135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

samtök framhaldsskólanema.

365. mál
[15:06]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra og hv. þm. Merði Árnasyni, sem tók þátt í þessari umræðu, fyrir að sýna áhuga á þessu málefni. Ég tel mjög brýnt að til séu heildarhagsmunasamtök framhaldsskólanemenda hér á landi.

Að sjálfsögðu er það svo að hæstv. ráðherra á ekki að hafa einhver inngrip í það hvernig þau samtök starfa enda var það þannig með Félag framhaldsskólanema á sínum tíma að það starfaði með mjög öflugum hætti og auðvitað var það svo í mörgum málum að heildarsamtök framhaldsskólanemenda og þáverandi hæstv. ráðherra greindi á í mjög mörgum málum enda er það bara eðlilegt.

Ég er sammála hæstv. ráðherra í því að auðvitað eiga heildarsamtök framhaldsskólanemenda ekki bara að láta sig varða það sem fram fer innan framhaldsskólanna heldur bara almennt það sem gengur og gerist í mannlífinu hér á landi, í mannréttindamálum og á fleiri sviðum. Ég man að þau samtök sem ég tók þátt í á sínum tíma, FF, skiptu sér af mjög mörgum málum sem snertu marga innviði okkar ágæta samfélags.

Hæstv. ráðherra talaði um ný samtök, Samtök íslenskra framhaldsskólanema. Eins og ég benti á í framsögu minn er þar ekki um heildarsamtök framhaldsskólanemenda að ræða en ég fagna þeirri yfirlýsingu ráðherrans að fjármunum sé varið til þeirrar hreyfingar. Vonandi verður umræðan til þess að námsmannahreyfingar innan hvers skóla sameinist þá þeirri hreyfingu þannig að á ný verði til heildarhagsmunasamtök framhaldsskólanemenda hér á landi. Eins og ég rakti hér áðan, og hæstv. ráðherra benti á, eru uppi fjölmörg álitaefni sem snerta hagsmuni framhaldsskólanemenda og mjög brýnt, ekki síst fyrir gæði menntunar í landinu, að heildarsamtök framhaldsskólanemenda verði lífguð við á ný.