135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

prófessorsembætti kennt við Jónas Hallgrímsson.

221. mál
[18:27]
Hlusta

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna sem orðið hefur um þessa tillögu og vona að hún verði hvatning sem dugar og gangi fram.

Hv. þm. Ólöf Nordal vék aðeins að málnefndinni og öðrum skólum en Háskóla Íslands varðandi hlutverk íslenskunnar og auðvitað á þetta allt að vera undirlagt að einhverju leyti þó að menn séu með misjafnar áherslur. Þegar maður til að mynda nefnir Íslenska málnefnd, foreldrahlutverkið o.s.frv. hefur reynslan sýnt að það er ekki skipulagt, það er ekki nein grunnmeining í því eða metnaður sem öll börn njóta eða allir nemendur. Og þó að Íslensk málnefnd vinni gott starf hefur hún t.d. ekki staðið í útrás fyrir íslenska tungu inn í hversdagsleika samfélagsins, ekki staðið fyrir áróðri fyrir hlut íslenskrar tungu eða betra tungutaki og er þó full ástæða til, ekki síst með þróun fjölmiðla undanfarin ár í huga þar sem hratt hefur fjarað undan íslensku tungutaki í allt of miklum mæli, ekki bara í útvarpi og sjónvarpi heldur líka í blöðum, það er misfarið með og það stendur óleiðrétt. Þetta er hlutur sem þarf að bregðast við.

Þess vegna er það hugmyndin í þeirri tillögu sem hér er rædd að prófessorsembætti tengt Jónasi Hallgrímssyni verði útvörður, verði umboðsmaður íslenskrar tungu til að berjast fyrir stöðu hennar í samfélagi okkar og vekja athygli á mikilvægi þess að tekið sé fast á til að verja hana áföllum og gruggugum slettum. Ef slíkt er tekið upp í skólakerfinu að einhverju leyti og markvisst, hvort sem það er ljóðræktin eða annað sem hægt er að nota til að hlúa að tungunni, þá er það einfaldlega sá þáttur sem gefur mesta möguleika á að hafa borð fyrir báru í því sem við erum öll ugglaust sammála um, að við eigum að hlúa að íslenskri tungu og rækta virðingu fyrir henni.

Það má segja, af því að hv. þm. Ólöf Nordal sagði áðan að við hefðum ugglaust öll lítinn áhuga á því að fara að blanda öðrum tungumálum inn í háskólasamfélagið, að það minni á kerlinguna sem sagði við strákinn: „Þú ferð í þínar ullarbrækur, þær duga best, þú ferð ekki í neitt lín, þú ferð í það sem dugar okkur best.“ Hann vildi hafa mjúkt lín og þægilegt en það dugði ekki inn í veturinn. Það er alveg eins með íslenskuna, hún dugar okkur best í okkar hjartalagi, í okkar takti, í okkar stíl þar sem við viljum gjarnan að maður sé manns gaman og þó geti hver haldið í sitt svo fremi að hann meiði ekki annan. Þannig ber þetta allt að sama brunni, við þurfum að standa dyggan vörð um stöðu íslenskrar tungu og við eigum ekki að bíða eftir því að hún hljóti einhver áföll eða að inn í hugsunarhátt landsmanna gagnvart tungunni læðist einhver ský sem skemma, einhver mengandi ský sem skemma tunguna. Ég held að það sé lykillinn í því sem við höfum verið að fjalla um hér, að reyna að tryggja að það gangi allt fyrir sig á þroskaðan og eðlilegan hátt.