135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[19:25]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Afar áhugaverð umræða hefur farið fram hér í dag. Það má kannski segja sem svo að hv. þingmenn Pétur H. Blöndal og Ögmundur Jónasson, sem hér töluðu hvor á eftir öðrum, hafi endurspeglað algerlega kantana í þessari umræðu.

Ég gat ekki betur heyrt en hv. þm. Pétur H. Blöndal fyndi þessu nánast allt til foráttu og leyfði sér þann munað að líkja þessu við einhvers konar áætlunargerð sem tilheyrði Sovét hér til forna, sem er nú liðinn tími. Hins vegar gat ég ekki skilið hv. þm. Ögmund Jónasson á annan veg en þann að hann telji að þessi punktur, þ.e. þessi upphafspunktur sem við hér stöndum á, sé ekki réttur, þ.e. að hv. þingmaður vilji spóla örlítið til baka. Ég skildi hv. þingmann á þann veg að hann vildi spóla til baka og tryggja þannig að ríkið ætti allar þessar náttúruauðlindir, hv. þingmaður tilgreindi reyndar vatnið kannski meira en annað, en taldi á þann hátt að það ætti að spóla til baka. Í því felst þá þjóðnýting, þ.e. á þeim eignarheimildum sem í dag eru í einkaeigu. Ef sá tímapunktur sem við stöndum á hér í dag, sem við vinnum með og göngum út frá — og það er útgangspunkturinn í frumvarpinu að gera ekki breytingar á eignarhaldinu eins og það er í dag heldur leggja af stað héðan. Ef farið er aftar, jafnvel aftur fyrir 1923 þegar núgildandi vatnalög voru sett, þýðir það í reynd að hv. þingmaður er að leggja til að við þjóðnýtum þær auðlindir sem nú eru í einkaeigu. Þannig skildi ég hv. þingmann og ég held að það hafi verið nokkuð réttur skilningur.

Ég vil segja, virðulegi forseti, að ég tel það ekki koma til álita enda tel ég að sá tímapunktur sem við stöndum á í dag sé alveg nógu góður til að tryggja það sem við þurfum að tryggja. Okkar hlutverk er að tryggja viðhald auðlindanna og tryggja að komandi kynslóðir hafi aðgang að þeim. Það er algjört lykilatriði í mínum huga, þ.e. vernd, viðhald og viðgangur þessara auðlinda og að tryggja að komandi kynslóðir hafi aðgang að þessum auðlindum. Í dag er það einfaldlega þannig að flestar þær auðlindir sem við viljum sjá ganga á milli kynslóða eru ýmist í eigu ríkis eða sveitarfélaga, langsamlega stærsti hlutinn. Ég held að í jarðvarmanum, sem vísað er til í frumvarpinu, sé talað um að 88% séu í eigu ríkis eða sveitarfélaga.

Ég held þess vegna að þessi tímapunktur sé út af fyrir sig ágætur. Ég held hins vegar að það megi ekki dragast umfram það sem nú er enda er staðan sú að hægt er að selja allar þessar auðlindir, það er staðan. Þess vegna á hæstv. iðnaðarráðherra mikið hól skilið fyrir að koma fram með þetta mál núna því að þetta er veruleg breyting frá gildandi réttarástandi. Í dag má selja allar þessar auðlindir án þess að nokkur geti æmt eða skræmt en verði frumvarpið að lögum er tryggt að þær verði áfram í opinberri eigu. Á sama hátt er þá tryggt, væntanlega með eftirliti og öðru slíku, að við viðhöldum þessum auðlindum og afhendum þær til komandi kynslóða þannig að þær geti einnig nýtt þær.

