135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[17:53]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi þann hug sem býr að baki ummælum mínum um þann kjaramismun sem kann að vera að skapast innan þingsins á milli þeirra annars vegar sem eru hér kjörnir eða starfa á vegum þeirra eða þeim tengdum og svo hins vegar starfsfólks þá beinist hugsun mín inn á þá braut að við þurfum að hyggja vel að launum, kjörum og starfsskilyrðum starfsfólks Alþingis þannig að þar búi menn ekki við lakari kjör.

Varðandi þann mismun sem hæstv. forseti telur vera annars vegar á störfum þingmanna á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni hins vegar þá leyfi ég mér að segja að þar held ég að hljóti að vera einhver misskilningur á ferðinni eða kannski vanþekking þegar talað er um okkur sem sjaldan förum út fyrir Elliðaárnar. Ég hef trú á því að þegar kemur að löggjafarstarfinu sem slíku þurfi allir þingmenn á svipaðri aðstoð að halda við sérfræðiþjónustu og annað sem tengist starfi okkar innan þingsins.

Síðan er hitt annað mál að þingmenn í stórum kjördæmum fjarri Reykjavík þurfa að ferðast meira og væntanlega munu þessir aðstoðarmenn ekki sinna því hlutverki. Innan míns flokks, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hefur verið vilji til að efla stjórnmálastarf á landsbyggðinni. Við vildum gjarnan sjá skrifstofu verða til á Akureyri, á Ísafirði (Forseti hringir.) og annars staðar á landinu til að efla stjórnmálastarfsemi, til að þjóna okkar viðhorfum og fólki í kjördæmum okkar.