135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

útgjöld til menntamála og laun kennara.

[14:43]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er aldrei að vita hvar menn geta leyst deilur, það gæti m.a.s. gerst í ræðustól á Alþingi. Vissulega er það ekki líklegt og ekki er það mitt viðfangsefni í fyrirspurninni að fjalla um það heldur hinn enda málsins sem eru útgjöldin. Við skulum ekki gleyma því að eftir þá kjarasamninga sem nú voru gerðir eru byrjunarlaun iðnaðarmanna orðin, að því er mér sýnist, umtalsvert hærri en byrjunarlaun ýmissa háskólamenntaðra stétta hjá hinu opinbera. Ég fæ því ekki séð annað en að hæstv. fjármálaráðherra verði að taka mið af því í kjarasamningum til þess að ná samningum við háskólamenntaða opinbera starfsmenn.

Hann þarf að svara þinginu um útgjöldin og við erum þegar með opinberar upplýsingar um það að útgjöld til menntamála hér á landi eru þau hæstu meðal OECD-ríkjanna. Hver er stefna ríkisstjórnarinnar hvað það varðar? Hvernig á að leysa kjarasamningana með því að bæta kjör einstaklinga? (Forseti hringir.) Hvernig eiga útgjöld til menntamála að þróast?