135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[16:43]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur náttúrlega margkomið fram hjá ferðaþjónustuaðilum sem hafa verið að byggja upp þessa þjónustu, m.a. á Vestfjörðum, að þeir telja nauðsynlegt að fá þennan grundvöll undir starfsemi sína.

Ég vil einnig benda á að Hafrannsóknastofnun, sem ég veit að sumir hverjir — ég held reyndar að hv. þm. Atli Gíslason sé ekki í þeirra hópi, hann hafi jafnvel viljað taka mark á þeirri ágætu stofnun — en í þeirra áliti kemur fram að frumvarpið sé nauðsynlegt og til þess fallið að stuðla að því að heildarafli fari ekki umfram það sem stjórnvöld ákveða á hverjum tíma. Það er auðvitað mikilvægt atriði, menn eiga ekki að hunsa þau markmið sem við setjum um sjálfbæra nýtingu fiskstofna. Við verðum því að hafa þar allt með í myndinni, m.a. þessar veiðar. Ég er algjörlega ósammála hv. þingmanni í því að það gangi gegn eflingu byggðar í landinu. Þvert á móti koma þeir sem helst hafa hugað að þessari tegund ferðaþjónustu úr smærri byggðum þar sem menn hafa þekkingu og reynslu á sviði smábátaútgerðar. Þess vegna er augljóst að fólk í smærri byggðum mun nýta sér þetta og víða hefur komið fram að þarna eru góð tækifæri fyrir minni byggðarlög til að byggja upp ferðaþjónustu og um leið að treysta byggð í landinu.