135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[14:43]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Árni Páll Árnason, einn helsti talsmaður Samfylkingarinnar í utanríkismálum, flutti hér athyglisverða ræðu sem ég held að dæmi sig best sjálf. Ég þarf ekki að gefa henni einkunn. Hann kom víða við og jafnvel á flokksráðsfundi Alþýðubandalagsins, nei Vinstri grænna — hann fór nú ekki aftur í Alþýðubandalagið en það munaði ekki miklu, (Gripið fram í.) þar vorum við kunnugir í eina tíð.

En það er athyglisvert að það er reynt að draga upp þá heimsmynd hér í ræðustóli á Alþingi — það var virkilega reynt hér af manni sem væntanlega ætlast til þess að hlustað sé á hann og mark tekið á honum þegar hann ræðir um alþjóðamál — að algjör samstaða væri í alþjóðasamfélaginu um aðgerðirnar í Afganistan, gott ef ekki ánægja með ástandið. Það væri bara Vinstri hreyfingin – grænt framboð uppi á Íslandi sem hefði einhverjar aðrar skoðanir. Að því var eiginlega látið liggja.

Ég bið hv. þingmann að hafa ekki miklar áhyggjur af ágreiningi mínum og míns flokks við flokkssystkini okkar á öðrum Norðurlöndum, við erum í ágætu sambandi. Ég get alveg fullvissað hann um að þar á ég og við mörg skoðanasystkini. Þar finnst mönnum þessi leiðangur ógæfulegur og þar er fólk sem neitar að hlíta leiðsögn Bandaríkjamanna í þessum efnum.

Það er athyglisvert að hv. þingmaður skuli æsa sig svona yfir tillögu sem er um það eitt að við köllum liðsafla okkar heim frá Afganistan og endurskipuleggjum friðargæsluþátttöku okkar og verkefnaval í anda nýrra laga sem Alþingi hefur þar um sett. Út á það gengur tillagan.

Hefur hv. þingmaður áhyggjur af því að himinn og jörð farist ef Íslendingar taka um það sjálfstæða ákvörðun, sem við höfum að sjálfsögðu fullan rétt til, að beina kröftum okkar annað og standa öðruvísi að málum. Var hinn frægi her ekki kallaður heim frá Írak? Má þá ekki ræða að gera slíkt hið sama í Afganistan þótt aðstæður séu kannski ekki að öllu leyti þær sömu? Ég verð að segja alveg eins og er að ég skil ekki alveg (Forseti hringir.) þennan æsing. Ég skil ekki af hverju hv. þingmaður þarf að leggjast í heldur lágkúrulega útúrsnúninga sem eru honum ekki til sóma. Bara út af því að tillaga af þessu tagi kemur fram hér á Alþingi og mælt er fyrir henni.