135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[18:39]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér hafa staðið umræður alllengi um þetta frumvarp og var við því að búast. Þetta er frumvarp sem rætt er núna í ljósi annarrar umræðu sem fram fer um sjávarútvegsmálin og ekkert við því að segja. Út af fyrir sig er engin gagnrýni af minni hálfu þótt umræðurnar beri þess nokkur merki.

Ég held að sá misskilningur sem hér hefur verið hvað mest áberandi sé að verið sé að setja sérstakar skorður við atvinnufrelsi manna. Því er alveg þveröfugt farið. Ef við skoðum þessi mál núna sjáum við að reglur um tómstundaveiðar eru mjög skýrar í lögum okkar, þær kveða á um að þeir sem stunda slíkar veiðar hafi ekki heimildir til að fénýta aflann. Þeir hafa ekki heimild til að fara með þann afla sem þeir draga úr sjó og selja á mörkuðum eða leggja upp til vinnslu í fiskvinnslu og fá greitt fyrir. Þvert á móti er gert ráð fyrir því að allur sá afli fari til eigin neyslu.

Með þessu frumvarpi er hins vegar opnuð leið fyrir þennan tiltekna flota báta, þ.e. báta sem eru nýjung í atvinnulífi okkar, báta sem ekki hafa stundað, a.m.k. ekki í neinum mæli, þennan atvinnurekstur. Flotanum er opnuð leið til að fá auknar tekjur. Þetta er, eins og margir hafa nefnt í dag, frumbýlingsatvinnuvegur, menn eru að hefja hann og m.a. í ljósi þeirra almannahagsmuna skiptir svo miklu máli að menn hafi möguleika á að skapa sér auknar tekjur með því m.a. að selja þann fisk sem ferðamennirnir, sem fá heimild og leigja eða borga fyrir það að fara á sjóinn, geta um leið selt. Oftast nær fá fyrirtækin sem standa að þessari ferðaþjónustuútgerð tekjur af þessum afla. Það er með öðrum orðum — þveröfugt við það sem hér hefur verið haldið fram — verið að reyna að setja nýjar og öflugri stoðir undir þennan atvinnurekstur.

Ég er alveg sammála því sem hv. þingmenn hafa talað um hérna í dag, það skiptir mjög miklu máli að vel takist til um þennan atvinnurekstur. Auðvitað vonum við öll að þetta verði blómlegur og kraftmikill atvinnurekstur og auðvitað vonum við að ferðamenn, bæði innlendir og erlendir, noti sér þessa möguleika sem sannarlega eru spennandi við það að greiða ferðaþjónustuaðila fyrir það að nýta bátinn og fiska og að í ljósi þess að afli hefur verið góður á grunnslóðinni geti menn selt hann, fénýtt hann alveg eins og gert er ráð fyrir að gert sé þegar um er að ræða veiðar í atvinnuskyni, haft af því tekjur og styrkt þannig stoðir þessarar nýju atvinnugreinar. Þess vegna er það mikill misskilningur — ég vil ekki láta mér detta í hug að það sé útúrsnúningur — af hálfu þeirra þingmanna sem hafa reynt að halda því fram að hér sé verið að reyna að bregða fæti fyrir þetta. Hvernig ætti einhver endilega að vilja bregða fæti fyrir nýja atvinnugrein sem skiptir miklu máli í sjávarplássunum þar sem þörf er á slíkri nýsköpun? Auðvitað dettur það engum í hug, auðvitað er tilgangurinn með þessu frumvarpi ekki sá að bregða fæti fyrir nýja atvinnugrein. Þvert á móti erum við að reyna að tylla fleiri stoðum undir þessa atvinnugrein og opna leiðir til að auka tekjur. Í dag getum við sagt að réttur manna sem stunda þessa atvinnugrein sé í besta falli óskýr. Nú erum við að skýra þennan rétt, við erum að auka hann og opna þessar heimildir.

Virðulegi forseti. Allnokkrar spurningar hafa verið lagðar fyrir mig sem ég tel nauðsynlegt að freista þess að svara. Menn hafa sagt sem svo: Setur þessi atvinnugrein, takmarkaðar veiðar þessara báta sem menn hafa kallað tómstundabáta en eru auðvitað bátar í atvinnuskyni, kerfið í uppnám? Auðvitað er það ekki þannig. Öllum er ljóst að hvorki setja þessar veiðar fiskveiðistjórnarkerfið í uppnám né hefur einhver lítill afli sem hér hefur verið gerður að umtalsefni — við skulum láta liggja á milli hluta að sinni nákvæmlega upp á tonn hver hann er — úrslitaáhrif á stöðu þorskstofnsins. Þetta snýst ekki um það, þetta snýst fyrst og fremst um að búa til aðferðir fyrir þessa atvinnugrein til að hafa auknar tekjur, búa henni almennan ramma sem hún getur starfað innan.

