135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

Fríverslunarsamtök Evrópu 2007.

448. mál
[14:53]
Hlusta

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka greinargóða skýrslu. Í skýrslunni er getið um vinnuskjal hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur og Evrópuþingmannsins Diönu Wallis um framtíðarhorfur EES-samningsins. Þær miklu breytingar sem orðið hafa á Evrópusambandinu síðan sá merkilegi samningur var gerður hafa vissulega haft áhrif sem huga þarf að.

Samningurinn tryggði EFTA-ríkjunum aðgang að sérfræðingahópum framkvæmdastjórnar ESB sem vinna frumvinnu við tillögugerð. Síðan hafa valdahlutföll og áhrif stofnana ESB breyst. Áhrif ráðherraráðsins og Evrópuþingsins eru nú mun meiri en þegar samningurinn var gerður og EFTA-ríkin hafa enga formlega aðkomu að því að koma áherslum sínum á framfæri þegar mál eru til meðferðar hjá þessum stofnunum.

Reyndar er það svo að EFTA-ríkin hafa aldrei haft nein áhrif þegar endanlegar ákvarðanir eru teknar um þau efni sem tilheyra innri markaðnum og þau hafa skuldbundið sig til að taka upp í eigin löggjöf. Það má því halda því fram að talsvert framsal fullveldis hafi átt sér stað þegar samningurinn var gerður enda munu nokkrar umræður um það efni hafa átt sér stað hér í þingsal.

Ég er þeirrar skoðunar að samþykkt EES-samningsins hafi verið mikið gæfuspor. Ég er líka þeirrar skoðunar að það hefði verið gæfuspor ef við hefðum á sínum tíma, þ.e. um leið og aðrar EFTA-þjóðir, sótt um aðild að Evrópusambandinu.

Ég hef oft ergt mig yfir því að Norðmenn komu endanlega í veg fyrir að aðild að Evrópusambandinu yrði rædd hér á landi þegar þeir höfnuðu aðildarsamningi sem þeir höfðu gert árið 1994. Það má velta því fyrir sér hvort fullveldið hafi þá ekki verið sent úr landi í bögglapósti þegar atkvæðagreiðsla í útlöndum kom í veg fyrir lýðræðislega umræðu hér á landi, en það er önnur saga.

Þangað til ráðamenn fást til að fara af alvöru í þá mikilvægu umræðu sem ég tel að aðild að Evrópusambandinu sé er mikilsvert að halda vel á spöðunum og nýta öll þau tækifæri sem standa til boða til að halda EES-samningum lifandi og hafa sem mest áhrif á lagasetninguna sem mun gilda jafnt hér á landi sem í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Evrópunefndin, sem talað var um hér fyrr í umræðunni, lagði fram allmargar tillögur í mars árið 2007 um það hvernig við gætum reynt að auka áhrif okkar á Evrópuvettvangi. Það er mikilsvert að hrinda þeim öllum í framkvæmd þangað til við getum nýtt okkur besta kostinn, sem ég tel vera að ræða af alvöru um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Virðulegi forseti. Ég er ekki viss um að ég sé sammála hv. þm. Bjarna Benediktssyni um að framtíð EFTA sé björt. En ég treysti því að í framtíðinni, hvort heldur bjartri eða dökkri, muni þingmannanefndin halda áfram að vinna öflugt starf.