135. löggjafarþing — 77. fundur,  12. mars 2008.

Reykjavíkurflugvöllur.

[13:51]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Til að hafa það alveg á hreinu þá vantar okkur ekki peninga til að fara í þessa framkvæmd, þetta er skrifað inn sem sérstök fjáröflun. Flugstoðir hafa búið til rekstrarprógramm og reiknilíkan fyrir byggingu flugstöðvar þar sem þeir sem njóta þjónustu þar og fá aðstöðu þar borga fyrir og flugfarþegar borga ákveðið gjald líka. Það vantar því ekki peninga en það vantar leyfi frá Reykjavíkurborg til að hefjast handa.

Ég var kominn að því áðan, virðulegi forseti, að segja frá hugmyndum Flugfélags Íslands um að endurbyggja núverandi húsnæði sem þeir eru í og í því sambandi er mér ljúft og skylt að segja frá því að ég átti fund með forstjóra Flugfélags Íslands síðastliðinn mánudag og borgarstjóranum í Reykjavík og aðstoðarmanni hans í framhaldi af því til að ræða þá stöðu sem uppi er.

Ég get líka tekið undir það með forstjóra Flugfélags Íslands og ég ræddi það við hann að það væri kannski skynsamlegasta leiðin til þess að fá leyfi að byggja þar hús sem gæti þjónað sem flugstöð á næstu árum og væri þá ekki farið í þá stóru. Það yrði þá eingöngu (Forseti hringir.) til bráðabirgða fyrir flugstöð og alltaf er það tekið fram að ef að völlurinn fer má nota það húsnæði undir annað. Ég vona, hæstv. forseti, að þetta gefi smáinnsýn í að það er unnið að málum af fullum krafti í samgönguráðuneytinu.