135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:43]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram kemur hjá málshefjanda að það eru viðsjár í efnahagsmálum, þ.e. það ástand sem verið hefur á mörkuðunum í Asíu eins og fram kom hjá hv. þm. Pétri Blöndal. Nú er ástandið þannig að heimurinn bíður eftir því að kauphöllin í New York opni núna klukkan tvö til að sjá hver viðbrögðin verða þar. Það er auðvitað áhyggjuefni fyrir Ísland ekki síst vegna þess að við erum orðin miklu umfangsmeiri í fjármálastarfsemi eins og við þekkjum og höfum í vaxandi mæli fjárfest í erlendum fyrirtækjum og þess vegna mun ástandið á heimsmörkuðum hafa veruleg áhrif hér á landi.

Að þessar viðsjár séu andvaraleysi ríkisstjórnar Íslands að kenna, eins og fulltrúi Framsóknarflokksins heldur hér fram, eða einkavæðingunni, eins og hv. þm. Vinstri grænna heldur hér fram, er náttúrlega málflutningur sem dæmir sig algjörlega sjálfur. (Gripið fram í: Er einkavæðingin að ...?) Það er full ástæða til að taka stöðu mála mjög alvarlega en fjalla um leið um það af ábyrgð og alvöru, m.a. um hinar jákvæðu hliðar sem Ísland hefur við slíkar aðstæður, m.a. hina sterku stöðu ríkissjóðs og þau góðu skref sem stigin hafa verið frá kosningunum síðastliðið vor, og að menn í þessum sal og samfélaginu öllu átti sig á því að við þessar aðstæður er fátt mikilvægara fyrir íslenskt samfélag og framtíð okkar næstu mánuði og missiri en pólitískur stöðugleiki í landinu. Ég held að ríkisstjórnarflokkarnir þurfi að hafa það sérstaklega vel í huga.