Á hinn bóginn er lagt upp með það í frumvarpinu að einkaaðilar geti komið að því — og þá er ég kannski að tala um virkjanir fyrst og fremst — að framleiða orku úr þessum auðlindum og þá er hægt að leigja auðlindirnar til tiltekins tíma. Ég held að sú aðferðafræði sé mjög skynsamleg. Fyrir tíu árum eða svo, þegar ég sat í svokallaðri auðlindanefnd, skoðuðum við þetta ágætlega. Þá höfðu Norðmenn þegar farið þá leið og það var mjög athyglisvert að þær virkjanir sem Norðmenn höfðu byggt — við fengum á sínum tíma orkumálastjóra til þess að bera þetta saman — á þennan hátt voru miklum mun hagkvæmari en þær virkjanir sem voru byggðar hér á landi. Þetta þótti mjög athyglisvert.

Ég held að sú aðferðafræði sem hér er lagt upp með, sem hæstv. iðnaðarráðherra leggur upp með og ég styð eindregið, sé afar skynsamleg. Ég held hún nái nefnilega tveimur meginmarkmiðum sem er annars vegar að tryggja eignarhaldið á auðlindinni eins og hér er lagt upp með og hins vegar að nýta einkafjármagnið til þess að koma þarna inn — þessi aðferðafræði tryggir bestu og hagkvæmustu nýtinguna og tryggir viðhald og viðgang auðlindanna þannig að um sjálfbæra þróun, sjálfbæra nýtingu, verði að ræða. Það hlýtur að vera markmið okkar og það hlýtur að vera langstærsta markmið okkar þegar við förum yfir þessi mál.

Ég lít svo á að hér sé um að ræða fyrsta skrefið til þess að skapa heilsteyptan lagaramma um hlutverk og ábyrgð ríkisins þegar kemur að nýtingu auðlinda. Ég segi það einnig að hér er um kúvendingu að ræða frá fyrri ríkisstjórnum, það held ég að hv. þm. Ögmundur Jónasson geti tekið undir. Þá vísa ég einkum í lög um nýtingu og vernd auðlinda í jörðu frá 1997 eða 1998, ef ég man þetta rétt, og eins vatnalögin sem hart var deilt um fyrir ári eða svo og sátt náðist um að fresta gildistökunni á — um er að ræða kúvendingu á þeirri hugmyndafræði sem fram kemur í þessum tveimur frumvörpum, annars vegar frumvarpinu sem varð að lögum 1997 eða 1998, ég hef ártalið ekki alveg á hreinu, og hins vegar í frumvarpinu sem gildistöku var frestað á, þ.e. algeran einkaeignarrétt á náttúruauðlindum. Hér er hæstv. iðnaðarráðherra að koma fram með sjónarmið sem þessi ríkisstjórn hefur og ég held að ekki megi gera lítið úr þeirri stefnubreytingu sem orðið hefur. Ég hefði haldið, og reyndar skildi ég hann á þann veg, að hv. þm. Ögmundur Jónasson styddi þetta mál í grunninn, alla vega las ég það út úr ræðu hans þó að hann hefði kannski viljað einhverja aðra útfærslu einhvers staðar. En í grunninn skildi ég hv. þingmann á þann veg að hann væri sammála því að tryggja eignarhaldið á þessum auðlindum þó að hann hafi talað um að fara eitthvað aftar.

Ég vil líka koma aðeins inn á þá röksemdafærslu sem hér hefur heyrst og hefur verið röksemdafærsla fyrir því að rétt sé að heimila sölu á þessum auðlindum, sem ég vil taka fram að ég er algjörlega ósammála, að með sölunni væri hægt að tryggja hagkvæmari nýtingu auðlindanna og það hefði þar af leiðandi meiri efnahagsleg áhrif. Ég lít svo á að nýting á þessum auðlindum sé nánast forsenda þess að Ísland haldist í byggð. Ég lít svo á að sala á afurðum úr þessum auðlindum, þ.e. hiti, vatn og rafmagn, sé algjör undirstaða þess að við getum haldið hér uppi samfélagi eins og við viljum sjá það. Ef við ætlum að tryggja komandi kynslóðum aðgang að þessum auðlindum, að þessum gæðum, þá þurfum við náttúrlega að tryggja eignarhaldið því að eignarhaldið er algjört lykilatriði þegar að þessu kemur.

