135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[19:40]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er mjög eindregið þeirrar skoðunar að auðlindir þjóðarinnar, hvort sem er sjávarauðlindin, auðlindin í vatninu eða í orkulindunum, eigi að vera þjóðareign og öll skref sem stigin eru í þá átt eru mér að sjálfsögðu að skapi. Að því leyti sem þetta frumvarp er í þá veru styð ég að sjálfsögðu þá þætti þess. Ég er einvörðungu að segja að mér finnist ekki nóg að gert í þessu efni.

Ég heyri ekki betur en hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sé að tala um það sem ákjósanlegan kost að laða einkafjármagn inn í orkufyrirtækin. Ég hef um það miklar efasemdir. Ég vil að arður af auðlindum okkar, þessum auðlindum, sem nánast eðli máls samkvæmt — þrátt fyrir ákveðna hugmyndafræði sem gengur í gagnstæða átt — eru fákeppnisiðnaður en ekki samkeppnisiðnaður eða framleiðsla, renni í okkar vasa, til samfélagsins. Að þetta sé einhver kúvending frá því sem áður var — þetta er náttúrlega kúvending að því leyti að menn eru að bjóða einkafjármagnið velkomið inn í orkufyrirtækin, opna fyrir það, ég tel það afar vafasamt.

Það er alrangt að ég vilji skrúfa hlutina aftur á bak. Það var þannig að auðlindir þjóðarinnar voru þjóðareign. Síðan hefur það verið að gerast í seinni tíð að einkaeignarhald hefur verið að festa sig í sessi, bæði til sjávarins en einnig til landsins. Það er ofan af þeirri öfugþróun sem ég vil vinda, það er það sem ég á við þegar ég tala um að horfa aftur í tímann. (Forseti hringir.) En að sjálfsögðu er það á grundvelli nýrra viðhorfa sem vísa inn í framtíðina og sem hljóma núna um heiminn allan: (Forseti hringir.) Vatnið og orkulindirnar eiga að vera eign almennings.