135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

Hitaveita Suðurnesja.

[14:12]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Þá hefur hæstv. iðnaðarráðherra staðfest að Hitaveitu Suðurnesja hafi verið fórnað. Einkavæðingarstefnu fyrrverandi ríkisstjórnar um að selja 15,2% hlut ríkisins til einkaaðila og gera Hitaveitu Suðurnesja þar með að tilraunadýri í einkavæðingarstefnu sinni og vegferð, verður ekki umbreytt. Það er ekki hægt að breyta því. Það er óumbreytanlegt, segir ráðherrann.

Þetta er athyglisverð niðurstaða, ekki síst fyrir íbúa á Suðurnesjum sem hafa byggt upp þetta fyrirtæki og eiga, eins og ég sagði áðan, allt sitt í vatni, hita, rafmagni og frárennsli undir sama fyrirtæki.

Þetta er líka athyglisverð niðurstaða í ljósi þeirra tilrauna sem uppi eru um að halda þessu áfram, m.a. í heilbrigðiskerfinu. Þar er ekkert um neinar tilraunir að ræða. Ef af stað verður farið þá verður því ekki breytt.

Ég er algjörlega ósammála ráðherranum. Ég tel að þetta beri vott um uppgjöf Samfylkingarinnar gagnvart einkavæðingarstefnu Sjálfstæðisflokksins og ég er viss um að íbúar á Reykjanesi eru mér sammála um það og meiri hluti kjósenda (Forseti hringir.) Samfylkingarinnar líka.