Ég hef mikla trú á þessari atvinnustarfsemi. Ég er þeirrar skoðunar að hún geti verið mjög arðsöm. Ég er ekki þeirrar skoðunar sem menn hafa talað hér um, að þessi atvinnugrein sé á slíkum brauðfótum að hún geti ekki selt mönnum aðgang að bátunum og um leið greitt fyrir það gjald til að afla sér aflaheimilda til að standa undir þessu eins og annar atvinnurekstur í sjávarútvegi. Auðvitað er þetta sambærilegt að þessu leytinu. Við erum að gera út báta og við höfum skapað þeim tiltekin réttindi sem aðrir bátar hafa ekki.

Hv. þm. Grétar Mar Jónsson og Guðjón A. Kristjánsson veltu því m.a. upp hvort það væri að öllu leyti réttlætanlegt að þessir bátar færu á sjó án þess að gerðar væru sömu kröfur um að þarna væru skipstjórnarlærðir menn um borð. Menn geta velt þessu fyrir sér en þá sjáum við líka í hendi okkar að við horfum væntanlega ekki til veiða þar sem mörg þúsund ferðamenn fara í gegn. Það er á vissan hátt aðgangstakmörkun sem hv. þingmaður leggur hér til. Við stjórnum þessu hins vegar með öðrum hætti, við höfum ákvæði um það í öðrum lögum hvernig standa skuli að öryggismálum þessara báta og þessara sjómanna. Það eru skorður við því hversu langt þeir geta sótt o.s.frv. Mér finnst vel koma til greina að hafa skorður í þessum lögum, líka um veiðarfæri og þess háttar, þannig að það liggi algjörlega fyrir. Það er eitt af því sem menn ræddu í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Ég tel, virðulegi forseti, þetta leið til að skapa tekjur fyrir þessa atvinnugrein.

Menn hafa líka velt því upp að reisa t.d. aðrar skorður sem fælu það í sér að menn yrðu skyldaðir til að leggja þennan afla inn í það sem menn hafa kallað Hafró-afla. Muna menn ekki hvernig það er? 80% af andvirði þess afla fara til hafrannsókna í landinu, 20% eiga þá að koma til skipta. Hvernig ætla menn að gera það? Halda menn að það sé líklegt til að styðja við bakið á þessari nýju atvinnugrein að hún fái einungis 20% af þessum tekjum? Auðvitað ekki, það sjá allir menn. Þess vegna vakir greinilega fyrir mönnum sem eru að velta upp svona hlutum að búa til aðrar og annars konar aðgangstakmarkanir en þær sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi.

Hér hefur því líka verið velt upp hvort verið sé að koma í veg fyrir að menn geti veitt eins og hingað til hefur verið heimilað og er heimilt í núverandi fiskveiðistjórnarlögum, hvort við séum að koma í veg fyrir að menn geti veitt til eigin neyslu. Það er ekkert slíkt sem vakir fyrir okkur með þessu frumvarpi. Öðru nær hefur margoft komið fram, bæði þegar ég mælti fyrir þessu frumvarpi síðasta vetur og einnig núna, það hefur komið fram í þessari umræðu og það kemur fram í greinargerðinni að ekki neitt slíkt vakir fyrir okkur eða er tilgangurinn með þessum lögum. Öðru nær, tilgangurinn er eingöngu sá að gera skýr skil á milli þeirra sem fénýta aflann og hinna sem ekki fénýta hann. Vegna þess að þetta er í eðli sínu atvinnugrein sem fénýtir þennan afla er alveg ljóst mál að hún þarf á því að halda til þess að geta staðist, til þess að geta búið sér til tekjur, til þess að eiga framtíðarmöguleika, að hún geti gert það með þessum hætti.

Ég spyr: Ef þetta er að mati hv. þingmanna svo veikburða atvinnugrein að hún hafi ekki arðsemi til að geta leigt til sín aflaheimildir þrátt fyrir að um borð séu menn sem ekki fá laun, menn sem greiða fyrir það að fara út á sjó á sama tíma og aðrir sjómenn þiggja laun fyrir að fara út á sjó, er augljóst mál að menn eru að reyna að draga upp þá mynd af þessari atvinnugrein að hún sé veikburða og lítil arðsemi í henni, eigi með öðrum orðum ekki mikla framtíð fyrir sér. Ég er ósammála því. Ég held að þessi atvinnugrein eigi einmitt framtíð fyrir sér, hún geti átt eftir að sýna góða arðsemi ef vel verður að verki staðið og búið til skynsamlegt lagaumhverfi, rekstrarumhverfi í kringum þessa atvinnugrein.

