sé reiknað með því að þær minnki að inntaki.

Ég velti þessu upp því þó að ég telji æskilegt að stúdentspróf séu ólík að inntaki þá skipti máli að þau miðist ekki við lægsta samnefnara og að fjárframlög verði skorin við nögl út frá því. Ég nefni það af því það er full ástæða til þess að horfa á hvernig fjárveitingavaldið hefur staðið sig hingað til við framhaldsskólana. Menntamálanefnd Alþingis fékk t.d. fulltrúa frá framhaldsskólunum á fund sinn fyrir fjárlagagerðina núna og þeir báru sig ekki sérstaklega vel og nefndu að þótt þeir hefðu unnið mikið starf í að koma rekstri sínum á réttan kjöl á undanförnum árum væru fjárveitingar í ár með þeim hætti að hætta væri á að sá árangur glataðist.

Reiknilíkanið sem nýtt hefur verið hefur ekki miðast raunverulegan kostnað við kennslu í skólunum heldur hefur það reynst gallað tæki til að skipta of litlum fjármunum milli skólanna. Ýmsar forsendur þess standast enga skoðun. Það kom mér t.d. mjög á óvart þegar ég áttaði mig á því að ein af forsendunum er sú að tölvubúnaður skuli afskrifaður á 25 árum. Ég sé fólk í anda vinna á 25 ára gamlar tölvur. Til samanburðar má nefna að í grunnskólum Reykjavíkur er tölvubúnaður afskrifaður á fimm árum. Þetta er bara eitt af því sem þarf að skoða.

Ég veit að það er verið að endurskoða þetta reiknilíkan en mér finnst mikilvægt að sú umræða og sú vinna fari fram samhliða þessari lagasetningu. Þetta hlýtur að þurfa að haldast í hendur. Önnur ástæða þess að ég spyr er ekki bara frammistaða fjárveitingavaldsins hingað til, hinar gömlu hugmyndir um skert stúdentspróf sem hafa verið til umræðu. Ég ætla ekki að gera því skóna að þær séu boðaðar hér. Ég vil bara fá fullvissu mína um að svo sé ekki.

Hæstv. menntamálaráðherra skýrði að nokkru leyti hugmyndafræðina á bak við viðbótarnámið, sem rætt er í 20. gr. frumvarpsins, hér áðan. Ég tel að þetta geti verið áhugaverð nýjung. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé einnig hugsað sem viðbótarnám til undirbúnings fyrir háskólanám. Ég velti því líka fyrir mér út frá ákvæðum frumvarpsins um gjaldtöku hvort ætlunin sé að yfirvöld greiði þetta nám eða hvort nemendur eigi að borga brúsann fyrir slíkt viðbótarnám.

Mér finnst eðlilegt að spyrja þessara spurninga. Ég er að mörgu leyti sammála inntaki frumvarpsins. Mér finnst jákvætt að færa skólunum aukið svigrúm til að skapa sér sérstöðu. Ég treysti okkar fólki svo sannarlega til að móta metnaðarfullar námsbrautir. Ég er viss um að þarna eru möguleikar til að móta fjölbreyttari og betri framhaldsskóla. Ég hef trú á að skólar vilji bjóða upp á fjölbreytt nám og til þess þarf að tryggja fjármagn.

Ég vil víkja stuttlega að nokkrum greinum í frumvarpi um framhaldsskóla sem ég vil sérstaklega nefna. Ég vil sérstaklega nefna nemendalýðræðið góða, sem ég tel að megi skýra betur í þessu frumvarpi og ekki síður í frumvarpi um framhaldsskóla en grunnskóla. Andi þessara laga er sá að ala upp börn og mennta í því að verða virkir þátttakendur í lýðræðissamfélagi. Ég hef þá trú að lýðræði lærist best með því að taka þátt í lýðræði. Mér fannst mjög gott, einhvern tímann þegar ég var sjálf að kenna um lýðræðið þegar ég var spurð: Af hverju megum við þá ekki hafa skoðanir á því sem þú ert að segja? Mér fannst það mjög jákvætt að nemendur átti sig á því að það skiptir máli að þeir móti skólastarfið. Um það snýst lýðræðið. Það mætti skerpa enn betur á því.

Ég nefni aftur jákvæð skref um réttindi nemenda með sérþarfir og sérstaklega 36. gr. frumvarpsins um heilsuvernd í framhaldsskólum í samráði við heilsugæslustöðvar, sem ég held að sé mjög jákvætt. Það hefur í raun skort í framhaldsskólum að þar séu starfandi hjúkrunarfræðingar eða að þar sé samstarf við heilsugæslustöðvar.

Áhersla á náms- og starfsráðgjöf er aukin. Ég fagna því og leyfi mér í framhaldi af því að minna á fyrirspurn sem ég ásamt hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur hef lagt fram um náms- og starfsráðgjöf. Þar er spurt um nefnd sem átti að skila af sér nýlega, sem átti að kanna gildi þess og gagn að auka náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum og hvort til standi að lögvernda starfsheitin náms- og starfsráðgjafi í því skyni að efla þá starfsemi. Ég vænti þess að það þurfi að ræða í samhengi við þetta frumvarp.

