135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

störf á Norðvesturlandi.

314. mál
[14:22]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þórunn Kolbeins Matthíasdóttir bar fram fyrirspurn til iðnaðarráðherra fyrir jól meðan hún átti sæti á Alþingi í stað hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar. Fyrirspurnin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

Hefur ráðherra áform um að beita sér fyrir fjölgun dagvinnustarfa sem henta konum á Norðvesturlandi í ljósi þess að hlutfall atvinnulausra kvenna er hærra en hlutfall atvinnulausra karla á svæðinu?

Með Norðvesturlandi er átt við kjördæmið, Norðvesturkjördæmi. Þegar skoðaðar eru upplýsingar sem tiltækar eru um atvinnuleysi á þessu svæði, skipt eftir kynjum, og borið saman við framboð á atvinnu kemur í ljós að á svæðinu öllu eru samkvæmt nýjustu upplýsingum 149 atvinnulausir en 45 störf í boði. Þar eru liðlega 100 fleiri atvinnulausir en störf í boði. Sé þetta er skoðað kyngreint kemur í ljós að af þeim 149 sem eru atvinnulausir eru 95 konur eða 64% atvinnulausra. Langstærstur hluti þeirra er á Vesturlandi, þ.e. 48 konur.

Það er ekki gott að átta sig á því hvernig störfin sem í boði eru falla að atvinnulausum konum en þó er ljóst að á Vesturlandi, þar sem atvinnuleysi kvenna er mest, eru langfæst störf í boði eða aðeins sex. Ég hygg að þau eigi ekki öll við þær konur sem um er spurt eða fyrirspyrjandi hafði í huga, þ.e. konur sem geta ekki tekið að sér að vinna vaktavinnu heldur leitast við að starfa utan heimilis á dagvinnutíma frá 8–4 eða 8–2.

Það er ljóst, af þeim upplýsingum sem tiltækar eru um þróun mála á þessu landsvæði, að störf í boði fyrir konur sem vilja vinna á þessum tíma eru afar fá. Það er tilefni þess að fyrirspurnin er borin fram, að vekja athygli hæstv. ráðherra á þessari stöðu. Spurt er um hvaða áform ráðherra hafi til að fjölga dagvinnustörfum fyrir konur á þessu svæði.