135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

yfirtaka vatnsréttinda í neðri hluta Þjórsár.

[15:57]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Hér er rætt um virkjanir í neðri hluta Þjórsár og álitsgerð þá sem Ríkisendurskoðandi hefur nú gefið út. Ég tel raunar að atriðið sem þar er úrskurðað um fjalli um mikið formsatriði sem aldrei muni ráða úrslitum þessa máls og ég vara við þeim skotgrafahernaði sem menn vilja fara í vegna virkjana í neðri hluta Þjórsár.

Það er ákveðinn hringlandi í gangi hjá þeim mönnum sem tala hvað harðast á móti þessum virkjunum núna en sögðu fyrir nokkrum vikum að þeir væru tilbúnir til að skoða rennslisvirkjanir. Það hefur hv. þm. Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, sagt og þannig hafa menn öðru hvoru í þeim flokki talað með þessum virkjunum eða á móti.

Þetta er ekki mjög sannfærandi málflutningur. Við þurfum að fara sáttaleiðina þarna. Ég held að það sé alveg augljóst að ekki eru efnisleg rök fyrir því að ætla að stöðva virkjanir alveg á þessu svæði. Málið er einfaldlega komið það langt. Við hleyptum því í gegnum umhverfismat án þess að gera athugasemdir og margir af þeim sem hér eru inni voru þá þegar í pólitík og gátu beitt sér fyrir því að gera þær athugasemdir á þeim tíma en gerðu ekki. Sjálfur er ég þar meðsekur líka því að ég hef alltaf verið andsnúinn því að fara með virkjanir niður í byggðir landsins. Ég tel að þær eigi að vera á hálendinu og er ekki hrifinn af þessum virkjunum. En ég legg áherslu á að menn fari þá leið að koma í veg fyrir þann umhverfisskaða sem mestur getur orðið þarna, sem á sérstaklega við um svæðið neðan við Haga í Gnúpverjahreppi þar sem til standa stóralvarleg umhverfisspjöll sem vel er hægt að komast hjá með því að þetta verði hreinar rennslisvirkjanir, og notist alfarið við miðlunina á hálendinu en sleppi því að hafa lónið þarna, en auðvitað minnkum við aðeins hagkvæmnina.

Ef menn fara í skotgrafahernaðinn, ef menn fara í stríð við Landsvirkjun, þá tel ég engar líkur á að sá árangur náist. Sá árangur næst aðeins með skynsamlegri sáttaleið í þessu máli, með þeirri skynsemi að við náum lendingu og förum (Forseti hringir.) bil beggja og duga þá hvorki til öfgar Vinstri grænna né grímulaus virkjanastefna margra sem hér hafa talað.