135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

sjávarlíffræðisafn og rannsóknarsetur á Akureyri.

116. mál
[16:49]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg viss um að þetta eru allt hlutir sem menn eiga að ræða og fara vel yfir. Þá held ég og tek undir það með ráðherra að ég held að það sé í sjálfu sér ekki efni til neins ágreinings í þeim efnum. Það kann að vera að menn vilji fara hér yfir orðalag á því hvernig aðkoma eða stuðningsyfirlýsing — eins og ég kallaði það raunar í framsögu minni — stuðningsyfirlýsing af hálfu Alþingis við þetta verkefni eigi að orðast. Það er sjálfsagt að ræða það.

Ég minni líka á mikilvægi safnaþáttarins í þessu og það fræðsluhlutverk sem þar er á ferðinni. Í mínum huga styður þetta allt hvað annað, þar á meðal líka það starf sem verið er að byggja upp á Húsavík og er auðvitað mjög gleðilegt að því vex fiskur um hrygg, því starfi sem hófst þar með fræðasetri Þingeyinga og stofnun Náttúrustofu Norðausturlands og síðan aðkomu háskóla að því og svo framvegis. Sama má segja um hið ágæta starf sem unnið hefur verið í Sandgerði. Það á ekki að líta á þetta sem andstæður eða keppinauta heldur miklu fremur sem aðila sem vinna sem samherjar og þar sem starfsemin styður hver aðra.

Ég vonast til þess að þetta mál fái góða skoðun. Mér finnast undirtektir í það heila tekið vera góðar og að héðan af Alþingi komi þannig andi í garð málsins að það verði því til framdráttar en ekki öfugt.