135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

hækkun á bensíni og dísilolíu.

[10:56]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það hafa engar ákvarðanir verið teknar um að lækka gjaldtöku á eldsneyti við núverandi aðstæður. Það verður að hafa það í huga að hækkun eldsneytisverðs sem kemur utan frá, eins og ég gat um áðan, er í raun og veru skattur á þjóðarbúið og honum getum við ekki vikist undan þó að við höfum í mörg ár reynt að draga hér úr notkun eldsneytis með ýmsum hætti og bílar séu almennt sparneytnari nú en þeir voru fyrir nokkrum árum.

Við höfum líka horfið frá þeirri gjaldtöku sem áður tíðkaðist, þ.e. að leggja vörugjald á sem hlutfallsgjald, það gjald er núna í formi bensíngjalds og olíugjalds, tiltekin krónutala á hvern lítra eldsneytis. Þar við bætist virðisaukaskatturinn sem er hlutfallsskattur og það er hann sem menn hafa talið að skapaði ríkissjóði meiri tekjur vegna þessara hækkana.

Á þá röksemd hefur ríkisvaldið aldrei fallist vegna þess að það eru líkur til þess að menn dragi annaðhvort úr notkun eldsneytis við þessar aðstæður eða þá minnki notkun á einhverjum öðrum virðisaukaskattskyldum varningi. Það er því einföldun á málinu að segja að ríkissjóður fái sjálfkrafa tekjuaukningu út á þessa hækkun olíuverðs.

Hitt er svo annað mál að umræddar tekjur renna að stærstu leyti, olíugjaldið og vörugjald á eldsneyti, til vegauppbyggingar í landinu og verulegur hluti af því sem umfram er, vegna þess að ríkissjóður er að borga miklu meira í vegagerð en sem nemur hinum lögbundnu tekjustofnum. Þetta vita allir hér. Þetta er nú eitt af því sem menn hafa verið að krefjast að yrði gert meira af. Og þetta er auðvitað eitt af því sem hv. þm. Guðni Ágústsson var að gagnrýna, öll þessi nýju framlög til vegamála því hann er að gagnrýna það að við höfum aukið verklegar framkvæmdir á vegum hins opinbera í ár. En það er einmitt í þetta sem þeir peningar hafa farið. (Gripið fram í.)