135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[17:30]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við þurfum að leggjast í rannsóknarvinnu varðandi þetta eldra frumvarp — ég veit ekki hvaða eintak hv. þingmaður hefur í höndum — um hvort þetta hafi staðið í fyrra frumvarpi, að það ætti að tilnefna karl og konu í nefndir, stjórnir og ráð. Ég hef verið upplýst um að svo sé, þetta hafi verið í eldra frumvarpi. Ég hef það ekki undir höndum þannig að við skulum hafa það klárt fyrir 3. umr. og skoða það enda held ég að það sé ekki stórmál. Aðalatriðið er að þetta er í frumvarpinu sem við fjöllum um hér og ég hef lýst því áður að ég tel það til mikilla bóta.

Varðandi síðara efnisatriðið sem hv. þingmaður nefnir þá get ég ekki tekið undir það, að með því setja upp jafnréttisákvæði með þessum hætti sé valdið tekið af hagsmunaaðilum eða stjórnmálaflokkum sem eiga að tilnefna í nefndir, stjórnir eða ráð, og gengið gegn vilja kjósenda. Mér finnst það ansi langsótt að taka þannig til orða, eins og hv. þingmaður gerir. Í þeim tilvikum sem um er rætt er stjórnmálaflokki eða hagsmunaðilum gefið færi á að tilnefna tvo hæfa einstaklinga sem viðkomandi treystir. Síðan er það eingöngu ráðherra eða valdhafans sem skipar að velja úr þeim tveimur einstaklingum. Út frá hverju? Út frá því sjónarmiði að gætt sé jafnræðis milli kynja að því er varðar fulltrúa í nefndum, stjórnum eða ráðum. Ég get ekki fallist á það, virðulegi forseti, að með því sé valdið tekið frá stjórnmálaflokkunum eða gengið gegn vilja kjósenda. Við erum bara ósammála um það. En ég held að við séum sammála um margt annað í þessu ágæta frumvarpi.