135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

innheimtulög.

324. mál
[11:04]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til innheimtulaga á þskj. 506, 324. mál. Eins og nafnið ber með sér fjallar það um innheimtu skulda en lög um þess háttar starfsemi eru ekki til hér á landi. Ýmis ákvæði aðfararlaga, laga um nauðungarsölu og fleiri laga taka að sjálfsögðu á einstökum þáttum í innheimtu vanskilakrafna en það breytir ekki því að engin almenn innheimtulög eru til í landinu. Ríkisstjórninni þykir rétt að bæta úr því og slík lög eru í gildi annars staðar á Norðurlöndunum. Reynslan af norsku lögunum, sem voru sett fyrir fáeinum árum, er t.d. mjög góð og byggist frumvarpið að hluta til á þeim og reynslunni af þeirri lagasetningu.

Frumvarp þetta, sem samið hefur verið í viðskiptaráðuneytinu, byggist m.a. á stjórnarfrumvarpi frá 123. löggjafarþingi fyrir níu árum, munnlegum athugasemdum efnahags- og viðskiptanefndar við það frumvarp og vissum atriðum úr þingmannafrumvarpi frá árinu 2005, fluttu af núverandi hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur.

Einkum er hert nokkuð á skilyrðum fyrir veitingu innheimtuleyfis í 4. gr. Þá eru ákvæði 6. gr. um góða innheimtuhætti gerð ítarlegri en var að finna í þeim frumvörpum. Ákvæði 14. gr. um sjálfsábyrgðartryggingu miðast ekki lengur við vísitölu. Í 15. gr. er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið fari með leyfisveitingu og leyfissviptingu í stað viðskiptaráðherra og eru þar m.a. sett ákvæði um eftirlitsgjald.

Við samningu frumvarpsins, sem snertir m.a. innheimtustarfsemi lögmanna, viðskiptabanka og sparisjóða, annarra lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, svo og ýmissa stofnana, var m.a., eins og ég gat um áðan, stuðst við norsk innheimtulög sem hafa gefið góða raun.

Markmiðið með frumvarpinu er einkum að setja ákveðnar meginreglur um innheimtu til hagsbóta fyrir neytendur, m.a. ákvæði um góða innheimtuhætti og innheimtuviðvörun og draga úr óeðlilegum kostnaði skuldara við hvers kyns almennar innheimtuaðgerðir, þ.e. áður en til innheimtuaðgerða á réttarfarsstigi kemur.

Í reglugerð má takmarka hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar, m.a. þóknunar, sem heimilt er að krefja skuldara um. Með viðvörun væri stefnt að því að skuldarar almennt ættu kost á að greiða skuld sína innan ákveðins stutts frests með lágmarkskostnaði er gæti grundvallast á ákvörðun í reglugerð áður en til innheimtuaðgerða á grundvelli réttarfarslaga yrði gripið. Lánardrottinn mundi væntanlega á þessu stigi almennrar innheimtu senda skuldara viðvörun. Hann gæti þó leitað aðstoðar lögmanns eða annars innheimtuaðila en bæri þá sjálfur ábyrgð á hugsanlegri greiðslu til hans umfram lágmarkskostnað.

Ég vil taka fram hér að frumvarpið tekur til innheimtu vegna eigin starfsemi en almenna reglan er sú að ekki þarf leyfi til slíkrar starfsemi. Aðeins þarf innheimtuleyfi vegna innheimtu á eigin peningakröfu skv. 5. gr. ef aðili hefur keypt í þeim tilgangi að innheimta þær sjálfur í atvinnuskyni. Leyfi í slíkum tilvikum þurfa þó ekki þeir sem undanskildir eru slíku leyfi skv. 2. mgr. 3. gr., þ.e. lögmenn svo og opinberir aðilar, viðskiptabankar og sparisjóðir, aðrar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki.

Samkvæmt frumvarpinu munu innheimtulögin skiptast í sex kafla. Ákvæði I. kafla fjallar um gildissvið og fleira. Þar kemur m.a. fram að lögin gildi með vissum undantekningum um innheimtu gjaldfallinna krafna um greiðslu peninga og að unnt sé með samningi að víkja frá sumum ákvæðum laganna. Í II. kafla er fjallað um skilyrði til að mega stunda innheimtu, m.a. innheimtuleyfi. Í III. kafla er að finna ákvæði um samband innheimtuaðila, m.a. kröfuhafa og skuldara, m.a. um góða innheimtuhætti og innheimtuviðvörun. Í IV. kafla eru ákvæði um samband innheimtuaðila og kröfuhafa, nánar tiltekið upplýsingaskyldu innheimtuaðila og meðferð innheimtufjár. Í V. kafla eru ákvæði um greiðslu innheimtukostnaðar og hámarksfjárhæð hans, m.a. þóknunar sem ákveða má í reglugerð ráðherra að höfðu samráði við helstu hagsmunaaðila. Í VI. kafla eru ýmis ákvæði, m.a. um sjálfsábyrgðartryggingu, eftirlit með framkvæmd laganna, leyfisveitingu, leyfissviptingu, refsingar og almennar reglugerðarheimildir.

Eins og segir í athugasemdum með frumvarpinu er markmið þess að setja ákveðnar meginreglur um innheimtu til hagsbóta fyrir neytendur, m.a. ákvæði um góða innheimtuhætti og innheimtuviðvörun, um innheimtuleyfi og sviptingu á innheimtuleyfi. Þá er mælt fyrir um heimild til handa ráðherra að gefa út reglugerð þar sem kveðið verður á um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar sem heimilt verður að krefja skuldara um.

