135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

framkvæmd vaxtarsamnings Eyjafjarðar.

398. mál
[15:22]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég held að sá vaxtarsamningur sem hv. þingmaður varpar spurningum til mín um og var virkur frá 2004–2007 hafi skilað bara býsna góðum árangri og ég held að enginn gagnrýni þann árangur. Einn klasinn sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega, mennta- og rannsóknarklasi, leiddi til þess að það var búinn til nýr skóli, RES orkuskóli, sem ég bind miklar vonir við og hef sem ráðherra reynt að ýta undir eins og kostur er bæði heima og erlendis. Ég var nú síðast í höfuðstað Norðurlands á mánudag með fund með þeim ágætu mönnum og konum sem því verkefni stýra.

Það er hins vegar misskilningur ef menn telja að verið sé að hverfa frá klasahugmyndafræðinni. Hún hefur þvert á móti skilað góðri niðurstöðu og hún er sú hugmyndafræði sem menn eru að vinna eftir, bæði í þessum samningi að því er ég best veit og sömuleiðis í þeim samningum öðrum sem eru í gangi núna, a.m.k. þeim samningum sem ég hef sjálfur haft frumkvæði að. Vaxtarklasar voru ekki skilgreindir í nýjum vaxtarsamningi fyrir Eyjafjarðarsvæðið en ég leit svo á eftir þá langvinnu samninga sem ég átti við marga sem að málinu komu að það væri ósk heimamanna að leyfa áherslum um framkvæmd klasanna að þróast með samningnum.

Hitt er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þetta er ný tegund samnings sem þarna er gerður en hann er mjög svipaðrar gerðar og sá sem síðar var gerður í fyrsta skipti fyrir Norðausturland og Norðvesturlandið. Það sem er breytingin á þessum samningum er að menn eru að læra af reynslunni. Þetta hefur gengið ágætlega víðast hvar, ekki alls staðar, og menn eru að læra af reynslunni. Þetta er það sem ég hef leyft mér að kalla nýja kynslóð vaxtarsamninga. Það má kannski taka þessar breytingar saman í nokkur meginatriði.

Í fyrsta lagi eru afskipti stjórnvalda af mótun samningsins lágmörkuð og ábyrgð á innihaldi þeirra og innleiðingu markmiða og leiða er alfarið færð til heimamanna. Með öðrum orðum, frá mínum bæjardyrum séð og það sem ég er að reyna að gera er að flytja þetta vald úr ráðuneytinu yfir í héruð og láta heimamenn ráða þessu.

Í öðru lagi er stjórnunarfyrirkomulagið einfaldað mjög til muna. Allir sem komu áður, fyrirtæki eða stofnanir, að samningnum áttu sæti í stjórn hans og það var ráðuneytið sem þurfti að skipa í þessar stjórnir. Með breytingunni sem er gerð á þessum þremur samningum er rekstur og ábyrgð á framvindu og árangri samningsins alfarið færður í hendur eins aðila. Menn geta svo deilt um það hvaða aðili það ætti að vera. Ég taldi að atvinnuþróunarfélögin á þessum stöðum væru sá aðili sem best væri fallinn til þess að halda utan um þetta. Það er hlutverk þeirra að lyfta undir atvinnulífið á viðkomandi stöðum og þau hafa gert það mjög vel og ég vil nota tækifærið og hrósa atvinnuþróunarfélaginu fyrir norðan alveg sérstaklega fyrir þrautseigju og þolgæði sem leiddi til þess að lokum að fyrirtækið Becromal sló tjöldum sínum þarna.

Í þriðja lagi voru áherslur á þátttöku fyrirtækja skertar. Ef ég ætti, hv. þingmaður, að koma með eina aðfinnslu varðandi fyrri samninginn fannst mér t.d. að áherslan á þátttöku fyrirtækja væri ekki nægilega rík en það er reynt að skerpa hana með þessum hætti. Mér fannst líka, ekki bara varðandi þennan samning heldur alla þessa samninga, að það væri tilhneiging til þess að í of ríkum mæli rynnu þessir fjármunir til ríkisstofnana. Ég vil taka alveg skýrt fram að ég tel að það sé allt í lagi að nýgræðingur sem skýtur upp kolli úr jarðveginum innan vébanda ríkisstofnana sé styrktur en það þarf að vera ákveðið hóf þar á. Ég nefndi það sérstaklega — af því að hæstv. menntamálaráðherra gengur nú í salinn — að þessi vaxtarsamningur leiddi til þess að til varð sú skólastofnun sem er núna að stíga sín fyrstu skref og hæstv. menntamálaráðherra opnaði 9. febrúar. Ég bind miklar vonir við hana.

Við töldum að það væri ekki nauðsynlegt að skilgreina klasa fyrir fram í samningum og það er t.d. ekki gert í þeim tveimur samningum öðrum sem ég hef nefnt. Heimamönnum er algjörlega látið eftir að skilgreina þá eins og aðrar leiðir sem þeir kunna að telja að væru vel eða best fallnar til að ná þessum markmiðum. Ég held hins vegar að ég sé ekki að fara með rangt mál þegar ég segi að ég veit ekki betur en að áformað sé að virkja áfram a.m.k. helminginn af þeim klösum sem hv. þingmaður nefndi hérna áðan og voru starfandi á síðasta tímabili samningsins. Sumir þeirra tókust vel, sumir miður. Það var líka áhugi á því að fara nýjar leiðir og taka inn ný svið undir vernd og væng þessa vaxtarsamnings.