135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:45]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þessar beiðnir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga liggja svo sem fyrir og þegar við höfum 39 milljarða kr. tekjuafgang ríkissjóðs eigum við þá að láta það bitna á sveitarfélögunum og ég tala nú ekki um mörgum af þeim fátækari? Varasjóð húsnæðismála vantar tilfinnanlega fjármagn, einmitt sveitarfélög sem eru veikburða. Við leggjum til að það verði farið að óskum Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Vegna eyðingar refa og minka sem mörg stór, dreifbýl, fámenn og fjárvana sveitarfélög verða að standa undir lögum samkvæmt, samkvæmt lögum frá Alþingi, stendur ríkið samt ekki við sinn hlut. Við leggjum til að komið verði til móts við þetta og staðið við lög og reglur hvað þetta varðar í hlutdeild ríkisins.

Ég er ekki sammála hv. þingmanni í því að sveitarfélögin sem mörg standa illa þótt sum standi vel eigi áfram að bera skaðann og að þeim skuli vera mismunað.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að það þurfi enn frekari aðgerðir, gagnvart Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, uppsveitum Árnessýslu, Suðausturlandi, byggðarlögum sem standa mjög illa og þurfa greinilega sértækar aðgerðir þó að við séum almennt ekki hlynnt sértækum aðgerðum. Það á að vera þannig samfélag að atvinnulíf og byggðir blómgist án mikilla sértækra aðgerða, en þegar í harðbakkann slær og við þurfum að standa saman og koma inn eigum við að gera það. Það finnst mér skorta á að sé gert með myndarlegum hætti og tek undir þau orð hv. þingmanns þar sem hann vék að því einmitt varðandi þessa landshluta.

Um leið og ég þakka hv. þingmanni samstarfið í fjárlaganefnd og styð margar af þeim tillögum sem nefndin leggur hér til við 3. umr. (Forseti hringir.) ítreka ég að mér finnst mörg af þessum sveitarfélögum með borðleggjandi verkefni (Forseti hringir.) hafa verið skilin eftir óbætt hjá garði.