135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

staða þjóðkirkju, kristni og kristnifræðslu.

[15:40]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Á Íslandi er sem kunnugt er samband á milli ríkis og kirkju en jafnframt ríkir trúfrelsi í landinu Á hið síðara hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagt ríka áherslu í ályktunum sínum. Síðasti landsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ályktaði um þetta efni og áréttaði að virða bæri trúfrelsi að fullu og það væri grundvallaratriði að jafna stöðu trúar- og lífsskoðunarfélaga. Öll löggjöf og stjórnsýsla þyrfti að miðast við þetta.

Enn fremur segir í ályktuninni, með leyfi forseta:

„Landsfundurinn telur mikilvægt að í skólum sé gætt fyllsta hlutleysis gagnvart trúarbrögðum og afstöðu til trúar. Fundurinn leggur áherslu á jafnan rétt einstaklinga og hópa sem aðhyllast mismunandi lífsskoðanir og trúarbrögð. Landsfundurinn telur að trúfélögum eða öðrum þeim aðilum sem hafa heimild til að gefa hjón saman með tilheyrandi samfélagslegum skuldbindingum beri skylda til að mismuna ekki fólki á grundvelli kynþáttar, kynferðis, kynhneigðar eða lífsskoðana.“

Nú er það svo í okkar flokki að einstaklingar hafa mismunandi skoðanir á sambandi ríkis og kirkju og margir hafa mjög ríkar skoðanir í þeim efnum og það er virt. En stefna flokksins og þær áherslur sem við leggjum ríkastar fram er að stuðla að skilningi, gagnkvæmri virðingu og umburðarlyndi. Þess vegna viljum við efla fræðslu um trúmál, um siðfræði, um heimspeki í skólum landsins því að þekkingin og skilningurinn er forsenda umburðarlyndis.