135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

samkeppnislög.

384. mál
[18:19]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Andsvar hæstv. viðskiptaráðherra gefur kannski ekki tilefni til mikilla andsvara af hálfu þess þingmanns sem hér stendur enda sýnist mér við frekar vera á sama máli hvað varðar flesta hluti frumvarpsins. Það er rétt að Fjármálaeftirlitið hefur þanist út og fjármálamarkaðurinn einnig. Það tengist að mínu mati þeim stakkaskiptum sem orðið hafa á íslensku viðskiptalífi á undanförnum árum og ég er þeirrar skoðunar að við eigum að efla Samkeppniseftirlitið enn frekar.

Nú komu ábendingar frá fjármálafyrirtækjum um að þeim væri mikill hagur í því að hafa öflugt fjármálaeftirlit. Tiltrú aðila erlendis mundi einfaldlega aukast við það. En ég held að það sama gildi um viðskiptalíf annað en fjármálalíf að tiltrú allra á íslensku viðskiptalífi mun aukast ef hér ríkir öflugt og virkt samkeppniseftirlit.

Ég vil endurtaka það sem fram kom hér áðan: Samkeppniseftirlitið býr við mjög mörg verkefni. Áðan var rætt um að í frumvarpinu væri heimild fyrir því að Samkeppniseftirlitið geti tekið upp mál sem hafa fallið á formgalla og ég held að þá sé einfaldlega mikill hagur í því að hér sé mjög öflugt samkeppniseftirlit til þess einmitt að slíkir formgallar komi minna í ljós og nægur mannskapur og fjárráð sé til að fara mjög ítarlega yfir þau verkefni sem að þeim snúa.