135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

Sundabraut.

[10:58]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Þetta er nú orðið nokkuð vandasamt ef það er orðið þannig að ráðherrar þurfa meira og minna að vera hættir í pólitík til að taka afstöðu. Þeir mega ekki taka afstöðu til neinna mála af því þeir kunna hugsanlega í einhverri framtíð að þurfa að úrskurða í einhverjum tilteknum málum.

Við höfum heyrt það áður frá hæstv. ráðherra og fleiri ráðherrum að þeir geta ekki tekið afstöðu til mála vegna þess að þeir þurfa hugsanlega að úrskurða í einhverjum álitamálum síðar meir. Þetta er staða sem er algjörlega óviðunandi. Það verður að vera hægt að ætlast til þess að ráðherrar, handhafar framkvæmdarvaldsins, hafi einhverjar pólitískar skoðanir á þeim málum sem við er að fást í ráðuneytum þeirra. Mér finnst að þegar nú liggur fyrir einróma afstaða borgarstjórnar Reykjavíkur, þvert á alla stjórnmálaflokka, um hvaða leið á að fara — það er vaxandi stuðningur við þá afstöðu hér á Alþingi. Mér finnst því skjóta skökku við að hæstv. samgönguráðherra geti ekki að minnsta kosti lýst því hvaða leið hann telji ákjósanlegasta, hugsanlega þá sömu leið og félagar hans í Samfylkingunni, formaður (Forseti hringir.) samgöngunefndar Alþingis, formaður samgönguráðs og oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn Reykjavíkur.