135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[18:55]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er ljóst að við höfum brotið mannréttindi í langan tíma. Kvótakerfið sem við erum með er ónýtt eins og kom fram hjá hv. þm. Ellerti B. Schram. Þess vegna spyr ég: Hvað vill Samfylkingin gera? Ætlar hún að taka þátt í að hunsa álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna eða ætlar hún að standa í ístaðinu og gera þá kröfu að farið verði eftir áliti nefndarinnar? (Gripið fram í: Hún ætlar að gera það.) Ef hún ætlar að gera það væri gott að heyra það frá þingmönnum úr ræðupúlti, (Gripið fram í: Það hefur komið fram.) því að við höfum verið að brjóta mannréttindi í 24 ár.

Svo eru menn að velta því fyrir sér að það þurfi að fara að skoða kerfið, endurskoða kerfið. Hvað eru menn að fara? Vita þeir ekki að það er komið álit frá mannréttindanefndinni um að þetta sé ónýtt kerfi? Og svo vitna menn í eitthvað í stjórnarsáttmálanum um að það þurfi að skoða kerfið. Það er ljóst að það verður að borga skaðabætur til margra sem hafa farið mjög illa út úr því, en fyrst og fremst finnst mér að það þurfi að vera skýrt hvort Samfylkingin ætlar að standa í ístaðinu. Ætlar hún að sprengja ríkisstjórnina ef íhaldið vill ná sínu fram með því að gera engar breytingar og jafnvel hunsa algjörlega álit mannréttindanefndar?