135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

samkeppnislög.

384. mál
[18:17]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka þingmanninum fyrir prýðilega yfirferð yfir málið og jákvæðar undirtektir við öll helstu ákvæði þess. Ég vildi fyrst geta þess hvað varðar framlög til Samkeppniseftirlitsins samanborið við Fjármálaeftirlitið að verkefni Fjármálaeftirlitsins hafa þanist svo hratt út á fáum árum að 50% aukning hefur verið af heimildum til þess ár eftir ár. Það býr við markaða tekjustofna meðan Samkeppniseftirlitið lýtur öðrum lögmálum og hefur ekki búið við sömu kröfur um eftirlit og Fjármálaeftirlitið. Ég held því að það hafi verið verulegur árangur á síðasta ári að ná fram 30% aukningu á fjárheimildum til Samkeppniseftirlitsins á einu ári sem er langt umfram aukningu á heimildum til annarra opinberra stofnana og var til þess ætluð að marka þá yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að efla verulega samkeppniseftirlit og eftirlitsstofnanir samfélagsins.

Ég tek mjög eindregið undir orð hv. þingmanns um samrunaákvæðið. Ég er sannfærður um að það sé mikið sanngirnismál að samrunar gangi ekki fram fyrr en Samkeppniseftirlitið hefur fjallað um þá. Það er ekki gott að fyrirtæki lendi í því undarlega óhagræði að hafa fullgert samruna, sameinað starfsemina, byrjað að starfa af fullum krafti eftir gerbreyttum aðstæðum og svo lýkur Samkeppniseftirlitið umfjöllun sinni og þá er samruninn látinn ganga til baka. Það er mjög ósanngjarnt og það er vont hlutskipti bæði fyrir Samkeppniseftirlitið að þurfa að brjóta samrunann á bak aftur töluvert eftir að hann hefur átt sér stað og eins fyrir fyrirtækin að búa við slíka óvissu eftir að starfsemin er hafin. Það er miklu hreinlegra að samruninn gangi ekki fram fyrr en eftir að Samkeppniseftirlitið hefur fjallað um hann. Það er til mikilla bóta að mínu mati fyrir bæði fyrirtæki og almenning.