135. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2008.

kostnaður við gerð Héðinsfjarðarganga, Fáskrúðsfjarðarganga og ganga um Almannaskarð.

356. mál
[14:04]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Árni Johnsen hefur borið fram fyrirspurn um kostnað við gerð Héðinsfjarðarganga, Fáskrúðsfjarðarganga og ganga um Almannaskarð sem er skipt niður í nokkuð marga liði, eða í 10 liði. Ég mun nú á þeim fimm mínútum sem ég hef reyna að fara yfir þá.

Í fyrsta lagi er spurt um bein tilboð við göngin. Því er til að svara að Fáskrúðsfjarðargöng voru boðin út í desember 2002 og tilboð opnuð 17. febrúar 2003. Fjögur tilboð bárust í verkið. Það lægsta var frá Ístaki og E. Pihl & Søn, eða 3,2 milljarðar. Það var tæpum 3% yfir verktakakostnaði en áætlaður verktakakostnaður við það verk var 3,16 milljarðar. Allar þessar tölur eru á verðlagi sem gilti á útboðstímanum.

Um Almannaskarðsgöng er þetta að segja. Þau voru boðin út í desember 2003 og tilboð voru opnuð 27. janúar 2004. Það komu fimm tilboð í verkið. Þau voru frá Jarðvélum ehf. upp á 1,1 milljarð, NCC og Íslenskum aðalverktökum upp á 959 millj. kr., Ístaki upp á 856 millj. kr., Arnarfelli upp á 797 millj. kr., Héraðsverki ehf. og Leonard Nilsen & Sønner upp á 779 millj. kr. sem reyndist lægsta tilboðið eða 91% af verktakakostnaði. Áætlaður verktakakostnaður þar var 856 millj. kr. rúmar. Sama er þar, tölurnar eru miðaðar við verðlag útboðstímans.

Í framhaldi af vali á verktökum voru Héðinsfjarðargöng boðin út öðru sinni í janúar 2006 og tilboð opnuð 21. mars sama ár. Það bárust fimm tilboð í verkið sem voru frá Marti Contractors og Íslenskum aðalverktökum upp á 8,9 milljarða kr., Ístaki upp á 6,5 milljarða, Arnarfelli upp á 6,1 milljarð, Leonard Nilsen & Sønner og Héraðsverki ehf. upp á 5,8 milljarða og Metrostav og Háfelli ehf. upp á 5,7 milljarða kr. sem reyndist lægsta tilboðið sem var um 89% af verktakakostnaði sem var 6,46 milljarðar. Allar þessar tölur eru líka á verðlagi á útboðstímanum.

Í öðru lagi er spurt um lengd ganganna. Fáskrúðsfjarðargöng eru 5,9 km að vegskálum meðtöldum. Almannaskarðsgöng 1,3 km og Héðinsfjarðargöng eru 11 km, líka að meðtöldum vegskálum.

Í þriðja lagi er spurt um kostnað við umhverfismat. Í Fáskrúðsfjarðargöngunum var kostnaður við umhverfismatið 14 millj. kr. Ekki var talin þörf á umhverfismati og kostnaði við mat á umhverfisáhrifum við Almannaskarðsgöng. En í Héðinsfjarðargöngum var kostnaður við umhverfismat 54 millj. kr.

Í fjórða lagi er spurt um hönnunarkostnað. Hönnunarkostnaður var 122 millj. kr. fyrir Fáskrúðsfjarðargöng, 34 millj. kr. í Almannaskarðsgöngum og 178 millj. kr. í Héðinsfjarðargöngum.

Í fimmta lagi er spurt um eftirlitskostnað. Hann var 211 millj. kr. við Fáskrúðsfjarðargöng, 80 millj. kr. við Almannaskarðsgöng og 156 millj. kr. í Héðinsfjarðargöngum til ársloka 2007.

Í sjötta lagi var spurt um kílómetraverð eftir tilboðum. Því er til að svara að við Fáskrúðsfjarðargöng hefur heildarkostnaður á kílómetra jarðganga verið 872 millj. kr., 1.255 millj. kr. við Almannaskarðsgöng og heildarkostnaður miðað við uppfærða áætlun, 840 millj. kr. á kílómetra í Héðinsfjarðargöngunum.

Í sjöunda lagi, virðulegi forseti, er spurt um rannsóknarkostnað. Hann var 57 millj. kr. í Fáskrúðsfjarðargöngum, 16 millj. kr. í Almannaskarðsgöngum og 127 millj. kr. við Héðinsfjarðargöng.

Endanlegur kostnaður eða áætlun við Fáskrúðsfjarðargöng eru 4.965 millj. kr. á verðlagi í febrúar 2008. 1.444 millj. kr. á verðlagi í febrúar 2008 fyrir Almannaskarðsgöng og fyrir Héðinsfjarðargöng er heildarkostnaður í árslok 2007 3.925 millj. kr. á verðlagi í febrúar 2008.

Í níunda lið er spurt um aðra þætti sem skipta máli. Ég held að það séu ekki aðrir þættir en þeir sem sem ég hef svarað þar á undan. Varðandi framkvæmdatímann eða lokaáætlanir þá var Fáskrúðsfjarðargöngunum lokið í nóvember 2005. Almannaskarðsgöngum var lokið í júní 2005 og áætlaður lokatími við Héðinsfjarðargöng er í árslok 2009 og þá er ég kominn á rautt ljóst, virðulegi forseti, og tel mig hafa svarað þessu eftir bestu getu.