En frumvarpinu er ekki einungis ætlað að tryggja hagsmuni skuldara. Verði það að lögum mun staða kröfuhafa einnig batna. Þannig er mælt fyrir um vörslufjárreikninga innheimtuaðila, sjálfsábyrgðartryggingu allt að 16,5 millj. kr. sem innheimtuaðilar verði að hafa. Sjálfsábyrgðartryggingin getur þó einnig orðið skuldurum til hagsbóta sem órétti eru beittir og hafa eignast bótakröfu á hendur innheimtuaðila.

Einhverjum kann að þykja það skjóta skökku við að setja í lög heimild til handa ráðherra til að ákveða verð fyrir tiltekna þjónustu þegar samkeppni er reglan á flestum sviðum. Því er til að svara að samkeppni kemst ekki að þegar um innheimtuþóknun er að ræða, a.m.k. ekki nema að mjög takmörkuðu leyti. Ræðst það af því að skuldarinn sem borgar innheimtuþóknunina velur ekki innheimtuaðila. Það gerir að sjálfsögðu kröfuhafinn. Þar sem kröfuhafinn greiðir ekki kostnaðinn við innheimtuna hefur hann takmarkaðra hagsmuna að gæta að því er varðar innheimtuþóknunina.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns taka ýmis ákvæði réttarfarslaga til innheimtu skulda og kveða á um réttindi og skyldur skuldara og kröfuhafa. Auk þess hefur úrskurðarnefnd lögmanna, samkvæmt heimild í lögum nr. 77/1998, um lögmenn, úrskurðarvald um þóknun fyrir lögmannsstörf, þar með talið innheimtuþóknun. Því þótti eðlilegt að binda gildissvið frumvarpsins við almennar innheimtuaðgerðir sem má flokka með ýmsum hætti, svo sem í fruminnheimtu, milliinnheimtu og lögfræðiinnheimtu sem væri ekki komin á réttarfarsstig.

Hér er með öðrum orðum átt við innheimtur frá því að skuld fellur í gjalddaga þar til byrjaðar eru innheimtuaðgerðir á grundvelli réttarfarslaga, það er stefnt er að þeirri kröfunni, eða aðfarar- eða uppboðs er beiðst á grundvelli nauðsynlegra heimilda. Ekki er stefnt að því með innheimtulögum að koma í veg fyrir eðlilega gjaldtöku vegna almennra innheimtuaðgerða.

Því er við þetta að bæta að markmið frumvarpsins er ekki einungis að veita ráðherra heimild til að ákveða með reglugerð hámark innheimtuþóknunar og stemma þannig stigu við óeðlilegum innheimtukostnaði, heldur er markmið frumvarpsins ekki hvað síst að kveða á um réttindi og skyldur skuldara og kröfuhafa að öðru leyti. Er þar um að ræða mörg þýðingarmikil atriði eins og drepið var á í framsögunni.

Ég tel að hér sé um að ræða mjög mikilvægt mál. Verði frumvarp þetta að lögum er víst að það mun stuðla að myndun góðra innheimtuhátta, skýra réttarstöðu allra þeirra aðila sem að innheimtunni koma og á eftir að firra bæði skuldara og kröfueigendur tjóni í framtíðinni.

Hér er um að ræða mál, eins og ég nefndi í upphafi, sem ýmsir hafa barist fyrir í gegnum tíðina í ýmsum myndum, Neytendasamtökin, einstakir stjórnmálamenn eins og hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, og málið var flutt sem stjórnarfrumvarp í annarri mynd fyrir tæpum áratug af þáverandi viðskiptaráðherra. Þannig að hér hafa ýmsir komið að uppbyggingu á þessu góða máli í mörg ár. Ég tel að það sé orðið það þroskað eftir þá umræðu og eftir meðferð þingnefndar á sínum tíma, af tilteknum athugasemdum við það sem þar kom fram. Af ráðslagi við hagsmunaaðila og ýmsa aðra, samtök fjármálafyrirtækja, Neytendasamtökin og marga aðra, sé málið orðið þroskað og gott og þess efnis að það sé mjög heppilegt og jákvætt fyrir íslenskt samfélag og íslenska neytendur og alla þá sem að þessu máli koma að það fari inn á Alþingi og verði vonandi að lögum.

Meginatriðin, eins og ég nefndi áðan, eru þau að með frumvarpinu eru settar meginreglur um innheimtu til hagsbóta fyrir bæði neytendur og kröfuhafa, ákvæði um góða innheimtuhætti og innheimtuviðvörun, innheimtuleyfi og sviptingu þess. Og þá er mælt fyrir um heimild til handa ráðherra að gefa út reglugerð þar sem kveðið verður á um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar sem heimilt verður að krefja skuldara um.

Öll þessi atriði tel ég til mikilla hagsbóta fyrir íslenska neytendur, íslenskar fjármálastofnanir og alla sem hafa með þessi mál að gera. Það blasir að sjálfsögðu við eftir skoðun á málinu að byggja þarf upp ákveðna vernd fyrir þriðja aðila, skuldarann sem velur sér ekki innheimtuaðilann, hefur ekkert með þóknunina að gera, þannig að þar þarf að slá ákveðinn varnagla sem er þá heimild til handa viðskiptaráðherra til að setja með reglugerð hámark á slíkar innheimtur.