Ég minni líka á frumvarp hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar í tengslum við þetta, sem ég er reyndar meðflutningsmaður að, um ókeypis námsgögn í framhaldsskólum. Þar leggjum við til einfalda breytingu um að kennsla í framhaldsskólum skuli veitt nemendum að kostnaðarlausu og óheimilt sé að krefja nemendur eða forráðamenn þeirra um greiðslu fyrir kennslu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu og samrýmist ákvæðum laga þessara og aðalnámskrá. Ríkinu yrði skylt að leggja til og kosta kennslu og námsgögn er fullnægja ákvæðum aðalnámskrár. Ég vil minna á að í þessu dæmi sem og í öðrum frumvörpum er gjaldfrelsi lykilatriði til að tryggja jafnræði til náms.

Þá er komið að síðasta frumvarpinu, um lengingu kennaramenntunar. Við vinstri græn höfum lengi haft á stefnuskrá okkar að styrkja þurfi og lengja kennaramenntun á Íslandi svo að hún verði sambærileg við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Ég tel þetta eðlilegt framfaraspor, að lengja og efla kennaramenntunina.

Í 9. gr. þessa frumvarps er kveðið á um að að lágmarki tveir þriðju hlutar stöðugilda skuli teljast til stöðugilda leikskólakennara þegar kemur að því að manna leikskóla.

(Forseti (RR): Forseti spyr hvort hv. þingmaður eigi langt eftir af ræðu sinni og hvort ástæða sé til þess að fresta henni og hv. þingmaður haldi áfram þegar fundur er aftur settur.)

Ég á ekki mikið eftir af ræðu minni. Þetta eru svona fimm mínútur.

(Forseti (RR): Þá klárar hv. þingmaður ræðu sína.)

Ég þakka virðulegum forseta.

Virðulegur forseti. Í frumvarpinu kemur fram í 9. gr. að að lágmarki séu tveir þriðju hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla stöðugildi leikskólakennara. Ég minni á að þó að markmiðið sé gott og göfugt þá er staðan núna, bara miðað við tölur Hagstofunnar frá 2006, sú að undir 40% starfsmanna leikskóla eru leikskólakennarar eða með uppeldismenntun. Þótt markmiðið sé gott þá velti ég fyrir mér hvort það sé hreinlega raunhæft að setja þetta í lög og hver aðlögunartíminn verði með þetta markmið.

Við þurfum líka að líta til þess frábæra starfs sem víða er unnið á leikskólum landsins af öllu starfsfólki þeirra, bæði þeirra sem hafa uppeldismenntun en líka af öðrum og hvernig við sjáum að þessi breyting, sem vissulega er róttæk, eigi sér stað.

Ég vil aðeins nefna 8. gr. Ég tel mjög mikilvægt að fram fari umræður um inntak kennaramenntunar og hlutföll faggreina og uppeldisgreina. Í reglugerðinni skal sérstaklega rætt um að styrkja hlut faggreina. Ég held að það sé ágætt. Þó að það komi ekki fram í lögunum sjálfum er rætt um það í reglugerð að uppeldisgreinar verði 60 einingar að lágmarki og þar með faggreinar væntanlega, þ.e. að meira verði varið í faggreinar og kennslu faggreina, sem er auðvitað mikilvægur hluti af kennaranámi. Ég held að þetta sé spennandi kostur sem við þurfum að ræða, ekki síst í ljósi þess sem við ræddum fyrr í dag, um stöðu íslenskunnar, um stöðu stærðfræðinnar, þ.e. að kennarar hafi góða undirstöðumenntun í því fagi sem þeir kenna.

Að lokum tel ég mjög mikilvægt að við nýtum færið, nú þegar þessi frumvörp liggja fyrir, og ræðum um inntak menntunar, veltum fyrir okkur þeim hugtökum sem við notum þegar við ræðum um menntakerfið. Í Bretlandi hefur farið fram talsverð umræða um hvort hugtakið menntun sé í raun að hverfa, hafi hopað fyrir hugtökum á borð við þjálfun og færni. Þeir hafa kallað þetta upp á ensku, ég leyfi ég mér að segja það í ræðustól Alþingis. Þeir hafa velt fyrir sér hvort enska hugtakið „education“ sé að hverfa fyrir því sem á ensku er kallað „training“. Sitt sýnist hverjum í þeim efnum en ég tel mikilvægt að við missum ekki sjónar á því að markmið íslenskra skóla er að veita nemendum sínum innihaldsríka menntun í góðu umhverfi.

Það er vissulega hægt að veita nemendum þjálfun til að sinna ýmsum störfum, byggja upp færni þeirra til að takast á við mismunandi verkefni, en ég tel að menntunarhugtakið sé sá kjarni sem við viljum að hver og einn búi að til framtíðar og geri í raun hverjum og einum kleift að tileinka sér nýja þekkingu, þjálfa sig upp á nýtt, öðlast nýja færni, hugsa um nýja hluti á gagnrýninn og skapandi hátt og skapa nýja kunnáttu og þekkingu. Í því felst kjarni menntunarinnar. Það er sýn á heiminn sem gefur fólki traust og færni til að takast á við ný verkefni, löngun til að vita meira og skapa nýja hluti.