Menn hafa verið að velta fyrir sér magninu sem þarna kemur á land. Ég svaraði því í andsvari áðan að auðvitað væri erfitt að átta sig á því hvert það yrði á næsta fiskveiðiári. Við vitum t.d. ekki nákvæmlega hversu margir bátar verða, við vitum ekki hversu vel gengur að selja í þessar ferðir þó að allt líti vel út í þeim efnum og við vitum ekki hver fiskigengdin verður. Þessum spurningum er erfitt að svara um framtíðina, við getum reynt að átta okkur á því hver reynslan hefur verið en hún mun væntanlega ekki segja okkur mikla sögu. Þetta eru frumbýlingsár þessarar atvinnugreinar, hún er rétt að byrja. Við erum ekki að horfa til þess að framtíðinni verði þetta einungis það umfang sem var í fyrra og hittiðfyrra í þessum atvinnurekstri. Við erum að vonast til þess — og það er sú framtíðarsýn sem það fólk hefur sem stendur fyrir þessum atvinnurekstri — að við eigum eftir að sjá þúsundir ferðamanna nýta sér þessa möguleika. Er það ekki það sem við erum að vonast til, er það ekki það sem við horfum til, gælum við að geti þess vegna orðið ný lyftistöng fyrir sjávarbyggðirnar í landinu sem sannarlega þurfa á því að halda að fá nýtt blóð og aukinn kraft í atvinnustarfsemi sína? Þetta vakir fyrir frumvarpinu og allt annað tal er þess vegna útúrsnúningar að mínu mati.

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi út af fyrir sig komið inn á þær spurningar sem voru lagðar fram í umræðunni. Í sjálfu sér væri hægt að fara miklu fleiri orðum um málið en ég ætla ekki að gera það á þessari stundu. Það er eðlilegt að málið fái vandaða umfjöllun í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd eins og önnur mál sem þar koma fyrir og menn leiti þá eftir þeim upplýsingum sem þeir þurfa að hafa í þessum efnum, t.d. þeim sem menn þurfa að hafa varðandi það sem snýr að öðrum lögum sem varða rammann að þessari atvinnugrein. Það er sjálfsagt að það sé gert í nefndinni.

Ég ítreka, virðulegi forseti, að þetta frumvarp hefur fyrst og fremst þann tilgang að reyna að skjóta fleiri og öruggari stoðum undir atvinnulífið. Þetta er tilraun til að skapa ramma utan um nýja atvinnugrein sem hefur ekki verið til staðar. Það er rangt að kalla þetta tómstundaveiðar, þetta eru ekki tómstundaveiðar því að eðli málsins samkvæmt er þetta atvinnustarfsemi. Það er það sem þetta gengur út á. Þetta gengur út á að búa til atvinnustarfsemi og þess vegna er það kjarni málsins að við erum að reyna að opna þessu leið vegna þess að þetta eru veiðar í atvinnuskyni og það er ekkert óeðlilegt við að þeir sem stunda þessar veiðar í atvinnuskyni lúti að þessu leytinu sambærilegum reglum og tíðkast í annarri atvinnustarfsemi í tengslum við sjávarútveginn.

Það er endalaust hægt að segja sem svo að þessi atvinnugrein sé þess eðlis að hún eigi að lúta öðrum reglum. Getum við þá ekki alveg eins tekið til línuveiðar, handfæraveiðar, veiðar í byggðunum, veiðar einhvers staðar annars staðar, veiðar eldri sjómanna, yngri sjómanna o.s.frv.? Það er hægt að færa rök fyrir ýmiss konar ívilnunum í þessum efnum, en ég er dálítið undrandi á því hvað menn festa sig í því að í þessu felist einhver sérstök hindrun eða takmörkun á atvinnufrelsi þegar svo er alls ekki. Ég spyr þá líka sjálfan mig og kannski aðra um leið: Ef sérreglur eiga að gilda um þessa tegund atvinnustarfsemi, þessa ferðaþjónustutengdu sjávarútvegsstarfsemi sem nýtur vaxandi vinsælda, ekki síst erlendra ferðamanna, eru þá ekki sérstök rök fyrir því, sams konar rök, að sambærilegar reglur gildi um aðra atvinnustarfsemi í sjávarútvegi? Hvar ætla menn að draga mörkin, hvar ætla menn að draga fiskveiðiréttinn?

Frjálslyndi flokkurinn hefur t.d. lagt fram (Gripið fram í.) frumvarp sem gengur út á að breyta fiskveiðirétti núverandi útgerðarmanna í sóknarrétt, færa hann úr því að vera aflamark í sóknarmark, ekki taka af mönnum fiskveiðiréttinn, heldur bara breyta honum. Ég á ekki von á því að — (Gripið fram í.) Ég hef lesið þetta frumvarp rækilega og gæti farið yfir þetta mál síðar ef hv. þingmaður óskar eftir því, ekki í þessari umræðu í sjálfu sér. Þetta segir okkur einfaldlega það að hv. þingmenn sem hafa gagnrýnt þetta hafa gert það út frá algjörlega röngum sjónarhóli sem ég held að hljóti að byggjast á einhverjum misskilningi en ekki því að menn vilji endilega snúa út úr.

(Forseti (KÓ): Forseti biðst afsökunar á bilun hjá okkur í ljósabúnaði sem varð í fyrri hluta ræðu hæstv. sjávarútvegsráðherra.)