Ég get vel ímyndað mér að það væri mjög eftirsótt staða fyrir einkaaðila að eiga allt vatnið, eiga allan jarðhitann eða eiga allt vatnsaflið. Þá væri um að ræða einokunaraðstöðu sem ætti sér vart hliðstæðu, þ.e. að geta haft undir höndum gæði, verðmæti, sem öllum eru lífsnauðsyn. Að hafa þá stöðu að geta selt þessi verðmæti og verðlagt þau er, held ég, ef við færum þá leið, allt að því aðför að þeirri samfélagsgerð sem við höfum verið að byggja upp og erum mjög stolt af — vissulega má alltaf gera betur og við erum að reyna að gera betur. Í grundvallaratriðum er ég mjög ánægður með að komið er fram frumvarp sem tryggir eignarhald ríkis og sveitarfélaga á þeim auðlindum sem nú eru í eigu ríkis og sveitarfélaga en einnig að reynt sé að nýta hagkvæmni einkafjármagnsins þar sem það á við án þess að setja það í eitthvert uppnám að komandi kynslóðir hafi aðgang að umræddum auðlindum. Mér finnst sú hugsun og sú hugmyndafræði sem hér birtist afar skynsamleg og styð hana heils hugar.

Í þessari umræðu hafa menn fjallað almennt um auðlindir og ég held að það sé rétt að auðlindir eru og verða aldrei tæmandi taldar. Það sem er auðlind í dag töldu menn kannski ekki auðlind fyrir nokkrum árum. Hver hefði t.d. ímyndað sér fyrir 100 árum að rafsegulbylgjur í loftinu gætu verið takmörkuð auðlind af því að umferðin væri svo mikil að hún kæmist ekki fyrir? Að því leytinu til getur þetta breyst með breyttum lífsháttum, breyttri tækni o.s.frv. Við þurfum alltaf að vera tilbúin til að skoða það. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að auðvitað verða auðlindir aldrei skilgreindar í eitt skipti fyrir öll. Við erum líka með auðlindir, eins og andrúmsloft, sólarljós, vindorku, sem enginn eignarréttur er í sjálfu sér á. Vel kann svo að fara að tækni og hugvit framtíðarinnar geri það að verkum að þetta megi nýta á einhvern hátt og þá er það bara verkefni framtíðarinnar að reyna að skilgreina hvernig með það er unnið. En í grundvallaratriðum er þetta: Við þurfum að tryggja að auðlindir séu nýttar á sjálfbæran hátt og við höldum þeim þannig við að komandi kynslóðir geti nýtt þær. Það er verkefni okkar og það er markmið okkar og mér finnst það frumvarp sem hér liggur fyrir gott skref í þá átt.

Ég hef lengi talið afar mikilvægt að við tökum síðan lengri skref, stærri skref, þ.e. að í stjórnarskrá komi ákvæði þess efnis sem tryggi að ríkið selji ekki varanlega frá sér þessar auðlindir. Það vil ég sjá og fyrir því vil ég berjast og það tel ég afar mikilvægt. Þó að það hafi ekki tekist í þessari umferð er alveg ljóst að markmiðið er að tryggja að slíkt ákvæði komi í stjórnarskrá.

Ég vil leyfa mér það hér í lokin, tími minn er smám saman að renna út, alla vega í þessari ræðu, að mótmæla því sem hv. þm. Pétur Blöndal hélt hér fram áðan, að þetta mál væri í anda þjóðnýtingar og sovéthugsunar. Hér er allt önnur hugmyndafræði í gangi, hér er hugmyndafræði um það að tryggja eignarhaldið, tryggja auðlindirnar og tryggja það að komandi kynslóðir fái aðgang að þessum auðlindum — hvaða markmið getur verið merkilegra en það að tryggja aðgang komandi kynslóða að þessum auðlindum? Þetta er því gott skref í rétta átt.