135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í gjaldmiðilsmálum.

[15:18]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Nú liggur fyrir svar hæstv. forsætisráðherra. Hann segir að það sé svar ríkisstjórnarinnar að þjóðin skuli borga 72 milljarða á ári umfram það sem komist yrði af með, vegna þess að ríkisstjórnin vill ekki hlýða stefnu viðskiptaráðherra ríkisstjórnarinnar. Þetta þýðir líka annað, að það er ekki lengur viðskiptaráðherra sem talar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um þau mál sem undir hann heyra heldur hæstv. forsætisráðherra.

Þá hlýt ég að spyrja, virðulegi forseti: Getur ríkisstjórn talað tveimur tungum í sama máli? Getur hún haft tvo viðskiptaráðherra, annars vegar hæstv. viðskiptaráðherra og hins vegar hæstv. forsætisráðherra? Ég sé ekki hvernig stjórnarsamstarfið á að geta gengið þegar flokkarnir sem að ríkisstjórninni standa geta ekki einu sinni komið sér saman um grundvallarmál eins og þetta.