135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

staða sjávarplássa landsins.

[15:34]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það þarf að hugsa stórt. Því miður þá verð ég ekki var við það í þessari umræðu að margir hv. þingmenn hugsi stórt í þessu. Menn eru dottnir niður á það plan að vera krytur á milli flokka og manna, hver gerði þetta og hver gerði þetta ekki. Og þegar menn tala um hugrekki þá held ég að það sé alveg ótrúlegt hugrekki hjá hv. þingmanni Guðna Ágústssyni að koma hér upp eins og hann sé handhafi lausnarinnar á vanda sjávarútvegsins og að það hefði breytt einhverju stórkostlegu ef bara hefði verið skorið niður í 150 þús. tonn.

Segjum sem svo að það hefði verið skorið niður í 150 þús. tonn. Vitið þið þá hvað hefði verið búið að skera þorskkvótann mikið niður á þeim átta árum sem voru liðin frá því að ég og hv. þm. Guðni Ágústsson tókum sæti í ríkisstjórn? 100 þús. tonn. (Gripið fram í: Suss, suss) 100 þús. tonn og hv. þingmaður talar eins og hann sé með lausnina á vandamálinu.

Ég ætla ekki að gera lítið úr vandamálinu og úr erfiðleikum þess sem við höfum verið (Gripið fram í.) að glíma við en að koma hér upp og þykjast vera handhafi lausnarinnar, það þarf mikið hugrekki til þess.

Það þarf að hugsa stórt, það er rétt, en þegar menn koma hér upp og segjast vera að tala upp ástandið og byrja svo á því að rífa það niður og gera hlutina verri en þeir raunverulega eru, það eru þversagnir í slíkum ræðuhöldum.

Varðandi það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði um Fasteignamat ríkisins og þær breytingar sem hafa verið gerðar á Fasteignamati ríkisins að undanförnu þá hafa menn verið að flytja störf út á land en ekki að fækka þeim. Það hefur verið fjölgað á Akureyri en reyndar fækkað á öðrum stöðum úti á landi. En í heildina þá hafa fleiri störf verið (Forseti hringir.) flutt út á land en þar hafa verið lögð niður.