135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

skipulags- og byggingarlög.

434. mál
[16:44]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Herra forseti. Það frumvarp sem hér er til umræðu er allra góðra gjalda vert. Ég hafði ekki undirbúið þátttöku mína í þessari umræðu og gat þess vegna ekki borið frumvarpið saman við þau lög sem það er flutt til að breyta en mér sýndist ef það er tekið í fullri alvöru, sem það verðskuldar, að þá kynni að vera að menn þyrftu að ræða það í botn. Þeir gera það kannski í umhverfisnefnd, væntanlega og vonandi, núna eða síðar ef það verður endurflutt eða kemur inn í breytingar á lögunum sem einnig gæti verið og sem betur fer verða þingmannamál stundum þannig. Þess er skemmst að minnast að hér var dreift í dag frumvarpi til lyfjalaga. Ég veit ekki mikið um það frumvarp en ég tók eftir því að tillaga frá þingmanni sem flutt var fyrst fyrir tveimur árum, frá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, um að hægt verði að selja nikótínlyf annars staðar en í apótekum, sem er kannski efnislega ekki mjög skylt þessu máli en þó er verið að verjast miklum skaðvaldi og það er kannski skylt, er loksins komin inn í stjórnarfrumvarp. Þetta er góð tillaga og ég vona að það hafi a.m.k. ekki dregið úr að þingmaðurinn er nú komin í stjórnarliðið sem hjálpar reyndar á einhvern undarlegan hátt hugmyndum þingmanna og tillögum. Ég get ekki annað en mælt með því að þetta frumvarp verði skoðað vel og tek undir það að efni málsins er þannig að við eigum auðvitað að hafa varann á og setja í lög reglur sem geta gert mönnum kleift að hafa þetta með þeim hætti, ef það þarf að hafa á annað borð, að það valdi ekki skaða.

Ég verð þó aðeins að segja í tilefni af síðustu orðum þingmannsins að ég held að þar hafi kannski verið ofmælt að veitast að hæstv. umhverfisráðherra fyrir að vera ekki stödd hér. Það er hægt að koma málum þannig fyrir að frumvörp af þessu tagi séu flutt, með hinum nýju þingskapareglum, á dögum þar sem ráðherrarnir eru viðstaddir og það er þingmönnum í sjálfsvald sett, þannig að þingmaðurinn hefði getað komið því þannig fyrir ef hún hefði kosið svo. Ég veit að hún er eins og ég til skamms tíma hér, ég veit ekki hvernig stendur á fyrir henni með þeim hætti en það er a.m.k. ekki hægt að saka ráðherrann um að vera ekki stödd hér þegar þingmálið er tekið fyrir á umræðudegi eins og í dag. Þetta vildi ég segja vegna þess að ég tel að ráðherrann hafi, af ráðherrum að vera, óvenjumikinn skilning á einmitt efni þessa máls og því sé enn síðri ástæða til að hnjóða í hana fyrir þessar sakir.