135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

52. mál
[18:08]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Menn verða að átta sig á því hvað um er að ræða þegar verið er að tala um áhættumat. Þar sem því hefur verið ruglað saman fyrr í umræðunni í dag við útreikning á burðarþoli ætla ég aðeins að nefna að þegar áhættumat er gert er verið að greina þá áhættuþætti sem af tilteknu mannvirki stafa og gert er líkindamat á atburðum sem kunna að gerast og síðan verðmætum í húfi. Það er þetta, margföldun á þessum tveimur breytum, þ.e. líkindamati annars vegar og verðmætin sem eru í húfi hins vegar, sem er hið eiginlega áhættumat. Þegar verið er að tala um líkindamatið er í þessu tilfelli verið að tala um líkur á flóði eða stíflubresti og þegar verið er að tala um verðmæti í húfi er verið að tala um fólk og landsvæði, lax og guð má vita hvað.

Þingsályktunartillagan er öðrum þræði flutt vegna þess að til þess eru vítin að varast þau. Það er alveg ljóst að við endurskoðað áhættumat Kárahnjúkavirkjunar endurskoðuðu hönnuðir verk sín að því er virtist óhikað, sjálfa sig og sín verk, og voru á sama tíma að endurhanna öll stíflumannvirkin. Nákvæmlega það sama er að gerast í Þjórsá. Það er verið að endurhanna alla hluti þarna. Það er verið að reyna að fara eftir athugasemdum frá íbúum og landeigendum og það er verið að breyta og koma með tillögur og þetta eru sömu einstaklingar sem þarna eru.

Ég mótmæli því harðlega að hér sé vegið að starfsheiðri þessara manna því að sérfræðingum í gerð áhættumats ætti öðrum fremur að vera ljóst mikilvægi þess að áhættumat sé unnið af aðilum sem ekki hafa beina fjárhagslega hagsmuni af niðurstöðunni og það sé þess vegna hafið yfir alla gagnrýni.