135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

háhraðatengingar og starfsemi Fjarskiptasjóðs.

[11:35]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hefur farið fram um þetta mikilvæga mál og mikla hagsmunamál landsbyggðarinnar. Full þörf er á að ræða þetta og ég fagna því að þingmenn hafa rætt þetta á mjög málefnalegan hátt, reyndar með einni undantekningu sem ég ætla að koma aðeins inn á hér á eftir.

Það skiptir öllu máli fyrir landsbyggðina að hún sé samkeppnishæf. Í rauninni er það eina krafa landsbyggðarinnar í augnablikinu að hún sé samkeppnishæf varðandi samgöngur, GSM-samband og háhraðatengingar. Það skiptir öllu máli varðandi nám svo að ekki sé minnst á störf án staðsetningar að allir geti notið háhraðatengingar.

Ég varð fyrir vissum vonbrigðum með svör hæstv. samgönguráðherra og hefði viljað að hann gæfi skýrari fyrirheit um það hvað gert yrði í framtíðinni, að verið væri að hraða þessu máli eins og kostur er. Það er ekki eftir neinu að bíða í þessum efnum og því miður er staðan þannig víðs vegar um landsbyggðina að ef það verður beðið verður ekki aftur snúið. Hin stóru orð, að í lok þessa árs verði bylting í fjarskiptum, minntu mig reyndar á það þegar mótvægisaðgerðirnar voru kynntar, einhverjar stórkostlegustu mótvægisaðgerðir ríkisstjórnar fyrr og síðar, sem hafa ekki reynst annað en kruður og, eins og einn hv. þingmaður sagði, dónaskapur við landsbyggðina.

Ég fagna því reyndar að samgönguráðherra ætlar að beita sér fyrir auknum fjárveitingum í Fjarskiptasjóð. Við framsóknarmenn munum ekki liggja á okkar liði. (Forseti hringir.) Ég vil að lokum segja, af því að hv. þm. Steingrímur J. sagði að við framsóknarmenn mundum leggja til (Forseti hringir.) að þessum framkvæmdum verði frestað, þá er það alls ekki það sem ég sagði og mjög ómaklega að okkur vegið. Við munum hins vegar beita okkur fyrir að þessum framkvæmdum (Forseti hringir.) verði flýtt hið allra fyrsta.