135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

nýtt starfsheiti fyrir ráðherra.

248. mál
[17:16]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé nú bara einfaldlega þannig að við erum ósammála því, ég og hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, að það sé merkingarlega útilokað fyrir konu að kalla sig herra. Ég átta mig alveg á muninum á því að karlmenn eru titlaðir herrar, t.d. herra Höskuldur Þór Þórhallsson, og konur eru titlaðar frúr, t.d. frú Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Hins vegar erum við, eins og sagt var í frammíkalli áðan, öll menn, ég held að um það sé enginn sérstakur ágreiningur hér á Alþingi. Konur eru að auki konur og karlar karlar.

Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir sagði að þetta mál væri þarft innlegg í jafnréttisumræðuna. Það vekur furðu mína að ekki skuli fleiri taka til máls í svo brýnni og þarfri jafnréttisumræðu. (Gripið fram í.) Ég vona að sem flestir taki þátt í þessari brýnu og þörfu umræðu.